top of page

Týndu stúlkurnar

Tvær stúlkur eru horfnar. Aðeins önnur þeirra mun skila sér heim.

   Hjónin sem bjóða hærri peningaupphæð fá dóttur sína til baka, hin ekki. Þannig eru reglurnar. Annað barnið mun deyja.

   Þegar hinar níu ára gömlu Charlie og Amy hverfa skyndilega upplifa fjölskyldur þeirra sannkallaða martröð. Stuttu síðar berst staðfesting á hinu óhugsandi í textaskilaboðum; stúlkunum hefur verið rænt.

Næstu skilaboð etja fjölskyldunum tveimur saman í keppni um líf dætra sinna, og tíminn er senn á þrotum hjá Kim Stone og liðinu hennar.

   Mannræningjarnir virðast alltaf skrefi á undan og eftir því sem líkunum fjölgar áttar Stone sig á því að þetta eru mögulega hættulegustu glæpamenn sem hún hefur átt í höggi við. Möguleikarnir á að stúlkurnar finnist á lífi minnka með hverri klukkustund …

   Lausnina gæti verið að finna í leyndarmálum sem grafin eru í fortíð fjölskyldnanna. Tekst Kim að leysa úr þessu áður en það verður um seinan? Eða mun önnur stúlkan deyja?

Nýjasta, ávanabindandi glæpasagan frá metsöluhöfundinum Angelu Marsons.

„Frábær, frábær, frábær! Ef ég gæti gefið þessari fleiri stjörnur en 5 myndi ég gera það.“

Fiona’s Book Reviews

„Bækur Angelu Marsons verða bara betri og betri. Grípandi saga sem heltekur mann svo að það er ómögulegt að leggja bókina frá sér fyrr en hún er búin.“

Off the Shelf Book Reviews

„Vá, ég átti ekki von á að bækurnar um Kim Stone gætu orðið betri en hér hefur Angela Marsons slegið sjálfri sér við. Óhemju hraður tryllir með óvæntum útskotum og beygjum. Ég gat alls ekki lagt hana frá mér, hún er svo óhemju spennandi. Ég gef bókum ekki 5 stjörnur nema þær hafi eitthvað alveg sérstakt við sig, og Týndu stúlkurnar eiga 5 stjörnur svo sannarlega skilið!“

Cal Turner’s Book Reviews

1. kafli 

Svörtulönd – mars 2015

 

Kim Stone fann reiðina brenna innra með sér. Bræðin æddi eins og rafstraumur frá upptökum sínum í heilanum niður í iljar og aftur til baka.

   Ef Bryant samstarfsmaður hennar hefði verið þarna hefði hann sagt henni að róa sig. Hugsa áður en hún framkvæmdi. Hafa starfsferil sinn í huga, lifibrauðið.

   Það var líklega eins gott að hann var ekki með henni.

   Pure Gym-líkamsræktarstöðin var við Level-stræti í Brierley Hill, á milli Merry Hill-verslunarmiðstöðvarinnar og Waterfront-skrifstofubyggingarinnar.

   Það var sunnudagur, um hádegisbilið, og bílastæðið var fullt. Hún ók einn hring um stæðið og kom auga á bílinn sem hún var að leita að áður en hún lagði Ninja-hjólinu fyrir framan aðaldyrnar. Hún ætlaði ekki að stoppa lengi.

   Kim fór inn og að móttökuborðinu. Lagleg og vel þjálfuð kona brosti breitt og rétti fram höndina. Kim reiknaði með að hún vildi fá einhvers konar meðlimaskírteini. Hún var með skírteini af öðrum toga. Lögregluskilríkin sín.

   „Ég er ekki meðlimur hér en þarf að hafa tal af einum gesta ykkar.“

   Konan leit í kringum sig eins og hún þyrfti að leita ráða.

   „Þetta er lögreglumál,“ sagði Kim. Eins konar, bætti hún við í huganum.

   Konan kinkaði kolli.

   Kim leit á upplýsingatöfluna og vissi nákvæmlega hvert hún átti að fara. Hún beygði til vinstri og kom aftan að þremur röðum af vélum sem fólk var að hlaupa, stíga og skokka á.

   Hún renndi augunum eftir afturendunum á öllu þessu fólki sem eyddi svo mikilli orku í að fara ekki neitt.

