top of page
Eg_verd_her_KAPA_FRONT_NY.jpg

Ég verð hér

Höfundur: Marco Balzano

Þýðing: Halla Kjartansdóttir

Marco Balzano kann þá list gömlu sagnameistaranna að láta sögupersónurnar bera frásögnina uppi Hann gefur sögulegum atburðum persónulega rödd en lýsir um leið hvernig samfélag velur að snúast til varnar þegar reiði þess er vakin. 

Ég verð hér, hefur hlotið eftirtalin verðlaun og viðurkenningar:

 

Tilnefning til Strega-verðlaunanna 2018

Elba bókmenntaverðlaunin 2018

Dolomiti Unesco-verðlaunin 2018
Viadana-verðlaunin 2018
Latisana-verðlaunin 2018
Asti d'Appello-verðlaunin 2018
Minerva-verðlaunin 2018
Annar af tveimur vinningshöfum Omegna-verðlaunanna (Sezione Giovani), útnefndur af ungmennadómnefnd 2019
Bagutta-verðlaunin 2019
Mario Rigoni Stern-verðlaunin 2019
Frönsk þýðing á Resto qui vann Prix Méditerranée 2019

Þegar brestur á með styrjöld eða flóði flýr fólkið burt. Trina fer þó hvergi. Hún er þrjósk eins og landamæraþorpið sem hún hefur alist upp í og setur sig upp á móti fasistunum sem koma í veg fyrir að hún geti stundað kennslu. Hún er óhrædd við að flýja á fjöll með eiginmanni sínum, sem hefur gerst liðhlaupi. Og þegar stíflulónið er við það að drekkja bæði högum og híbýlum grípur hún til varna með því vopni sem enginn getur nokkru sinni tekið frá henni, orðunum.

„Ef þessi staður hefur einhverja þýðingu fyrir þig, ef vegirnir og fjöllin eru hluti af þér, þarft þú ekki að óttast að dvelja um kyrrt.“


Lónið hefur drekkt öllu saman: aðeins klukkuturninn stendur upp úr vatninu. Á botninum hvíla leifar þorpsins Curon. Sögusviðið er Suður-Týról, viðkvæmt landamærasvæði þar sem móðurmálið fær ekki einu sinni að tilheyra manni og fylgja eftirleiðis. Þegar Mussolini setur þýskunni skorður og lætur meira að segja breyta nöfnum á legsteinum þá er ekki annað í boði en að reyna að segja söguna til að glata sjálfsmyndinni ekki alfarið. Trina er ung móðir sem speglar þjáningu samfélagsins með því að ákalla þráfaldlega dóttur sína, sem hefur horfið sporlaust. Hún hefur aldrei gefið upp alla von um endurfundi og viðheldur henni með því að skrifa dóttur sinni í þeirri trú að geta fengið hana til sín aftur. Þegar stríðið bankar á dyr fylgir Trina eiginmanni sínum, sem hefur gerst liðhlaupi, til fjalla, þar sem þau læra bæði að lifa í návígi við dauðann. Eftir það taka við langvarandi eftirstríðsár sem þó hafa ekki nokkurn frið í för með sér. Á meðan lesandinn lifir sig inn í sögu þessarar fjölskyldu og fyllist löngun til að rétta Trinu hjálparhönd, er hann fyrr en varir farinn að fylgjast með byggingu stíflunnar sem tekur á sig nýja mynd dag frá degi og drekkir á endanum húsunum og strætunum með öllum sínum þjáningum og draumsýnum, baráttu og einmanaleika.

Sagan fjallar um ákveðið tímabil en er um leið afar tímabær og grípandi frá upphafi til enda. Hún er nýjasta og um leið ein magnaðasta skáldsaga Marcos Balzano, vinningshafa Capiello-verðlaunanna 2015, og seldist þegar til margra landa áður en hún kom út.

bottom of page