top of page

B.A. Paris

 

Bak við luktar dyr er fyrsta bók B. A. Paris. Hún fékk hugmyndina þegar hún kynntist pari sem virtist vera algerlega fullkomið, að minnsta kosti á yfirborðinu. Bak við luktar dyr kom fyrst út í febrúar 2016 og hefur farið sigurför um heiminn. Hún hefur verið gefin út á fleiri en 25 tungumálum og komið út í meira en 30 löndum. Einnig er búið að selja kvikmyndaréttinn.


B.A. Paris er ekki alveg hið rétta nafn höfundarins. Hún vill þó ekki nota annað nafn í kringum útgáfuna, svona til þess að hún njóti einhverrar nafnleyndar.

Úr fjölmiðlum um Drápu og B.A. París

BAK VIÐ LUKTAR DYR - fyrsta skáldsaga Drápu og B.A. Paris

Drápa – nýtt bókaforlag og fyrsta bókin komin í sölu og beint á metsölulistann.

 

Hjónin Elín Ragnarsdóttir og Ásmundur Helgason hafa gefið út bækur frá árinu 2005 þegar þau gáfu út fyrstu Sudoku bókina hér á landi. Síðan hafa komið út 15 Sudoku bækur, matreiðslumetsölubókin Hvorki meira né minna og laxveiðibókin Leitin að stórlaxinum, allt undir nafni N29.

En nú hafa þau stofnað nýtt forlag, Drápu.

Hvað stendur til? „Við ákváðum fyrr á þessu ári að setja meiri kraft í útgáfuna, fjölga útgefnum bókum og fara inn á nýjar brautir,” útskýrir Elín. „Við höfum sinnt útgáfunni á kvöldin og um helgar en nú ætlum við að gera þetta að okkar aðalstarfi. Okkur fannst N29 ekki alveg nógu fínt heiti fyrir forlag sem gefur út skáldsögur þannig að við ákváðum að henda í nýtt vörumerki. Eftir miklar vangaveltur varð nafnið Drápa ofaná. Þannig er Drápa ekki ný kennitala heldur vörumerki í eigu N29 ehf.”

„Fyrsta bókin undir merkjum Drápu er Bak við luktar dyr,” bætir Ásmundur við. „Þetta er fyrsta bók höfundarins B.A. Paris, sem enginn veit í raun hver er, og hún hefur gengið mjög vel í Bretlandi og fleiri löndum. Þetta er svona ekta sálarspennutryllir sem maður getur bara ekki lagt frá sér,” segir hann og og glottir leyndardómsfullur.

„Við vorum búin að lesa ansi mörg og misgóð handrit þegar við duttum niður á þessa bók og hún stenlá sem okkar fyrstu bók, við vorum algjörlega sammála um það. Vonandi náum við að gefa út 4-5 bækur á þessu ári og náum þannig að koma Drápu á smá flug. Að minnsta kosti er nóg af erlendum og innlendum handritum til, það er bara málið að finna perlurnar sem höfða til landans,” segir Elín.

Ási bætir við: “Við erum reyndar ekki ein um að lesa, við erum að pína ættingja okkar til að lesa handritin líka og segja okkur hvað þeim finnst. Þannig að þau eru búin að lesa þessa bók og það var samdóma álit að hún ætti erindi til íslenskra lesenda. Þannig að við sömdum um útgáfuréttinn, fundum frábæra þýðanda, hana Ingunni Snædal og drifum í þessu. Og nú er hún komin á metsölulista eftir aðeins þrjá daga í sölu.”

Þetta hljómar allt ákaflega spennandi og gaman að sjá að það verður mikið líf í bókaútgáfu í sumar. Við óskum þeim hjónum velfarnaðar með Drápu.


 

BAK VIÐ LUKTAR DYR - fyrsta skáldsaga Drápu og B.A. Paris

 

ALLIR ÞEKKJA SVONA PAR

 

Hann er myndarlegur og heillandi, hún glæsileg og hæfileikarík. Þau eru vel stæð og heimili þeirra óaðfinnanlegt. Þig langar ekki endilega til að láta þér líka við þau en annað er ekki hægt.

Þú vilt kynnast Grace betur. Það er þó erfitt. Af því að þau eru óaðskiljanleg. Sumir myndu kalla það sanna ást. Aðrir myndu furða sig á því að hún svarar aldrei símanum og fer aldrei neitt án Jacks.

Stundum er hið fullkomna hjónaband hin fullkomna lygi.

 

Hér fyrir neðan eru fyrstI kaflI bókarinnar


 

Höfundurinn leyndardómsfulli.

 

B. A. Paris er af frönsku og írsku bergi brotin. Hún ólst upp á Englandi og flutti síðar til Frakklands þar sem hún vann í alþjóðlega bankageiranum. Síðar lærði hún til kennara og stofnaði tungumálaskóla ásamt eiginmanni sínum. Þau búa enn í Frakklandi og eiga fimm dætur. Þetta er fyrsta skáldsaga hennar.  

 

Hún fékk hugmyndina þegar hún kynntist pari sem virtist vera algerlega fullkomið, að minnsta kosti á yfirborðinu. Hún beið ekki boðanna heldur settist niður og skrifaði handrit að sinni fyrstu bók. Útkoman er þessi skemmtilegi sálarspennutryllir sem hefur nú komið út í meira en 30 löndum. Það má líka geta þess að Hollywood er búið að kaupa kvikmyndaréttinn af bókinni.

 

Annars er B.A. Paris ekki rétt nafn höfundarins, heldur er hér um hálfgert dulnefni að ræða. Hún hefur þó komið í viðtöl en aldrei í sjónvarpi eða í beinni útsendingu því hún vill ekki að sitt rétta nafn komi fram. Það gerir hún til þess að verða ekki of þekkt. Því er alls óvíst hvort þessi mynd sem fylgir höfundarnafninu sé akkúrat mynd af höfundinum. Hún er ekki á Facebook, ekki á Twitter og í raun veit enginn nema umboðsmaður hennar hver hún er í raun og veru. 

bottom of page