top of page

BLÓÐHEFND

 Hvernig handsamar maður morðingja sem skilur engin ummerki eftir sig? 

Þegar kona er myrt með einni einustu, hárnákvæmri hnífstungu virðist það í fyrstu vera rán sem hefur farið úrskeiðis; virtur og góðhjartaður félagsráð- gjafi sem orðið hefur fórnarlamb handahófskennds ofbeldisglæps. Í augum Kim Stone, rannsóknarlögreglufulltrúa, er þó eitthvað sem ekki gengur upp. 

Þegar eiturlyfjaneytandi í nágrenninu finnst myrt með sams konar sár segir eðlisávísunin Kim að um sama morðingja sé að ræða. Þar sem engin tengsl finnast milli fórnarlambanna, önnur en kalt og útspekúlerað ofbeldið, gæti þetta orðið hennar erfiðasta mál til þessa. 

 

Kim á erfitt með að einbeita sér að eltingarleiknum við morðingjann þegar henni berst hrollvekjandi bréf frá doktor Alex Thorne, félagsblindingjanum sem hún kom á bak við lás og slá. Í þetta sinn reiðir Alex til höggs þar sem Kim er veikust fyrir og neyðir hana til fundar við konuna sem drap litla bróður Kim – móður hennar. 

Þegar líkunum fjölgar fletta Kim og lið hennar ofan af hroðalegum leyndar- málum og færast sífellt nær morðingjanum. Eitt þeirra gæti þó verið í mikilli hættu og í þetta sinn er ekki víst að Kim takist að bjarga málunum … 

Hörkuspennandi glæpasaga sem ómögulegt er að láta frá sér fyrr en eftir að hin óvæntu endalok eru komin í ljós. 

Blodhefnd_kapa_fram.jpg
Screen Shot 2019-02-26 at 09.30.30.png
Screen Shot 2019-02-26 at 09.30.45.png
Screen Shot 2019-02-26 at 09.31.12.png

FORMÁLI 

Drake Hall-fangelsið – í dag 

Doktor Alexandra Thorne sat við ferkantað skrifborðið sem skildi einbreiðu rúmin tvö að. 

  Hún hafði slegið eign sinni á þetta borð. Cassie, klefafélagi hennar, var varla læs né skrifandi og hafði engin not fyrir þetta heimasmíðaða skrifborð. 

  Sú heimska gæs hafði einu sinni lagt fatastafla frá sér hægra megin á borðið. Augnaráð Alex dugði til að hún flutti fötin samstundis og lagði þau til fóta hjá sér. 

  Alex fann einn stólfótinn gefa eftir þegar hún dró stólinn til. Þessi andskotans ódýru húsgögn voru álíka mikið undirmálsdót og fólkið í kringum hana. 

  Ef hún hefði verið á skrifstofunni sinni í Hagley hefði hún setið við mahónískrifborð, í ljósum leðurstól. Fæturnir hefðu sokkið í mjúkt gólfteppið og augun hvílt á rándýrum málverkum og öðrum munaði sem hún hafði stritað fyrir og átti svo ríkulega skilið. 

  Allt þetta hafði verið hrifsað frá henni. 

  Hún hélt á penna sem hún hafði þurft að kvitta fyrir og A4-örk af  línustrikuðum pappír sem leit út fyrir að myndi rifna ef hún skrifaði of fast.

  Ef hún sneri sér upp að hvítum veggnum gat Alex engu að síður ímyndað sér að hún væri stödd á farfuglaheimili eða ódýru hóteli. Ekki það að hún hefði nokkurn tíma gist slíka staði en hún hafði kröftugt ímyndunarafl. Ódýr ilmvatnsanganin sem lá í loftinu, blönduð líkamslykt, hjálpaði til.

  Alex krosslagði fótleggina undir borðinu. Henni lá ekkert á. Hún myndi njóta þess að skrifa þetta bréf og hugsa til áhrifanna sem það myndi hafa.

  Listinn yfir þær manneskjur sem hún gat kennt um hvernig fyrir henni var komið var langur. Samt var það aðeins ein sem hún taldi virkilega ábyrga fyrir því. Manneskja sem hafði ekki horfið úr huga hennar frá því að þær hittust síðast.

  Alex gramdist að enginn skyldi hafa áttað sig á því mikla gildi sem rannsóknir hennar höfðu. Ef hún hefði fengið lengri tíma hefði framlag hennar til rannsókna á geðheilbrigðismálum orðið umtalsvert. Einu mistökin höfðu falist í því að velja léleg viðfangsefni sem óhjákvæmilega brugðust henni.

