top of page

Myrkrið bíður

Hin framliðnu segja ekki frá leyndarmálum … nema þú leggir við hlustir.

 

Illa útleikið andlitið starði ósjáandi upp í bláan himininn, munnurinn var fullur af mold. Yfir blóðugu líkinu var flugnasveimur.

 

Starfsemi Westerley-rannsóknarstofnunarinnar er ekki fyrir viðkvæmar sálir. Þar eru geymd lík á ýmsum stigum rotnunar til að skoða áhrif hennar og einkenni. Þegar Kim Stone rannsóknarlögreglufulltrúi uppgötvar þar nýlegt lík ungrar konu virðist sem morðingi hafi fundið hina fullkomnu leið til að breiða yfir glæpi sína.

 

Önnur stúlka verður fyrir árás og er skilin eftir í blóði sínu, líkaminn fullur af sljóvgandi lyfjum og munnurinn af mold. Stone virðist augljóst að raðmorðingi sé að verki – en hve mörg lík munu finnast? Og hver er næst?

 

Blaðamaðurinn Tracy Frost hverfur og allar viðvörunarbjöllur hringja. Lausn gátunnar virðist að finna í fortíðinni – en getur Kim leyst málið áður en enn ein stúlka verður fórnarlamb morðingjans?

 

Nýr ávanabindandi og hörkuspennandi tryllir frá alþjóðlega metsöluhöfundinum Angelu Marsons. 

„5 stjörnur af 5 mögulegum plús vínglas (til að róa taugarnar, eftir að hafa lesið svona hjartsláttarörvandi trylli).“

The Book Review Café


„Vá, vá, vá! Ég gersamlega elska þessa!“
Chelle's book reviews

 

„Þú gerir hlé á lífinu þangað til þú ert búin með nýjustu bók um hina ÓTRÚLEGU Kim Stone ... algerlega stórkostleg.“

Reading Room with a View

 

„Þetta er hugsanlega besti tryllir sem ég hef nokkurn tíma lesið. Ég náði varla að anda vegna spennu!“ 

Redheaded Bookworm

 

„Besta bók sem ég hef lesið á árinu. Dimm, átakafull, kalt-vatn-milli-skinns-og-hörunds og algerlega fullkomin.“

The Bookshelf Blog

 

„Æsispennandi tryllir. Neglur nagaðar upp í kviku!“

Best Crime Books & More

Lestu fyrstu tvo kaflana hér að neðan

1. KAFLI 

Svörtulönd – í dag 

Kim sat á hækjum sér á bak við ruslatunnu á hjólum. Eftir fimmtán mínútur í sömu stellingu var hún farin að missa tilfinninguna í lærunum. 

   Hún talaði ofan í hálsmálið. „Stace, ertu búin að frétta eitthvað af húsleitarheimildinni?“ 

   „Ekki ennþá, stjóri,“ heyrðist í heyrnartólinu. 

   Kim urraði. „Ég ætla ekki að bíða endalaust.“ 

   Útundan sér sá hún Bryant hrista höfuðið. Hann stóð álútur yfir opinni vélarhlíf á bíl, beint á móti íbúð hins grunaða. 

   Bryant var alltaf rödd skynseminnar. Varfærið eðli hans mælti með að þau gerðu allt eftir bókinni og hún var samþykk því. Upp að vissu marki. En þau vissu öll hvað átti sér stað í þessu húsi. Það varð að taka enda strax í dag. 

   „Viltu að ég komi nær, stjóri?“ spurði Dawson áhugasamur í eyra hennar. Kim ætlaði að fara að svara neitandi þegar rödd hans kvað strax við aftur. „Stjóri, ég sé karlmann nálgast frá hinum enda götunnar.“ Stutt þögn. „Einn og sjötíu, svartar buxur og grár stuttermabolur.“

   Kim mjakaði sér aðeins fjær. Hún var tveimur húsalengdum frá íbúð hins grunaða, á milli ruslatunnu og hortensíurunna, en hún mátti ekki taka áhættuna á því að láta sjá sig. Þessa stundina gátu þau ennþá komið á óvart og hún vildi ekki að það breyttist.