   Sú sem hún var að leita að var á stigbretti í fjærhorninu. Sítt, ljóst taglið gaf til kynna að þetta væri hún. Síminn sem lá fyrir framan hana á mælaborði brettisins gerði útslagið.

   Þegar Kim var búin að finna skotmarkið hurfu henni öll umhverfishljóð og hún tók ekkert eftir forvitnislegu augnaráðinu sem beindist að henni sem einu fullklæddu manneskjunni í salnum.

   Það eina sem hún hugsaði um var hvaða þátt þessi kona hafði átt í dauða nítján ára drengs sem hét Dewain.

   Kim stillti sér upp framan við vélina. Undrunarsvipurinn á Tracy Frost náði næstum inn úr bræðinni sem hún fann til. En ekki alveg.

   „Get ég átt við þig orð?“ spurði hún þótt það væri eiginlega ekki spurning.

   Eitt augnablik missti konan næstum jafnvægið og það hefði nú alls ekki verið nógu gott.

   „Hvernig í andskotanum komstu …?“ Tracy leit í kringum sig.

„Ekki segja mér að þú hafir veifað skírteininu til að komast hingað

inn?“

   „Get ég átt við þig orð, í einrúmi?“ endurtók Kim.

   Tracy hélt áfram að stíga vélina.

   „Mér er alveg sama þótt við gerum þetta hérna,“ sagði Kim og hækkaði röddina. „Ég mun aldrei sjá þetta fólk hérna aftur.“

   Að minnsta kosti helmingurinn af fólkinu í salnum var farinn að stara á þær.

   Tracy steig af vélinni og teygði sig í símann sinn.

   Kim varð hissa að sjá hve lágvaxin hún var, líklega innan við hundrað og sextíu sentímetrar. Hún hafði aldrei séð Tracy án fimmtán sentímetra háu hælaskónna, alveg sama hvernig viðraði.

   Kim hrinti upp hurðinni að kvennasnyrtingunni og ýtti Tracy upp að veggnum, höfuðið á henni rétt slapp framhjá handþurrkunni.

   „Hvað í andskotanum hélstu að þú værir að gera?“ öskraði Kim.

   Einn básinn opnaðist og táningsstúlka skaust út. Núna voru þær einar.

   „Þú mátt ekki snerta mig svona –“

   Kim hörfaði örlítið en hélt sig mjög nálægt Tracy. „Hvernig í helvítinu datt þér í hug að birta þessa sögu, heimska tíkin þín? Hann er dáinn núna. Dewain Wright er dáinn og það er þér að kenna.“

   Tracy Frost, blaðamaður og óværa af verstu tegund, deplaði augunum tvisvar þegar orð Kim sukku inn. „En … sagan … mín …“

   „Sagan þín varð til þess að hann var drepinn, helvítis fíflið þitt.“

   Tracy hristi höfuðið. Kim kinkaði kolli. „Ó, jú.“

   Dewain Wright var táningur í Hollytree-hverfinu. Hann var meðlimur í gengi sem hét Hollytree-hrottarnir í yfir þrjú ár og vildi komast úr því. Gengið fékk veður af fyrirætlunum hans og hann var stunginn. Þeir héldu að þeir hefðu drepið hann en vegfarandi hafði framkvæmt fyrstu hjálp á honum og Kim var kölluð inn til að rannsaka þessa morðtilraun.

   Fyrstu fyrirmælin hennar voru að halda því að Dewain hefði lifað tilraunina af leyndu fyrir öllum nema fjölskyldu hans. Hún vissi að ef það fréttist til Hollytree myndi gengið finna einhverja leið til að gera út af við hann.

   Hún eyddi nóttinni í stól við sjúkrarúmið hans og bað þess að hann næði sér og færi að anda á eigin spýtur. Hún hélt í höndina á honum til að reyna að veita orku sinni yfir í hann. Hugrekkið sem drengurinn sýndi við að reyna að breyta lífi sínu og berjast gegn örlögunum, snerti hana djúpt. Hana langaði að fá tækifæri til að kynnast þessum unga manni sem hafði ákveðið að hann vildi ekki lifa lífinu sem meðlimur glæpagengis.