  Rödd innra með henni hvíslaði að það hefði verið misráðið að láta áhuga á tilteknum rannsóknarlögreglufulltrúa afvegaleiða sig. 

  Nú var kominn tími til að þær tvær næðu aftur saman.

  Spennuhrollur fór um Alex þegar hún mundaði pennann og skrifaði tvö orð sem myndu breyta öllu.

 

„Elsku Kimmy …“

 

 

1. KAFLI

 

Kim Stone heyrði fótatakið að baki sér. Hún sneri sér ekki við en greikkaði sporið um leið og hjartslátturinn herti á sér. Hún heyrði ekki hve nálægt hann var, fótatakið var í takt við hennar eigið. 

  Hún hrasaði. 

  Hann nam staðar. 

  Venjulegur vegfarandi hefði haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist og farið fram úr henni, eða flýtt sér henni til aðstoðar. 

  Hann gerði hvorugt. 

  Hún rétti úr sér og hélt áfram. Fótatakið bak við hana var nú komið nær. Hún þorði ekki að líta til baka. 

  Kim skimaði hratt í kringum sig. Klukkan var hálftólf að kvöldi, fáir á ferli í þessu iðnaðarhverfi sem hún hafði stytt sér leið í gegnum. Eftir því sem hún hélt lengra inn í hverfið dofnaði niður umferðarinnar fyrir utan það. Ljósastaurarnir meðfram götunni vörpuðu engum bjarma hingað. 

  Á vinstri hönd var röð lítilla bygginga á stærð við bílskúra. Hægra megin var húsasund á milli stálverksmiðju og niðursuðuverksmiðju. Sundið var ekki nema einn og hálfur metri á breidd en það lá beint upp á aðalgötuna. 

  Hún beygði inn í sundið. 

  Fótatakið fylgdi á eftir.

  Kim jók hraðann og horfði á ljósin við enda sundsins. Hún gat ekki hlaupið. Skórnir hennar voru með tíu sentímetra háum hælum og hún minnti mest á smábarn að taka fyrstu skrefin.

  Fótatakið fyrir aftan hana nálgaðist óðum. Þegar Kim var að verða hálfnuð gegnum sundið herti hún á sér. Blóðið dunaði fyrir eyrunum. 

  Fótatakið kom alveg upp að henni. Hönd greip í stutt, svart hárið og þrykkti henni út í vegg.

  „Hvað í andsk–?“ Orðin dóu á vörum Kim þegar hnefi kýldi hana beint á munninn. Neðri vörin sprakk. 

  Hönd greip fyrir munninn á henni. „Þú skalt ekki voga þér að öskra, helvítis tíkin þín, þá drep ég þig.“

  Kim reyndi að hrista höfuðið til samþykkis en hnakkinn var klesstur upp við vegginn.   Múrsteinarnir meiddu hana.

  Hann leit til hægri og vinstri og svo aftur á hana. Svo brosti hann. „Það heyrir hvort eð er enginn til þín.“

  Maðurinn var um það bil tæplega einn og áttatíu á hæð, fimm sentímetrum hærri en Kim. Hún reyndi að sparka en hann hélt henni fastri upp við vegginn. Limurinn var beinstífur í buxunum og lagðist upp að maganum á henni. Kim barðist við ógleðina og reyndi að losa á sér handleggina. Hann hló og herti tökin. Hann var mun þyngri en hún og hafði algjörlega yfirhöndina. 

  Kim fékk högg á höfuðið og sá allt í móðu í smástund. Hún hristi höfuðið og horfði framan í manninn sem leit út fyrir að vera á miðjum þrítugsaldri. Hann var sigri hrósandi á svipinn og naut augnabliksins. „Heyrðu, elskan, við ætlum bara að skemmta okkur aðeins –“

  „Gerðu það … ekki … gerðu það …“

  „Æ, láttu ekki svona, þið hórurnar eruð allar eins. Þú veist að þú vilt þetta.“

  Hann laut yfir Kim og sleikti á henni hálsinn. Henni varð illt af viðbjóði og hún lét fallast upp að honum. Hann hló og sleikti hana aftur, nartaði í hálsinn neðan við eyrun. „Já, var það ekki, þér finnst þetta gott, druslan þín.“ 

  Kim barðist á móti en hann hélt henni fanginni upp við vegginn og tók í rennilásinn á buxunum með hægri hendi. „Elskan, nú færðu loksins það sem þú hefur beðið eftir.“ 

Þetta voru nákvæmlega orðin sem Kim hafði beðið eftir að heyra. Hún rykkti höfðinu fram og hitti manninn beint á nefið. Blóð sprautaðist út. Um leið keyrði hún hnéð upp í klofið á honum og greip um hægri úlnliðinn. Hún sneri upp á höndina þar til hún heyrði smell. Maðurinn öskraði af sársauka og datt í jörðina. Ómeidda höndin fálmaði á milli nefsins og nárans. 