   „Þekkirðu hann, Kev?“ spurði hún og talaði enn ofan í hálsmálið. Var þetta einhver af góðkunningjum lögreglunnar?

   „Nei.“

   Kim lokaði augunum og óskaði þess að maðurinn færi framhjá. Þau þurftu ekki þriðja karlmanninn á svæðið. Í augnablikinu voru þau með yfirhöndina.

   „Hann fer inn, stjóri,“ sagði Bryant hinum megin við veginn. 

   Fjárans – það gat bara þýtt eitt. Þetta var viðskiptavinur.

   Hún ýtti á takkann á hljóðnemanum. Hvar var þessi fjárans heimild? „Stace?“

   „Ekkert ennþá, stjóri.“

   Hún heyrði mennina heilsast þegar dyrnar opnuðust.

   Kim fann blóðið ólga í æðunum. Hver einasti vöðvi sem hún fann fyrir þráði að taka sprettinn að útidyrunum, ryðjast inn, handjárna íbúana, lesa þeim réttindi þeirra og spá svo seinna í pappírsvinnuna. 

   „Stjóri, gefðu þessu smátíma,“ sagði Bryant undir vélarhlífinni. Auðvitað vissi hann nákvæmlega hvað hún var að hugsa. Kim ýtti þegjandi á hnappinn á talstöðinni til merkis um að hún hefði heyrt til hans. 

   Ef hún færi inn án þess að vera með heimild myndi málið líklega aldrei ná því að fara fyrir rétt.

   „Stace?“ spurði hún aftur.

   „Ekkert, stjóri.“

   Kim heyrði örvæntinguna í röddinni og vissi að Stacey var jafn æst í að geta gefið jákvætt svar, eins og hún var að heyra það.

   „Allt í lagi, þið öll, ég ætla að fara yfir í plan B,“ sagði hún í hljóðnemann.

   „Hvert er plan B?“ spurði Dawson. 

   Kim hafði í rauninni enga hugmynd. „Fylgist bara með,“ sagði hún og rétti úr sér. 

   Hún kom sér úr klóm hortensíurunnans og stappaði lífi í dofna fæturna. Hún strauk yfir svartar gallabuxurnar til að vera viss um að þær væru ekki útataðar í blómsafa. Síðan gekk hún ákveðin fram fyrir húsið og út á gangstéttina, það var ekki að sjá að hún væri nýskriðin út úr nágrannagarðinum. Á göngunni losaði hún heyrnartólið úr eyranu á sér og faldi það í hárinu. 

   Já, heimildin var á leiðinni en þessi maður var að öllum líkindum viðskiptavinur og það var tilhugsun sem hún gat ekki kyngt. 

   Kim stillti sér upp þannig að heyrnartólið sneri að veginum. Hún bankaði á dyrnar og setti upp bros. Bryant hvæsti í heyrnartólið, sem heyrðist ennþá í í hárinu á henni. 

   „Stjóri, hvað í andsk …?“ 

   Hún lyfti fingri að vörum sér til að gefa merki um þögn þegar hún heyrði fótatak á ganginum fyrir innan. 

   Ashraf Nadir opnaði dyrnar. Kim var sviplaus og lét ekki í ljós nein ummerki um að þau hefðu verið að fylgjast með hverri hreyfingu hans undanfarnar sex vikur. 

   Nadir hrukkaði strax ennið. 

   „Fyrirgefðu, en gætirðu mögulega hjálpað mér? Bíllinn bilaði þarna hjá okkur,“ sagði Kim og nikkaði yfir til Bryants.      „Maðurinn minn heldur að þetta sé eitthvað voðalega flókið en ég held að þetta sé bara geymirinn.“ 

   Ashraf leit yfir öxlina á Kim og hún leit yfir öxlina á honum. Hinir tveir sem voru í íbúðinni töluðu saman inni í eldhúsinu. Seðlabunki gekk á milli þeirra. 

