top of page

TÝNDA SYSTIRIN

METSÖLUHÖFUNDURINN SNÝR AFTUR MEÐ KRASSANDI SÁLFRÆÐITRYLLI!

 

Hvarfið

Fyrir tólf árum hvarf kærasta Finn sporlaust. 

 

Grunurinn

Hann sagði lögreglunni sannleikann um atburði kvöldsins. Þó ekki allan sannleikann. 

 

Óttinn

Finn hefur tekist að halda áfram með líf sitt. Fortíðin neitar þó að láta kyrrt liggja … 


„Ómótstæðileg ný rödd í spennusagnaheiminum“

Sophie Hannah 

Var að ljúka við þessa STÓRKOSTLEGU bók … snilldarleg, spennandi og óvænt, ég gat ekki sofnað fyrr en ég hafði komist að hinu sanna … Ég sá endinn alls ekki fyrir! Gjörsamlega heillandi allt til loka“

Claire Douglas 

Frá B.A. Paris, höfundi metsölubókanna BAK VIРLUKTAR DYR og ÖRVÆNTING sem komu út hjá Drápu 2016 og 2017. 

Þýðandi er Ingunn Snædal  

„Bók sem heldur þér í heljargreipum; atburðarásin er hröð og óvissan nagandi“

The Sun 

Lestu fyrstu tvo kaflana hér að neðan

 

FYRIR TÓLF ÁRUM

Viðtal: Finn McQuaid 

Dagsetning: 15/03/2006 

Tími: 03.45 

Staður: Fonches 

  Við vorum að koma úr skíðaferðalagi til Megève. Ég ákvað að stoppa í París á leiðinni heim til að koma Laylu á óvart, hún hafði aldrei komið þangað áður. Við fengum okkur kvöldverð á veitingastað rétt hjá Frúarkirkjunni og fórum síðan í göngutúr meðfram Signu. Við hefðum getað verið þar yfir nótt – núna óska ég þess að við hefðum gert það – en okkur langaði bæði að komast heim í húsið okkar í St. Mary’s í Devon.


  Það hlýtur að hafa verið í kringum miðnætti sem við yfirgáfum París. Þegar við höfðum verið á ferðinni í einn og hálfan klukkutíma þurfti ég að fara á salerni svo að ég keyrði út af hraðbrautinni, inn á áningarstað við Fonches. Þar er engin þjónusta, maður getur ekki fengið bensín eða neitt en ég vissi að þarna væru salerni vegna þess að ég hafði stoppað þar áður, í fyrri skíðaferðum til Megève. Svæðið var autt, fyrir utan bílinn sem ég sagði ykkur frá, þennan sem var lagt beint fyrir utan salernisbygginguna. Ég held að það hafi verið nokkrir 

flutningabílar á vörubílasvæðinu hinum megin; að minnsta kosti tveir, þessi sem ég sá fara, og hinn bíllinn, sem var með bílstjóranum sem við töluðum við á eftir.

  Það var tóm vatnsflaska veltandi um í bílnum og við höfðum verið að borða ýmislegt snarl á leiðinni frá Megève svo að ég keyrði fram hjá salernunum og út að endanum á bílastæðinu, þar sem ruslatunnan var, til að henda umbúðunum. Ég – ég hefði átt að leggja fyrir utan salernin og ganga þangað. Ef ég hefði gert það, hefði ég verið nær. Ég hefði átt að vera nær.

 

  Layla var sofandi – hún sofnaði um leið og við komum út á hraðbrautina og ég vildi ekki vekja hana svo að ég sat í smástund og slakaði aðeins á. Hún vaknaði þegar ég fór að safna ruslinu til að henda. Hún vildi ekki nota salernin þarna, vildi heldur bíða þar til við kæmum að almennilegri þjónustustöð, þannig að þegar ég fór út sagði ég henni að læsa dyrunum á eftir mér, mér fannst óþægilegt að skilja hana eftir þarna í myrkrinu. Hún er myrkfælin, skilurðu?