  Nú dreif að manneskjur úr báðum áttum í húsasundinu. Dawson og Barnes voru á undan, Bryant og Richards ekki langt á eftir. 

  „Takk fyrir að mæta, drengir,“ sagði Kim um leið og Dawson hefti fætur mannsins. 

  „Er allt í lagi með þig, stjóri?“ spurði Bryant. 

  Hún kinkaði kolli og sneri sér að Richards sem hélt á lítilli sjúkratösku. „Taktu sýni af hálsinum á mér hérna,“ sagði hún. Bara ef maðurinn skyldi verða með múður. Hann hafði skilið eftir munnvatn á hálsinum á Kim og hún myndi nýta sér það. 

  Richards reif upp bómullarpinna og strauk honum yfir svæðið sem hún benti á. Síðan benti hann á vörina á henni. „Leyfðu mér að líta á–“ 

  Kim sneri sér undan og þurrkaði blóðið í ermina. Hún laut yfir óþokkann sem hafði nauðgað sjö konum undanfarna þrjá mánuði. Í sex skipti hafði hann ekki skilið eftir nein ummerki en í sjöunda sinn var hann ekki nógu fljótur að kippa limnum út og skildi eftir erfðaefni sem hægt var að nota til samanburðar. 

  Það sem hann sagði síðast, um það sem hún „hefði beðið eftir“ var það sama og hann hafði sagt við allar hinar og Kim hafði viljað heyra þessi orð áður en hún lét til skarar skríða. 

  Augu mannsins voru full af sársauka og hatri. Kim brosti til hans. „Það lítur út fyrir að þetta hafi verið nákvæmlega það sem ég var að bíða eftir, félagi. Einhver hefði átt að láta þig vita að það er ekki hundrað prósent öruggt að kippa honum bara út.“

  Dawson og Richards földu hláturinn í hóstakasti. 

  Það var búið að binda ökkla mannsins og þegar þeir gerðu hið sama við hendurnar öskraði hann af kvölum.

  Kim brosti og gekk í burtu. Hún var svo sannarlega búin að ljúka sér af hér.

 

2. KAFLI 

Umbúðir utan af hamborgurum lágu dreifðar um öll skrifborðin fjögur á skrifstofu rannsóknarlögreglunnar í Halesowen. Kim hafði gripið með sér skyndibita handa öllum á leiðinni til baka. 

  Dawson var sá eini sem var enn að borða, hann hámaði í sig bragðaref og skóf pappaboxið að innan með plastskeiðinni til að fullvissa sig um að ekkert væri eftir. 

  „Takk, stjóri,“ sagði hann. 

  „Eruð þið öll búin að taka niður nauðsynlegar upplýsingar?“ spurði Kim og hin þrjú kinkuðu kolli. Allt sem viðkom málinu var skráð í minnisbækur þeirra. „Ef þú ert loksins búinn, Kev, er kominn tími til að þurrka af töflunni og þú mátt gera það.“ 

  „Bíddu við, af hverju hann?“ spurði Bryant. 

„Vegna þess að hann var fyrstur til mín í sundinu,“ sagði Kim og kastaði eldhúsrúllunni til Dawsons. 

  Þótt komið væri framyfir miðnætti hafði Kim skipað öllum að koma aftur á lögreglustöðina. Eftir spennuþrungna aðgerð var erfitt að ætla beint heim, meðan adrenalínið og spennan flæddi enn um líkamann. Það var nauðsynlegt að ná sér aðeins niður og slaka á fyrst. 

  Það var nákvæmlega það sem þetta snerist um.

  Málið var leyst, konurnar sjö sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri árás gátu sofið aðeins rólegar þegar búið var að handsama nauðgarann. 

  Dawson reif tvö blöð af rúllunni og byrjaði að þurrka af töflunni. Það tilheyrði hefðinni að stroka út málið þegar búið var að leysa það. Njóta ánægjunnar af að sjá það hverfa. Hver einasta stroka yfir töfluna táknaði enn einn óþokka á bak við lás og slá. Kim naut þess alltaf jafn mikið.