   Ashraf Nadir byrjaði að hrista höfuðið. „Nei ... mér þykir það leitt ...“ Röddin var með þykkum hreim. Hann hafði komið frá Írak aðeins sex mánuðum fyrr. 

   „Áttu nokkuð startkapla sem við gætum fengið lánaða?“ 

   Hann hristi höfuðið aftur, steig til baka og Kim sá hurðina byrja að lokast. 

   „Herra, ertu viss …?“

   Dyrnar héldu áfram að lokast.

   „Komin, stjóri,“ öskraði Stacey í eyrað á henni. 

   Kim stakk hægra fæti inn í gættina og setti allan sinn þunga á hurðina. Hún fann fyrir gustinum frá Bryant þegar hann birtist. 

   „Ashraf Nadir, þetta er lögreglan og við höfum heimild til að leita …“

   Útihurðin gaf eftir. Kim ýtti henni upp og sá Ashraf bruna í gegnum húsið, og velta hinum tveimur við eins og keilum. Hún þaut á eftir honum út um bakdyrnar.

   Gróðurinn í bakgarðinum var þéttur, með úr sér sprottnum runnum. Hægra megin skagaði gamall sófi út úr jurtaflækjunum upp við brotna girðingu. Ashraf ruddist áfram í gegnum garðinn. Kim fylgdi í kjölfarið og reif sig í gegnum hátt grasið sem reyndi að vefja sig um ökkla hennar.

   Ashraf hikaði augnablik og leit í örvæntingu í kringum sig. Augun staðnæmdust við garðskúr sem var hálffalinn á bak við villta bergfléttu. Hann stökk upp á fötu sem var hvolft á jörðina og spyrnti með fótunum í múrvegginn eftir fótfestu. Kim kastaði sér áfram og rétt missti af honum. 

   „Fjárans,“ urraði hún, og fylgdi honum eftir, skref fyrir skref. 

   Þegar hún hífði sig upp á skúrinn var Ashraf að láta sig síga niður hinum megin. Kim fann að hún var að dragast aftur úr og hann fann það líka. Bros kom fram á þunnar varirnar er hann lét sig síga niður og andlitið hvarf úr augsýn.

   Sigurbros Ashrafs kveikti neista í Kim sem magnaði ákveðni hennar. Hún tók sér örskotsstund til að meta garðinn sem hann hafði stokkið inn í og sá svolítið sem honum hafði yfirsést. 

   Lóðin var opin og snyrtileg með nýslegnum bletti og hellulagðri verönd. Hægri hliðin lá að lóð næsta nágranna. Vinstri hliðin var af lokuð með tveggja metra hárri girðingu, alsettri hvössum göddum á toppnum. En fyrir framan girðinguna var nokkuð mun áhugaverðara. 

   Kim settist niður á skúrþakið og dinglaði fótunum fram af brúninni. Svo beið hún. 

   Tveir þýskir fjárhundar nálguðust og Ashraf snarstansaði. 

   Kim heyrði rödd Bryants í heyrnartólinu. 

   „Stjóri … hvar ertu?“ 

   „Kíktu hérna á bak við,“ svaraði hún í hljóðnemann. 

   „Uuu … þú situr uppi á skúrnum.“ 

   Athyglisgáfa Bryants kom henni stöðugt á óvart. 

   Þar sem sá sem var helst grunaður í málinu var ekki að fara neitt, beindust hugsanir Kim núna að ástæðunni fyrir þessari sunnudagsinnrás. 

   „Er búið að finna hann?“ spurði hún. 

   „Staðfest,“ svaraði Bryant. 

   Kim studdi höndum á mjaðmir og fylgdist með því þegar svartir og brúnir hundarnir nálguðust Ashraf, innrásarmanninn á svæðinu þeirra. Hann reyndi að bakka frá dýrunum, ósjálfráð viðbrögð voru að leggja á flótta, í huganum reyndi hann að finna mögulegar undankomuleiðir. 

   „Þarftu einhverja hjálp þarna, stjóri?“ suðaði rödd Bryants í eyrað á henni. 