   Kim hallaði sér nær og boraði augunum inn í Tracy. Hún komst ekki undan. „Ég bað þig að birta ekki söguna en þú réðst ekki við þig, var það? Þetta snerist allt um að vera fyrst með fréttirnar, ekki satt? Ertu svo ótrúlega örvæntingarfull að fá stóru blöðin til að taka eftir þér að þú fórnir lífi ungs manns?“ Kim öskraði upp í opið geðið á henni. „Ja, ég vona þín vegna að þau taki eftir þér – vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þig hérna lengur. Ég skal ganga úr skugga um það.“

   „Þetta var ekki út af –“

   „Auðvitað var þetta út af þér,“ æpti Kim. „Ég veit ekki hvernig þú komst að því að hann væri enn lifandi, en hann er dáinn núna. Í þetta sinn er það satt.“

   Tracy varð ringluð á svipinn. Hana langaði greinilega að segja eitthvað en hún fann ekki réttu orðin. Kim hefði hvort eð er ekki hlustað á hana.

   „Þú veist að hann var að reyna að komast út úr þessu, er það ekki? Dewain var ágætis náungi sem var bara að reyna að halda lífi.“

   „Þetta getur ekki hafa verið út af mér,“ sagði Tracy og litur færðist aftur í kinnarnar á henni.

   „Jú, Tracy, það var það,“ sagði Kim með áherslu. „Þú ert með blóð Dewains Wright á skítugu litlu skönkunum á þér.“

   „Ég var bara að sinna mínu starfi. Heimurinn hafði rétt á að vita þetta.“

   Kim færði sig nær.

   „Ég sver, Tracy, ég mun ekki una mér hvíldar fyrr en það eina sem þú hefur með dagblöð að gera verður að sendast með þau –“

   Hún þagnaði þegar síminn hennar hringdi skyndilega.

   Tracy notaði tækifærið og færði sig frá Kim.

   „Stone,“ svaraði Kim.

   „Þú þarft að koma á stöðina. Núna.“

   Woodward lögreglustjóri var ekki mjög hlýlegur yfirmaður en hann var samt vanur að heilsa, þótt það væri oft stuttaralegt.

   Kim var fljót að hugsa. Hann var að hringja í hana í hádegi á sunnudegi eftir að hafa heimtað að hún tæki sér frí þennan dag. Og hann var þegar orðinn reiður út af einhverju.

   „Ég er á leiðinni, Stacey. Kauptu þurrt hvítvín handa mér,“ sagði hún og lagði á. Hún yrði að útskýra það fyrir lögreglustjóranum síðar af hverju hún kallaði hann Stacey. Það kom ekki til greina að hún léti það í ljós fyrir framan þá fyrirlitlegustu blaðakonu sem hún hafði fyrirhitt að hún hafði fengið áríðandi símhringingu frá yfirmanninum sínum.

   Það var aðeins um tvennt að ræða. Annað hvort var hún í fáránlega miklum vandræðum eða það var eitthvað stórt í uppsiglingu. Hvort heldur var vildi hún ekki að þessi drusla kæmist á snoðir um neitt.

   Kim sneri baki við Tracy Frost. „Þú skalt ekki halda að þessu sé lokið. Ég mun finna einhverja leið til að láta þig gjalda fyrir það sem þú gerðir. Því lofa ég,“ sagði hún og opnaði dyrnar.

   „Ég læt reka þig fyrir þetta,“ hrópaði Tracy á eftir henni.

   „Gjörðu svo vel,“ kallaði Kim um öxl sér. Nítján ára drengur dó daginn áður, algjörlega til einskis. Þetta var ekki besti dagur sem hún hafði upplifað.

   Hún hafði á tilfinningunni að hann ætti jafnvel eftir að versna.

 

2. kafli

 

Kim lagði Ninja-hjólinu aftan við Halesowen-lögreglustöðina. 

   Lögreglan í Vestur-Miðlöndum þjónaði tæpum þremur milljónum manna, í Birmingham, Coventry, Wolverhampton og Svörtulöndum. Svæðinu var skipt í tíu löggæsluumdæmi, þar með töldu umdæmi hennar í Dudley. 

   Kim kom að dyrum skrifstofunnar á þriðju hæð, barði að dyrum, gekk inn og stirðnaði upp. 

   Það sem olli henni undrun var ekki það að við hliðina á Woody sat Baldwin yfirlögreglustjóri, yfirmaður hans. 

   Það var heldur ekki það að Woody skyldi vera klæddur í pólóbol í staðinn fyrir hvítu skyrtuna sem hann var venjulega í, með ermahnöppunum með merki lögregludeildarinnar. 