  Á morgun myndu þau ljúka við skýrslugerðina og halda áfram með yfirheyrslur en í kvöld nutu þau ávaxta erfiðis síns.

  Kim stóð upp frá aukaskrifborðinu og byrjaði að taka matarumbúðirnar saman. Bryant geispaði stórum og þá hringdi síminn hennar. Hún sá nafn Woodys á skjánum og fór út úr skrifstofunni, fram í dauflýst almenningsrýmið. 

  „Herra?“ sagði hún spyrjandi.

  „Ég bað þig um að láta mig vita um leið og aðgerðinni væri lokið, Stone.“

  „Ég var að fara að hringja í þig,“ sagði Kim og gretti sig. „Martin Copson er kominn í gæsluvarðhald og –“

  „Já, ég veit það, Stone. Ég var að tala við varðstjórann. Ég get ekki beðið eftir símtali frá þér í alla nótt.“

  Kim gretti sig enn meira. Ef hann vissi allt nú þegar, af hverju var hann þá að hamast í henni?

  „Jack sagði mér líka að andlitið á þér væri ansi skrautlegt.“

  Hún stundi. Andskotinn hirði hann Jack í móttökunni. Hún vissi í hvað stefndi og bjó sig undir það.

  „Ég hélt að við hefðum orðið sammála um að Stacey yrði tálbeitan og þú myndir verða til stuðnings, með hinum?“

  „Vorum við virkilega búin að ákveða það, herra?“ spurði Kim sakleysislega.

  „Reyndu ekki að leika neinn heimskingja við mig, Stone. Þú veist vel að við gerðum það.“ Woody andvarpaði þungan. „Hún er ekki bara ung kona, hún er lögreglumaður. Þú verður að leyfa henni að sinna starfi sínu.“ 

  „Að sjálfsögðu, herra,“ sagði Kim. „Þetta var bara einfaldur misskilningur.“ 

  Þögn á línunni. Kim reyndi ekki að fylla upp í hana. Hún gekk um gólf í rökkvuðu herberginu án þess að segja orð. Ef Woody ímyndaði sér eitt augnablik að hún hefði látið tuttugu og þriggja ára stúlku reyna að handsama grimman og hrottalegan nauðgara, þekkti hann Kim alls ekki nógu vel. 

  Hún hafði haldið að hún slyppi við þessar aðfinnslur. Yfirmaður hennar var á leið í sitt árlega frí en hann hafði ekki staðist mátið að taka stöðuna einu sinni enn áður en hann færi með sonardóttur sína í ferðalag í nokkra daga. Þegar hann kæmi aftur yrði þetta allt gleymt. 

  „Við ræðum þetta þegar ég kem aftur.“ 

  Eða kannski ekki. 

  „Viltu að ég geri eitthvað fyrir þig meðan þú ert í burtu, herra? Vökvi köttinn þinn? Hleypi plöntunum út?“ spurði Kim af örlæti sínu. 

  „Ó, Stone, ég myndi seint treysta þér til að vökva eða hugsa um neitt sem ég ætti. Takk fyrir boðið en ræstingakonan mín sér um þetta. Gleymdu ekki að gefa yfirlögreglustjóranum daglegar skýrslur á meðan ég er í burtu.“ 

  „Skal gert, herra,“ sagði Kim og ranghvolfdi augunum. 

  „Ég heyrði þig ranghvolfa augunum, Stone,“ sagði Woody og hikaði. „Þetta mun gefa ykkur tveimur tækifæri til að, hmm … tengjast sterkari böndum.“ 

  Kim opnaði munninn til að mótmæla en yfirmaður hennar hló lágt og sleit samtalinu. Hún andvarpaði og skálmaði aftur inn á skrifstofuna en nam staðar rétt fyrir utan gættina. 

  „Í alvöru, Stace, þú hefðir átt að sjá stjórann í háhæluðu skónum. Hún–“

  „Hvað, Kev?“ spurði Kim, steig inn í gættina og hallaði sér upp að dyrakarminum. „Gerðu það, haltu áfram,“ bætti hún við hvetjandi.

  Dawson hristi höfuðið. „Nei, nei. Ég er hættur. Man ekki einu sinni hvað ég ætlaði að segja.“

  Bryant, sem þekkti Kim betur en nokkur annar, bældi niður hláturinn. 

