top of page

Ótrúleg öskubuskusaga Angelu Marsons og aðalsöguhetju hennar, Kim Stone.

 

Það er óhætt að líkja velgengni metsöluhöfundarins Angelu Marsons við hið vel þekkta ævintýri um Öskubusku. Hún var farin að örvænta um að geta haft í sig og á eftir að hafa verið sagt upp starfi sínu til nítján ára – sem öryggisvörður í verslanamiðstöð. Maki hennar var óvinnufær eftir meiriháttar skurðaðgerð og hún fékk ekki einu sinni vinnu í vöruhúsi Amazon í Bretlandi, starf sem hún sótti um, sem er kaldhæðnislegt í ljósi sögunnar. Atvinnulaus og tekjulaus þurfti hún að selja allt lauslegt í fórum sínum og treysta á velvilja vina og fjölskyldu til þess að geta greitt afborganir af húsinu. Hún var komin á botninn.

 

Til að bæta gráu ofan á svart var samningi hennar við umboðsskrifstofu rithöfunda í London sagt upp. Hún hafði ekki náð að skrifa bók sem náði í gegn og draumur hennar um að verða rithöfundur virtist ætla að verða að engu.

 

Endalaus höfnun

 

Hún hélt þó áfram að senda út handrit að glæpasagnaseríunni sem hún var byrjuð á en fékk dræmar undirtektir. Svörin voru öll á sömu nótum; „Okkur líst vel á bókina ... bara ekki alveg nógu vel.“ Sumum fannst sögusviðið í Svörtulöndum ekki nógu spennandi, aðrir óttuðust að lesendum myndi ekki líka við hina köldu aðalpersónu, Kom Stone, sem þolir ekkert kjaftæði. Með hverju höfnunarbréfinu minnkaði sjálfstraust Angelu til að skrifa og að lokum var hún hætt að taka upp blýantinn (hún handskrifar alltaf fyrstu drög að bókum sínum).

 

Tölvupósturinn sem breytti öllu

 

Einmitt þegar hún var orðin úrkula vonar um að nokkur vildi gefa út bækur hennar um Kim Stone barst henni tölvupóstur, í október 2014. Sendandinn hafði unnið hjá umboðsskrifstofunni sem hafði látið Angelu fara - og lesið handrit hennar þar. Nú var hann kominn í nýtt starf við að velja bækur til útgáfu hjá nýju fyrirtæki sem sinnti stafrænni útgáfu bóka. Erindið var að athuga hvort Angela hefði áhuga á að gefa út hjá þeim, fyrirtækinu Bookouture.

 

Angela minnist þessa dags:

 

„Þetta var alger líflína fyrir mig. Ég gerði mér engar vonir um mikla sölu, ég hefði verið ánægð með 500 stykki. Það eina sem ég vildi var að sjá hvaða viðbrögð ég fengi hjá lesendum. Ég vildi bara að lesendur myndu njóta bókanna minna.“

 

Metsölubók í fyrstu tilraun

 

Til að gera langa sögu stutta þá kom fyrsta bók hennar um Kim Stone, Þögult óp (Silent Scream) út í febrúar 2015 á rafrænu formi og síðan hafa selst meira en 1.000.000 eintaka af bókinni. Hún var mest selda bókin á Amazon í Bretlandi í meira en mánuð, fór á topp 5 í Bandaríkjunum og hefur komið út í meira en 20 öðrum löndum. Síðan hafa komið út þrettán aðrar bækur þar sem Kim Stone er í aðalhlutverki og hafa þær allar náð inn á topp 10 listann hjá Amazon. Alls hefur hún selt meira en 3 milljónir bóka til þessa. 

 

Það eru þó viðbrögð lesenda sem Angelu þykir vænst um – meira en 8.000 fimm stjörnu dómar segja sína sögu.

 

„Eftir endalausar hafnanir frá bókaútgefendum hafði ég áhyggjur af viðbrögðum lesenda,  að þeim myndi ekki líka við aðalpersónurnar eða sögusviðið – en ég þurfti greinilega ekki að hafa áhyggjur. Ég fæ tölvupósta og skilaboð í gegnum Facebook frá lesendum alls staðar að sem segja mér hversu vel þeim líkar við Kim Stone og að þeir bíði óþreyjufullir eftir meiru. Það er svo dásamlegt að fá svona viðbrögð, ég hef margoft tárast yfir skilaboðunum sem mér hafa borist.“

 

Varðandi fjárhagslegu hliðina á því að verða alþjóðlegur metsöluhöfundur svo að segja á einni nóttu, þá segir Angela að það sé enn að síast inn.

 

„Draumurinn var alltaf að geta lifað af skriftunum og það eru forréttindi að geta það loksins. Í hvert sinn sem ég fæ höfundarlaun verð ég að klípa mig, mér finnst það alltaf eins og lottóvinningur. Aldrei í lífinu hefði ég getað ímyndað mér að selja tvær milljónir bóka. Fólkið hjá Bookouture hefur reynst mér stórkostlega vel og hefur hvatt mig áfram og til að gera enn betur og í raun uppfyllt alla mína drauma. Síðustu tvö ár hafa verið ótrúlegt ferðalag undrunar og uppgötvana sem gera hvern dag spennandi. Ég er svo óendanlega þakklát öllum þeim sem hafa skrifað svo vel um bækurnar mína og stutt mig og Kim Stone til að halda áfram.“

 

Spurð að því hvað kemur næst hjá rannsóknarlögreglunni Kim Stone segir Angela að hún sé full af hugmyndum fyrir næstu bækur og hvergi nærri hætt.

 

„Ég byrjaði að skrifa vegna þess mér fannst ég þurfa að koma þessum sögum frá mér. Kim Stone kom til mín og neitaði að fara, og því varð ég að skrifa um hana. Mér finnst samt eins og þetta ferðalag sé rétt að byrja – það er svo mikið í fortíð Kim Stone sem á eftir að koma í ljós.“

 

Að lokum hefur Angela góð ráð handa þeim sem ganga með rithöfundinn í maganum.

 

„Ég veit að þetta er klisja, en ekki gefast upp. Það er alltaf möguleiki á að gæfan verði þér hliðholl – rússíbanareiðin mín er sönnun þess.“

igbSfdnl (1).jpg
Banvaenn_sannleikur_KAPA_FRONT.jpg
Brotin_bein_kapa_FRONT.jpg
Fyrsta_malid_kapa_FRONT.jpg
DaudarSalir_kapa_FRONT.jpg
Þögult-óp.jpg
Blodhefnd_kapa_fram.jpg
MyrkridBidur_kapa_fram.jpg
LjoturLeikur_kapa_fram.jpg
TynduStulkurnar_kapa_fram.jpg
bottom of page