 

  Á leiðinni að salernunum mætti ég manni sem kom út og mínútu eða svo seinna heyrði ég bíl keyra í burtu. Hann var lægri en ég, kannski um einn og áttatíu? Ég held að hann hafi verið með dökkt hár, hann var örugglega skeggjaður. Ég var fljótur á klósettinu, leið ekki vel þar inni, var stressaður og fannst eins og einhver væri að fylgjast með mér. Kannski var það af því að einn básinn var lokaður.

  Á leiðinni til baka heyrði ég flutningabíl keyra út af stæðinu og fylgdist með honum þegar hann ók inn á aðreinina að hraðbrautinni. Hann keyrði hratt, eins og hann væri að flýta sér, en ég leiddi í rauninni ekki hugann að því þá stundina. Framundan sá ég útlínur bílsins okkar, hann var sá eini sem var eftir af því að hinn, sá sem hafði verið lagt við salernin, var farinn. Það var ekki fyrr en ég kom nær sem ég tók eftir því að Layla var ekki í bílnum og hélt að hún

hlyti að hafa skipt um skoðun og ákveðið að fara á salernið. Ég man eftir að hafa litið aftur fyrir mig, bjóst við að sjá hana koma á eftir mér – henni hlaut að finnast þessi staður jafn

ónotalegur og mér – en hún var ekki þarna þannig að ég settist inn í bílinn og beið. Myrkrið olli mér óhug svo að ég ræsti bílinn og færði hann fram fyrir salernisbásana, þar sem var að minnsta kosti ljóstýra, svo að Layla þyrfti ekki að ganga alla leiðina til baka í myrkrinu.

  Það geta ekki hafa liðið nema ein, tvær mínútur áður en ég fór að hafa áhyggjur. Það var óeðlilegt að hún skyldi ekki vera komin svo að ég fór út úr bílnum og inn á kvennaklósettið til að leita að henni. Það voru þrír básar, tveir voru tómir en sá þriðji var með lokaðar dyr og ég gerði ráð fyrir að hún væri þar inni. Ég kallaði á hana og þegar ekkert svar heyrðist lagði ég höndina á hurðina og ýtti. Hún opnaðist auðveldlega og þegar ég sá að Layla var ekki þar

flýtti ég mér út aftur og fór að kalla á hana, bjóst jafnvel við því að hún hefði ákveðið að fá sér smágöngutúr til að teygja úr fótunum eftir að ég fór út úr bílnum. Ég vissi samt innst

inni að hún hefði ekki farið að ráfa í burtu, ekki að nóttu til, ekki í svartamyrki, eins og ég sagði, hún þoldi ekki myrkrið.

  Ég hljóp aftur fyrir salernin ef hún skyldi vera þar og þegar ég fann hana ekki náði ég í vasaljós úr bílskottinu og leitaði lengra, fór yfir allan áningarstaðinn, kallaði á hana. Það var ennþá einn flutningabíll á stæðinu þannig að ég fór þangað og kallaði, í von um að finna einhvern til að hjálpa mér til að leita. En það var enginn í bílstjórasætinu og þegar ég barði bílinn utan svaraði enginn þannig að ég bjóst við að bílstjórinn væri sofandi aftur í. Ég reyndi að berja á þá hurð en það kom enginn og þegar ég tók upp símann og sá að það var ekkert samband vissi ég ekki hvað ég ætti að gera. Ég vildi ekki fara ef Layla skyldi hafa dottið og lægi meidd einhvers staðar, en ég gat ekki fundið hana bara með birtunni frá vasaljósinu svo að ég fór aftur upp í bílinn og keyrði eins hratt og ég gat að næstu bensínstöð og hljóp inn öskrandi á einhvern til að hjálpa mér. Það var ekki auðvelt að gera mig skiljanlegan af því að franskan mín er ekki sérlega góð en fólkið samþykkti að lokum að hringja í svæðislögregluna. Þá komuð þið og töluðuð góða ensku og fóruð aftur með mér á áningarstaðinn til að leita að Laylu, vegna þess að við urðum að finna hana.