   „Neei, ég kem eftir smá.“ 

   Ashraf bakkaði tvö skref í viðbót og sneri sér að Kim. Hún veifaði til hans. 

   Þýsku fjárhundarnir fylgdu honum eftir. Þó að þeir hreyfðu sig hægt sást ákveðnin í einbeittu augnaráði þeirra og spennunni í hálsinum. 

   Ashraf leit aftur á hundana og ákvað að það væri betra að eiga við Kim. Hann sneri sér og þaut til hennar. Við snögga hreyfinguna var eins og ýtt væri á rofa í hundunum sem sentust geltandi á eftir honum. Kim rétti hægri höndina niður og togaði manninn upp í öryggið. Hundarnir stukku urrandi upp og misstu naumlega af hælunum á Ashraf.

   Maðurinn sem Kim dró upp líktist ekkert manninum sem hafði opnað útidyrnar rétt áður. Bara með því að halda um grannan úlnliðinn fann hún að hann hríðskalf. Ennið var þakið svitaperlum, andardrátturinn þungur og ákafur.

Kim teygði sig ofan í rassvasann með vinstri hendi og festi járnin um úlnliðinn á hægri hendi Ashrafs áður en hann gat safnað sér saman. Hún ætlaði ekki að elta hann aftur.

   „Ashraf Nadir, þú ert handtekinn vegna gruns um að hafa rænt Negib Hussain og haldið honum ólöglega föngnum. Þú þarft ekki að segja neitt en það gæti skaðað vörn þína ef þú nefnir ekki eitthvað sem þú ert spurður um og notar það svo fyrir rétti. Allt sem þú segir er hægt að nota fyrir rétti.“

   Hún sneri manninum uppi á skúrnum þannig að hann sneri að íbúðinni. Þar stóð Bryant með krosslagðar hendur og hallaði undir flatt.

   „Ertu að verða tilbúin, stjóri?“

Kim færði Ashraf nær brúninni. Hún hefði glöð ýtt honum fram af með höfuðið á undan en siðareglur leyfðu ekki ástæðulaust ofbeldi gagnvart grunuðum. Hún þrýsti á öxlina á honum og neyddi hann til að setjast. 

   „Búin að lesa yfir honum?“ spurði Bryant og lét manninn síga niður á jörðina.

   Hún kinkaði kolli. Uppi á þakinu á garðskúr var ekki skrítnasti staður þar sem hún hafði framkvæmt handtöku en náði örugglega inn á topp fimm listann.

   Bryant greip um handjárnin á Ashraf og ýtti honum áfram.

   „Hvað stoppaði hann í að flýja?“

   „Tveir þýskir fjárhundar.“

   Bryant leit á hana út undan sér. „Já, ég hefði líklega frekar lagt í hundana.“ 

   Kim hundsaði hann og fór inn um bakdyrnar. 

   Hinn grunaði maðurinn og viðskiptavinurinn voru handjárnaðir og undir eftirliti Dawsons og tveggja einkennisklæddra lögreglumanna. Kim leit á Dawson með spurn í augunum. 

   „Stofan, stjóri.“ 

   Hún kinkaði kolli og fór gegnum næstu dyr á ganginum. Stacey sat á sófanum tæpan metra frá þrettán ára gömlum dreng sem var einungis klæddur í nærbuxur og stuttermabol undir jakkanum af Bryant. Jakkinn var alltof stór, eins og hann væri smákrakki sem hefði klætt sig upp á. 

   Drengurinn sat álútur, með fótleggina pressaða saman og kjökraði hljóðlega. Kim leit niður á samanvöðlaðar hendurnar á honum og lagði hendurnar á sér yfir þær. 

   „Negib, þú ert öruggur núna. Skilurðu mig?“ 

   Hörundið var kalt og þvalt. Kim tók hendur hans í sínar til þess að stoppa skjálftann. 

   „Negib, þú þarft að fara niður á sjúkrahúsið fyrir mig og síðan getum við náð í föður þinn …“ 

   Drengurinn rétti eldsnöggt úr sér og fór að skjálfa. Skömmin lýsti úr augum hans og Kim hélt að hjarta sitt myndi bresta. 