  Kim krosslagði handleggina. „Er það virkilega? Bryant, réttu Kev skóna.“

  Bryant teygði sig í skóna og gerði eins og hún bað. Kim hallaði undir flatt. „Stacey er hrifin af sjónrænum vísbendingum. Ég er viss um að hún kann að meta að þú gefir henni smá sýnishorn.“

  Dawson leit á skóna og aftur á hana. „Þú ert þó ekki að meina að ég eigi að–“

  „Þú byrjaðir,“ sagði Kim.

  Hann leit í kringum sig eftir stuðningi. Stacey lyfti annarri augabrúninni og Bryant hallaði sér aftur í stólnum. 

  „Andskotinn sjálfur, þið tvö eruð gagnslaus,“ sagði hann og fór úr skónum og sokkunum. Hann tróð sér eins langt ofan í skóna og hann komst og studdi sig við skjalaskápinn á meðan.   „Á … helvítis …“ sagði hann og reyndi að taka skref án þess að sleppa takinu á skápnum. Hann minnti Kim á einhvern sem reynir að standa á skautum í fyrsta sinn og vill ekki sleppa grindverkinu. 

  „Þú færð fimm pund ef þú kemst hingað,“ sagði Bryant og tók seðil upp úr vasanum. Dawson brosti. „Fyrir fimm pund frá þér skal ég ganga í þeim í heilan dag.“ Hann tók stórt skref fram á gólfið og skjögraði hálfhrasandi yfir skrifstofugólfið. Í augum Kim leit hann út eins og leikari í lélegri afturgöngubíómynd, með handleggina teygða fram til að halda jafnvægi eða til að taka af sér fallið. 

  Dawson lét fallast á skrifborðið hjá Bryant og rétti fram lófann. „Rétt skal vera rétt,“ sagði Bryant og rétti honum fimm pundin. 

  Dawson leit biðjandi á Kim. „Þú mátt fara úr þeim,“ sagði hún og brosti. 

  „Skrambinn, ég var rétt að byrja að kunna að meta hann,“ sagði Stacey. 

  Dawson rétti Kim skóna. „Í alvöru talað, stjóri, þú ert hetja.“ 

  Kim setti skóna undir borð. „Jæja, gott fólk, þetta er orðið ágætt í dag–“ 

  Nú hringdi síminn hennar. Hún yggldi sig og svaraði. „Stone,“ sagði hún stuttaralega. Meðan hún hlustaði á röddina á línunni dýpkaði grettan. „Allt í lagi, ég náði þessu,“ sagði hún og sleit símtalinu. 

  Hún andvarpaði. „Jæja, gleymum þessu síðasta, að minnsta kosti fyrir eitt ykkar. Nú þurfið þið að draga strá því að það var verið að tilkynna líkfund.“18 

3. KAFLI

Eftir um það bil hálfan kílómetra komu þau auga á bláa flugelda á næturhimninum sem lýstu þeim leið. Þetta var fallegur vegvísir að hryllingnum sem beið, hugsaði Kim.

  Það hafði ekki reynst nein þörf á að draga strá á lögreglustöðinni. Bryant sendi þau yngri heim í háttinn og stökk sjálfur upp í bílinn með henni. 

  Nú varð umferðin hægari, Kim sá fyrir sér hvernig lögregluþjónarnir reyndu að bægja bílunum framhjá vettvanginum. Fyrir hvern einn bílstjóra sem hlýddi þegjandi og hljóðalaust væru að minnsta kosti þrír sem heimtuðu að fá útskýringar og tvisvar sinnum fleiri sem vildu reyna að sjá hvað væri í gangi.

  Svæðið var kallað Colley Gate og var við A458-hringbrautina á milli Halesowen og Stourbridge. Hér voru ekki margir á ferð yfir nóttina en þó alltaf einhver umferð. Af aðalveginum lágu hliðargötur inn í hið alræmda Tanhouse-hverfi.

  Kim hafði oft verið kölluð út til Tanhouse. Á níunda áratugnum hafði hverfið verið suðupottur eiturlyfjanotkunar, rána, skemmdarverka, bílþjófnaða og ofbeldis. Meirihluti glæpanna átti rætur að rekja til stóru íbúðablokkanna þriggja. Kiplingshús og Byronshús voru rifin árið 1999 en þriðja byggingin, Chaucershús, var gerð upp. Þar var maður var stunginn með hníf í sömu viku og framkvæmdunum lauk. 