   Undrun Kim stafaði af því að jafnvel úr dyragættinni sá hún að svitaperlur glitruðu á dökkbrúnu, nauðrökuðu höfuðleðri Woodys. Kvíði hans duldist engum. 

   Nú varð hún áhyggjufull. Hún hafði aldrei séð Woody svitna. 

   Mennirnir horfðu báðir á hana þegar hún lokaði dyrunum. Kim vissi ekki til þess að hún hefði gert neitt sem hefði getað ergt þá báða. Baldwin yfirlögreglustjóri kom frá Lloyd-húsi í Birmingham og hún hafði oft séð hann. Í sjónvarpinu.

   „Herra?“ sagði hún spyrjandi og leit á þann mannanna sem hún þekkti. Hún sá aldrei yfirmann sinn svo að hún myndi ekki eftir innrömmuðu ljósmyndinni af tuttugu og tveggja ára gömlum syni hans í fullum herskrúða sjóhersins. Woody hafði veitt líki sonar síns viðtöku frá sjóhernum tveimur árum eftir að myndin var tekin.

   „Sestu, Stone.“

   Hún settist á staka stólinn sem stóð í miðju herberginu. Nú horfði hún á þá tvo á víxl og þyrsti í vísbendingar. Flestar samræður sem hún átti við Woody fóru fram á meðan hann kreisti líftóruna úr stressboltanum sem lá á brúninni á skrifborðinu hans. Henni fannst það yfirleitt vinalegt merki þess að allt væri eins og það átti að vera á milli þeirra.

   Núna lá boltinn á borðinu. 

   „Stone, tiltekinn atburður átti sér stað í morgun: Mannrán.“

   „Staðfest?“ spurði hún strax. Það gerðist oft að fólk týndist og kom í leitirnar nokkrum klukkutímum síðar. 

   „Já, staðfest.“

   Hún beið þolinmóð. Jafnvel þótt mannrán hefði verið staðfest vissi Kim ekki af hverju hún sat þarna með yfirmanninum sínum OG yfirmanninum hans.

   Sem betur fer var Woody ekki gefinn fyrir að draga málin á langinn til að skapa óþarfa spennu, hann kom sér beint að efninu.

   „Það eru tvær litlar stúlkur.“

   Kim lokaði augunum og dró andann djúpt. Núna skildi hún hvernig stóð á nærveru hins háttsetta lögreglustjóra. 

   „Eins og síðast, herra?“

   Þótt hún hefði ekki sjálf verið meðlimur rannsóknarteymisins þrettán mánuðum áður, hafði hver einasti lögreglumaður í Vestur-Miðlöndum fylgst með því máli. Margir höfðu tekið þátt í leitinni sem fylgdi í kjölfarið.

   Kim vissi ýmislegt um gamla málið en mest sláandi staðreyndin kom strax upp í hugann. 

   Aðeins önnur stúlkan skilaði sér til baka. 

   Woody vakti hana til veruleikans. „Við erum enn ekki viss. Svo virðist samt vera. Stúlkurnar tvær eru bestu vinkonur og sáust síðast í frístundamiðstöðinni í Old Hill. Móðir annarrar þeirra átti að sækja þær klukkan hálfeitt, en bíllinn hennar fór ekki í gang. Báðar mæðurnar fengu textaskilaboð klukkan tuttugu mínútur yfir tólf um að mannræningjar hefðu klófest dætur þeirra.“ 

   Núna var klukkan korter yfir eitt, innan við klukkutími síðan stúlkurnar voru teknar. Fyrst skilaboðin voru komin þurfti ekki að athuga hjá vinum eða nágrönnum og það var tilgangslaust að vona að þær hefðu bara skroppið eitthvað. Stúlkurnar voru ekki týndar, þeim hafði verið rænt og þegar var kominn skriður á málið. 

   Kim leit á yfirlögreglustjórann. 

   „Hvað klikkaði síðast?“ 

   „Afsakið, hvað sagðirðu?“ spurði hann undrandi og hafði greinilega ekki átt von á að vera ávarpaður beint. 

   Kim virti andlit hans fyrir sér meðan hann hugsaði út svar við spurningunni. Hann var gott dæmi um fullkomna lögregluþjálfun. Hvergi var áhyggjuhrukku að sjá, né svitadropa. Það kom ekki á óvart. Fyrir neðan hann í virðingarstiganum voru mörg lög af fólki sem kenna mátti um það sem miður fór. 