   „Negib, faðir þinn elskar þig afar mikið. Ef hann hefði ekki verið svona ákveðinn værum við ekki hérna.“ Hún dró djúpt að sér andann og neyddi Negib til að horfast í augu við sig. „Þetta er ekki þín sök. Ekkert af þessu er þér að kenna og faðir þinn veit það.“ 

   Hún sá hvað það reyndi á drenginn að halda aftur af tárunum. Þrátt fyrir sársaukann, niðurlæginguna og óttann sem drengurinn fann fyrir vildi hann ekki brotna niður og fara að gráta. 

   Kim mundi eftir öðrum þrettán ára einstaklingi sem hafði liðið nákvæmlega eins. Hún teygði sig fram og strauk vanga drengsins blíðlega og sagði það sem hún hafði þráð að heyra þá. „Elskan, þetta verður allt í lagi, ég lofa.“ 

   Orðin opnuðu fyrir táraflauminn og hávær ekkasog komu í kjölfarið. Kim hallaði sér fram og dró hann til sín. 

Hún starði yfir hvirfil hans og hugsaði með sér, Gott hjá þér, elsku drengurinn, hleyptu þessu bara út.

 

2. KAFLI 

Jemima Lowe fann hendurnar læsast um ökklana á sér. 

   Henni var kippt út úr sendibílnum með einni snöggri hreyfingu. Bakið skall í jörðina og höfuðið fylgdi á eftir. Sársaukastingurinn var eins og rýtingur inn í heilann á henni. Í nokkrar sekúndur sá hún ekkert annað en rauða kvalamóðu. 

   Gerðu það, slepptu mér, bað hún í huganum þar sem hún gat ekki hreyft varirnar. 

   Vöðvarnir í líkamanum höfðu misst tengslin við heilann. Útlimirnir hlýddu henni ekki lengur. Hugurinn öskraði skilaboð en afgangurinn af líkamanum hlustaði ekki. Hún sem gat venjulega hlaupið heilt maraþon, gat synt yfir Ermarsundið og til baka, gat hjólað þríþrautarvegalengd, í augnablikinu gat hún ekki einu sinni kreppt hnefann. Hún bölvaði líkamanum fyrir að bregðast sér og láta undan lyfinu sem flæddi um æðarnar. 

   Jemima fann að henni var snúið við á jörðinni. Mölin skrapaði á henni bakið þar sem bolurinn hafði flest upp. Hún var dregin á ökklunum. Hún sá allt í einu fyrir sér hellisbúa sem dró nýdrepna bráð heim fyrir fjölskylduna. 

   Áferðin á jörðinni undir henni breyttist. Þetta var gras. Höfuðið skoppaði upp og niður meðan líkaminn var dreginn af ósýnilegum höndum. Sjónarhornið breyttist. Hún var dregin upp brekku. Höfuðið kastaðist til hliðar og hún rak vangann í lítinn grjóthnullung.

   Hún sendi skilaboð til handanna um að grípa í jörðina. Hún vissi að eini möguleikinn var að hægja á þessu. Það var eina leiðin fyrir hana til að lifa af. 

   Þumalfingur og vísifingur náðu næstum að grípa í smá grasvisk, en runnu síðan í burtu þar sem fingurnir neituðu að halda. Jemima vissi að lyfið hafði lagt líkama hennar undir sig. Örvæntingartár stungu í augun. Hún vissi að hún var að fara að deyja – en vissi einnig að hún gat ekki stöðvað það.

   Erfiðisstuna frá fangara hennar rauf þögnina þegar brattinn jókst og afstaða líkamans breyttist.

   Gerðu það, slepptu mér, bað Jemima aftur í huganum. Hugurinn var orðinn skarpari en vöðvarnir neituðu að taka við sér. 

   Nú nam hún staðar. Hún lá á jafnsléttu, fæturnir í beinni línu við bakið.