  Kim mundi eftir vínbúðinni sem var við hlið einnar blokkarinnar. Glæpatíðnin var slík að eigandinn neitaði að opna dyrnar fyrir viðskiptavini sína á kvöldin og afgreiddi þá í staðinn í gegnum lúgu. 

  Þau voru komin í útjaðar hverfisins og sáu þar þrjá lögreglubíla, tvo lögregluþjóna og slatta af viðvörunarkeilum. Kim opnaði gluggann, stakk höfðinu út og sýndi skilríkin. Annar lögregluþjónninn lyfti keilu og veifaði henni í gegn. 

  „Þá byrjar ballið aftur,“ tautaði Bryant og drap á Astra-bifreið sinni. Kim gekk framhjá sendibílnum hans Keats og virti svæðið fyrir sér. Það var byrjað að rigna. Þetta hafði verið bjartur og hlýr haustdagur og enn leifði eftir af hlýju loftinu þótt komið væri fram á nótt. 

Bíllinn, ársgamall Vauxhall Cascada, stóð í útskoti fyrir framan röð búða við aðalgötuna. Af níu fyrirtækjum var búið að negla fyrir öll nema þrjú; kínverskan skyndibitastað, pósthús og þvottahús. 

  Hinum megin götunnar var krá sem hafði sem betur fer verið lokað fyrir nokkrum klukkutímum. Kim var þakklát fyrir að kráargestirnir skyldu farnir heim. 

  Þegar hún kom nær heyrði hún kunnuglega rödd. „En gaman, uppáhaldsrannsóknarlögreglumaðurinn minn. Bryant, hvernig hefurðu það?“ 

  Hún greip bláu skóhlífarnar af lágvaxna meinafræðingnum og leit hvasst á hann í leiðinni. 

  „Bryant, þér verður launað í himnaríki fyrir að–“ 

  „Keats, ég er að bíða eftir þér,“ greip Kim fram í. 

  „Æi, Stone, þú ert alveg hætt að vera skemmtileg.“ 

  Hún hafði aldrei verið skemmtileg, hugsaði Kim en hélt aftur af öllu sem hún hefði getað skotið á Keats á móti. Meinafræðingurinn var rétt rúmlega sjötíu kíló, náði henni tæplega upp í höku og var í augnablikinu holdvotur vegna rigningarinnar. Það var nóg til að hún sleppti því að hamast í honum. 

  „Fórnarlambið er kvenkyns, á miðjum fimmtugsaldri, vel klædd, eitt stungusár, vinstra megin í síðuna, neðarlega.“

  Kim kinkaði kolli og hélt áfram yfir að hinni hlið bílsins. Ungur karlmaður með gleraugu varð á vegi hennar og minnti hana umsvifalaust á Harry Potter. 

  Hún steig til vinstri. Hann líka.

  Hún steig til hægri. Hann líka.

  Kim velti því sem snöggvast fyrir sér að taka hann upp og fleygja honum frá sér en þá heyrði hún rödd Keats aftur. „Stone rannsóknarfulltrúi, má ég kynna þig fyrir Jonathan Bullock, nýja aðstoðarmanninum mínum.“

  Hún sá fyrir sér í einu vetfangi hve ömurleg skólaár unga mannsins hlutu að hafa verið. Jonathan ýtti gleraugunum lengra upp á nefið og pírði augun eins og fingurinn kæmi honum alveg í opna skjöldu. Svo rétti hann fram höndina og opnaði munninn.

  „Nei, nei, Jonathan,“ sagði Keats og flýtti sér til þeirra. „Það er best að horfa hvorki í augun á henni né ávarpa hana beint. Hún er ófyrirsjáanleg, eins og flest önnur villt dýr.“

Kim gekk framhjá honum og að farþegadyrum bílsins. Hann var umkringdur fólki í hvítum göllum. Ein manneskja dustaði af hurðinni, önnur tók myndir inni í bílnum. Fólkið vék úr vegi og kinkaði kolli til Kim. 

  Það fyrsta sem hún tók eftir var lyktin. Töluvert blóð hafði runnið og járnlyktin fannst strax. Þótt hún væri óþægileg fannst Kim þessi lykt samt skárri en velgjuleg lyktin af rotnandi blóði. 

  Hún sneri höfðinu til hliðar og dró djúpt að sér ferskt loft áður en hún hóf rannsókn sína. Ljósmyndirnar myndu koma að góðum notum síðar en það var forgangsatriði að leggja vettvanginn á minnið núna, meðan skilningarvitin voru enn fersk og vökul.