   Baldwin starði kuldalega á hana í stað þess að svara spurningunni. Þetta var viðvörun til hennar um að halda sér saman. 

   Hún starði til baka. „Ja, aðeins annað barnið kom aftur, þannig að hvað fór úrskeiðis?“ 

   „Ég held ekki að smáatriðin –“ 

   „Herra, til hvers sendirðu eftir mér?“ spurði hún og sneri sér að Woody. Þetta var tvöfalt mannrán, mál sem ætti að vera í höndum yfirglæpadeildarinnar, ekki staðarlögreglunnar. Það þurfti að skipuleggja marga mismunandi þætti þessarar rannsóknar; leita að vísbendingum, athuga bakgrunn allra, tala við nágranna, skoða öryggismyndavélar og fást við fjölmiðla. Woody myndi aldrei láta hana um að fást við fjölmiðla.

   Woody og Baldwin litu hvor á annan. Hún fann á sér að henni myndi ekki líka svarið. Líklegast var að liðið hennar ætti að hjálpa til við rannsóknina, burtséð frá öllum kynferðisofbeldis-, heimilisofbeldis- og fjársvikamálunum sem þau höfðu þegar á sinni könnu, öllum morðtilraununum og svo átti eftir að ganga frá máli Dewains Wright.

   „Þú vilt fá liðið mitt til að taka þátt í leitinni –“

   „Það er engin leit, Stone,“ sagði Woody. „Við ætlum að halda fjölmiðlunum algjörlega í myrkrinu.“

   „Herra?“

   Þetta var nánast óheyrt þegar um mannrán var að ræða. Fjölmiðlarnir voru yfirleitt komnir á snoðir um þau innan nokkurra mínútna. 

   „Við sendum ekkert út yfir talstöðvarnar og foreldrarnir segja heldur ekki neitt, í bili.“

   Kim kinkaði kolli. Ef hún mundi rétt hafði sama aðferð verið reynd síðast en ekki enst nema í þrjá daga. Seinna þann dag fannst stúlkan sem lifði af ráfandi í vegkanti og hin fannst alls ekki.

   „Ég skil ekki enn hvað …“ 

   „Það hefur verið beðið um að þú stýrir þessari rannsókn, Stone.“

   Tíu sekúndur liðu og Kim beið eftir lokalínunni í brandaranum. Hún kom ekki.

   „Herra?“

   „Auðvitað er það útilokað,“ sagði Baldwin. „Þú ert svo sannarlega ekki hæf til stýra rannsókn á svona viðamiklu máli.“

   Þótt Kim væri í sjálfu sér sammála honum freistaði það hennar að minnast á Crestwood-málið þar sem hún og liðið hennar höfðu klófest morðingja fjögurra unglingsstúlkna.

   Hún sneri sér í sætinu og horfði aðeins á Woody. 

   „Hver bað um það?“

   „Önnur móðirin. Hún bað sérstaklega um þig og vill ekki tala við neinn annan. Þú þarft að fara og taka undirbúningsviðtölin meðan við setjum liðið saman. Þú gefur skýrslu strax að því loknu og afhendir málið þeim sem stjórnar rannsókninni.“ 

Kim kinkaði aftur kolli til merkis um að hún skildi en hann hafði samt ekki svarað spurningu hennar almennilega. 

   „Herra, má ég fá nöfn stúlknanna og nafn þessarar móður?“ 

   „Stúlkurnar heita Charlie Timmins og Amy Hanson. Það var móðir Charlie sem bað um þig. Hún heitir Karen og segist vera vinkona þín?“ 

   Kim hristi höfuðið skilningssljó. Það gat ekki verið. Hún þekkti enga Karen Timmins og svo átti hún ekki heldur neinar vinkonur. 

   „Afsakaðu, Stone. Þú þekkir hana kannski betur undir föðurnafninu, hún hét áður Karen Holt.“ 

   Kim fann að hún stífnaði upp. Þetta var nafn úr fortíðinni, stað sem hún heimsótti sjaldan. 

   „Stone, ég sé á svipnum á þér að þú þekkir þessa konu.“ 

   Kim stóð upp og horfði eingöngu á Woody. 

   „Herra, ég skal fara og sjá um undirbúningsviðtölin og fá málið í hendur þeim sem stjórnar en ég get fullvissað þig um að þessi kona er engin vinkona mín.“

bottom of page