   „Þú vilt að ég hætti, er það ekki, Jemima?“

   Þarna heyrðist röddin. Eina röddin sem hún hafði heyrt í heilan sólarhring. Röddin sem frysti hana inn að beini.

   „Ég vildi að þú hættir, Jemima. En þú gerðir það ekki.“

   Jemima hafði þegar reynt að útskýra mál sitt en ekki fundið réttu orðin. Hvernig gat hún útskýrt það sem hafði gerst þennan dag? Í huganum hljómaði sannleikurinn svo ófullnægjandi og ennþá verr þegar hún hafði sagt hann upphátt.

   „Eitt ykkar tróð sokk upp í mig svo að ég gæti ekki öskrað á hjálp.“

   Jemimu langaði til að biðjast afsökunar. Á því sem hún hafði gert. Mestöll fullorðinsár sín hafði hún verið á flótta frá minningunni um þennan dag. Hún hafði samt aldrei komist undan honum, skömmin hafði alltaf fylgt henni.

   Gerðu það, leyfðu mér að útskýra, öskraði hugurinn í gegnum dofann. Ef hún hefði mínútu til að hugsa sig um var hún viss um að hún gæti fundið réttu orðin.

   Henni tókst að opna munninn. Áður en hún gat safnað kröftum til að tala var einhverju troðið milli varanna á henni. Tungan hrökk undan þykku og þurru duftinu. 

   „Ég heyri hláturinn í þér þegar ég fer að sofa á kvöldin.“ 

   Önnur lúkufylli af mold kom upp í Jemimu. Hún fann hvernig moldin rann niður og stíflaði öndunarveginn. Öskur var að fæðast í hálsinum en fann ekki leiðina út. 

   „Ég mun aldrei þurfa að hlusta á hláturinn í þér aftur.“ 

   Annarri handfylli var troðið upp í hana og síðan lagðist lófi yfir andlitið. Kinnarnar tútnuðu þegar moldin leitaði að plássi. Eina leiðin sem henni var fær var niður um hálsinn. 

   Jemima fann hvernig andardrátturinn yfirgaf líkamann. Hún reyndi að mjaka sér undan hendinni sem hélt fyrir munninn á henni. Í huganum var hreyfingin sterk og kröftug, en í raun og veru var hún aðeins aumkunarvert fálm. 

   „Síðan hélstu mér niðri, var það ekki, Jemima?“ 

   Var tilfinningin svona? hugsaði hún og barðist við að ná andanum. 

   Hún fann hvernig lífið rann úr henni og ofan í jörðina. Hugurinn mótmælti öskrandi því sem líkaminn gat ekki brugðist við. 

   Eitt augnablik hreyfðist höndin og Jemima öðlaðist veika von um að þessu væri lokið. 

   Eitthvað hitti hana beint í mitt andlitið. Hún heyrði bein bresta sekúndubroti áður en sársaukinn sprakk í höfðinu á henni. Blóð gusaðist úr nefinu og fossaði niður á varirnar. Kvalirnar bárust til munnsins, hún öskraði þó að hún gæti ekki gefið frá sér neitt hljóð. Hún fékk bara meiri mold ofan í hálsinn. 

   Líkaminn reyndi ósjálfrátt að ýta moldinni út og Jemima kúgaðist. Hún reyndi að kyngja þurri moldinni en hún loddi við hálsinn að innan eins og nýhellt tjara. Tár tróðu sér út um augun meðan hún reyndi að finna andardráttinn einhvers staðar í líkamanum. 

   Annað högg lenti á kinninni. Í huganum rak hún upp kvalaöskur. Hún engdist um og skelfingarópin köfnuðu í moldinni.

   Þriðja höggið lenti á munninum. Tennur losnuðu úr gómnum. Sársaukinn heltók hana en róleg röddin heyrðist aftur.

  „Ég mun aldrei aftur sjá andlitið á þér í draumum mínum.“

   Aðeins ein hugsun fór gegnum hugann áður en myrkrið tók Jemimu til sín.

   Gerðu það, leyfðu mér að deyja. 

bottom of page