  Hárið á konunni var vandlega litað í fallegum, rauðbrúnum lit. Vottur af gráu við gagnaugun gaf til kynna að tími hefði verið kominn á að láta setja í rótina. Hún var smekklega klippt, hárið náði rétt niður fyrir kjálkalínuna. Ennið var slétt, með votti af línum sem hefði teygst á þegar andlitið hreyfðist. Þær myndu ekki ná að dýpka meira, hugsaði Kim döpur. 

  Á andliti konunnar mátti enn sjá vott af andlitsfarðanum sem borinn var á um morguninn þótt hann hefði látið á sjá yfir daginn. Undir vinstra auganu var svartur maskarablettur, kannski hafði hún nuddað augun í hugsunarleysi eftir erfiðan dag, á leiðinni heim og útlitið skipti ekki lengur eins miklu máli. 

  Augun voru galopin og varirnar aðskildar. Óinnvígðir gætu sagt að hún væri hissa á svipinn en svona leit dauðinn oftast út. Þegar hjartað hætti að slá sigu vöðvarnir í hvíldarstellingu en frusu ekki fastir í síðustu svipbrigðunum. Dauðastundin bjó í augunum. Ef þau hefðu verið lokuð hefði hún verið friðsæl að sjá – æðrulaus. 

  Hún var með perlueyrnalokka í báðum eyrum. Um hálsinn var einföld gullkeðja með litlum hjartalaga rúbín sem hvíldi á húðinni. Hvítur skyrtukragi stóð upp úr hálsmálinu á ljósbleikri, hnepptri kasmírullarpeysu. 

  Kim virti konuna fyrir sér. Svo sneri hún sér við. „Keats, hefur einhver komið nálægt þessari konu?“ 

  Meinafræðingurinn kom aðvífandi. „Bara ég, til að finna sárið. Og ég hreyfði ekki við neinu.“ 

Hún kinkaði kolli og hélt áfram, ýtti peysunni til hliðar til að sjá hvar hún hefði verið stungin. Það sást dökkrauður blettur á hvítu skyrtunni og rifa í efninu sýndi hvar morðvopnið hafði runnið inn. 

  Kim lét peysuna síga og hélt áfram. Konan var í dökkum buxum úr dýru efni og smekklegum skóm með hálfháum hæl. Framan við farþegasætið stóð Burberry-handtaska. Kim teygði sig eftir henni um leið og Bryant birtist við hlið hennar. 

  Þótt þau væru ekki formlegt lið voru þau vön að vinna saman. 

  Yfirmaður Kim kaus að hafa það þannig. Bryant sá um mannasiðina. Hann var kurteis og kunni á fólk. Samstarf þeirra gekk vel. Hún hafði ekki þurft að segja honum að fara og finna manneskjuna sem fann hina myrtu. Hann gerði það óumbeðinn og hafði án efa sýnt viðkomandi bæði samúð og umhyggju. Kim hafði stefnt beint á fórnarlambið. Sem betur fer gat hún ekki móðgað hina látnu.

  „Kínverskur gaur, hann var að loka skyndibitastaðnum eftir kvöldið,“ sagði hann. „Hann sá bílinn ekki koma.“

  Kim kinkaði kolli. „Allt í lagi, fáðu hjá honum upplýsingar um eins marga kúnna og þú getur.“

  Hún skimaði í kringum sig. „Hafðu uppi á eigendum kráarinnar og gerðu það sama þar. Einhver hlýtur að hafa séð eða heyrt eitthvað.“

  Bryant snerist á hæli og Kim hélt áfram að skoða handtöskuna. Þótt hún væri sjálf ekki vön að ganga með handtösku virtist henni flestallt viðeigandi dót þarna að finna. Hún leit aftur inn í bílinn, á handfrjálsa búnaðinn. Rándýr farsími var enn á sínum stað.

Kim fann einhvern koma upp að hlið sér. „Jæja, þá, Keats, að hverju ertu búinn að komast?“ spurði hún.

  „Ég get staðfest af fullkomnu öryggi að hún er látin.“

  Hún lyfti annarri augabrúninni. 

  „Vissir þú að áður fyrr, þegar vísindin voru enn á frumstigi, voru notaðar mjög áhugaverðar aðferðir til að staðfesta að fólk væri látið?“

  Kim beið.

  „Þar á meðal var að toga í tungu og geirvörtur, gefa tóbaksreyksstólpípur og stinga heitum skörungi inn í ýmis líkamsop.“

  „Ekki mjög heppilegt fyrir þá sem sváfu fast,“ sagði Kim.

  „Guði sé lof fyrir hlustunarpípuna, segi ég,“ tautaði Keats.

  „Gott og vel, en hvað um að segja mér eitthvað sem ég þarf að vita,“ ýtti Kim við honum.

  „Ég giska á tólf til fimmtán sentímetra langt blað, ein stunga, hún dó nánast samstundis.“

  Kim hafði þegar getið sér þess til. Það var ekkert blóð á höndum konunnar, hún hafði ekki reynt að fálma í sárið. 

  Harry Potter kom nú til þeirra og ýtti gleraugunum lengra upp á nefið. „Heldurðu að þetta hafi verið bílþjófnaður?“ 

  Keats hristi höfuðið og muldraði: „Ææ, ég var búinn að segja þér að reyna ekki–“ 

  „Þetta er allt í lagi, Keats. Leyfðu drengnum að segja það sem hann vill,“ sagði hún. 

Keats teygði sig framhjá henni. „Hættu núna, Jonathan, á meðan þú getur enn forðað þér.“ 

  Drengurinn hlustaði ekki á hann. „Ég er bara að segja að þetta lítur þannig út. Ég meina, þetta er flottur bíll og …“ 

  „Bíllinn er enn hérna,“ sagði Kim. 

  Keats stundi og gekk burt. 

  „Kannski truflaði einhver bófann í miðjum klíðum?“ 

  Kim var í þann mund að tæta hann í sig þegar hún sá hann kyngja taugaóstyrkan og um leið mundi hún eftir óheppilegu eftirnafninu og hætti við. Í staðinn kinkaði hún kolli að farþegadyrunum sem voru enn opnar. „Í fyrsta lagi skaltu aldrei nota orðið „bófi“ og í öðru lagi skaltu gá betur.“ 

  Ungi maðurinn leit aftur á bílinn á meðan Kim talaði. „Allir skartgripirnir hennar eru á sínum stað. Meira að segja Rolex-úrið. Síminn hennar er þarna, og peningaveskið er í handtöskunni.   Tekurðu eftir einhverju fleiru?“ spurði Kim. 

  Hann hristi höfuðið. 

  „Hún er ekki með öryggisbeltið spennt. Bílnum hefur verið lagt hérna og hún snýr aðeins til vinstri. Segir það þér eitthvað?“ 

  Jonathan gapti aðeins en hristi þegjandi höfuðið. 

  „Það er neyðarlína í bílnum,“ sagði Kim og benti á hnappana þrjá á mælaborðinu. Hnappurinn lengst til hægri var rauður og merktur SOS. Ef þrýst hefði verið á hann hefði stjórnstöð Vauxhall í Luton fengið boð og lögreglan verið látin vita samstundis.

  Loksins rann upp fyrir honum ljós. „Var þetta einhver sem hún þekkti?“

  Nú þegar Kim var búin að kenna honum eitthvað þurfti hún að koma skilaboðunum skýrt til skila. „Heyrðu, ef þig langar að vera rannsóknarlögreglumaður skaltu verða það, en annars skaltu einbeita þér að því sem þú átt að gera. Við sem rannsökum málin tökum því ekki mjög vel að vera sagt hvernig við eigum að bera okkur að.“

  Jonathan kinkaði kolli, kyngdi og ýtti gleraugunum, allt í senn. Fjölhæfur drengur. 

  Hún hafði þurft að segja þetta og hún hafði gert það í einrúmi. Það hefðu ekki allir gert, sumir hefðu notað tækifærið til að gera lítið úr honum í leiðinni. Engu að síður sá hún að hann var eldrauður í framan þegar hann sneri sér undan.

  „Ó, og Jonathan …“

  Hann sneri sér aftur að henni.

  „Ef þú sinnir þínu starfi vel hjálpar það okkur að sinna því sem við þurfum að gera.“ Kim brosti. „Skilurðu?“

  Hann brosti til hennar, kinkaði kolli og gekk burt. 

  Kim sneri sér aftur að handtöskunni. Hún tók út ljósbrúnt leðurveski með peningaseðlum og smámynt, tannlæknakort þar sem skráð var væntanleg heimsókn í næstu viku, ávísanahefti og lítið snyrtiveski. 

  Hún teygði sig í ökuskírteinið. „Jæja, Deanna Brightman, við skulum sjá hvað við getum fundið út um þig.“

bottom of page