Þetta var yfirlýsingin sem ég gaf lögreglunni, á lögreglustöð einhvers staðar við A1-hraðbrautina í Frakklandi. Þetta var sannleikurinn. En ekki alveg allur sannleikurinn.

FYRSTI HLUTI

 

EITT

NÚNA

Síminn hringir þegar ég geng í gegnum glerjað anddyrið á glæsilegum skrifstofum Harrys á London Wall. Ég sný mér við og athuga hvað tímanum líður á stafrænu klukkunni fyrir ofan

skrifborðið í móttökunni; klukkan er aðeins hálffimm en ég er óþolinmóður að komast heim. Það hefur verið margra mánaða stapp að fá hinn fræga viðskiptajöfur Grant James til að fjárfesta fimmtíu milljónir punda í nýja sjóðnum hans Harrys og ég er reiðubúinn að halda upp á það. Í þakkarskyni bókaði Harry borð fyrir mig og Ellen í kvöld á Felustaðnum, besta veitingastaðnum í Cheltenham, ég veit að hún á eftir að njóta þess.

 

  Ég lít óþolinmóður á símann, vona að þetta sé einhver sem ég þarf ekki að svara. Sá sem hringir er Tony Heddon, rannsóknarlögreglumaður í Exeter. Við hittumst fyrst fyrir tólf árum

þegar ég var handtekinn, grunaður um morðið á Laylu, og síðan þá erum við orðnir góðir vinir. Það stendur bogadreginn stálbekkur vinstra megin við móttökuna, ég geng þangað og legg skjalatöskuna á málmsætið.

  „Tony,“ segi ég þegar ég svara. „Gott að heyra frá þér.“

  „Ég er ekkert að trufla þig, er það?“

  „Alls ekki,“ segi ég, tek eftir að hann hljómar alvarlegur, eins og alltaf þegar hann hringir til að segja mér að frönsk yfirvöld hafi fundið óþekkt kvenmannslík. Ég reikna með að honum finnist þetta óþægilegt og ákveð að brjóta ísinn. „Hefur enn eitt líkið fundist?“

 

  „Nei, ekkert þannig,“ segir hann rólega með mjúkum Devonshire-hreimnum. „Thomas Winter – þú veist, fyrrverandi nágranni þinn frá St. Mary’s – kom inn á stöðina í gær.“

 

  „Thomas?“ segi ég undrandi. „Ég hélt ekki að hann væri ennþá á lífi eftir öll þessi ár. Hvernig hefur hann það?“

 

  „Líkamlega er hann býsna hress, en hann er orðinn nokkuð við aldur. Þess vegna gerum við ekki of mikið úr því sem hann segir,“ bætir Tony við og þagnar. Ég bíð eftir að hann haldi áfram og á meðan hugsa ég um hvað Thomas geti hafa sagt þeim. Síðan man ég að áður en við Layla fórum í fríið okkar til Frakklands, áður en hún hvarf, þekkti Thomas okkur bara sem hamingjusamt par.

 

  „Af hverju? Hvað sagði hann?“ spyr ég.

  „Hann sagðist hafa séð Laylu í gær.“

  Hjartað í mér missir úr slag. Ég styð lausu hendinni á kalt málmbakið á bekknum, reyni að meðtaka orðin. Ég veit að Tony bíður eftir að ég segi eitthvað, en ég get það ekki, ég leyfi honum að rjúfa þögnina.

 

  „Hann segist hafa séð hana standa fyrir utan húsið og að þegar hann ávarpaði hana hafi hún hlaupið í burtu,“ heldur hann áfram.

  „Af því að þetta var ekki hún,“ segi ég og held röddinni rólegri.

  „Það hélt ég líka. Ég minnti hann á að það væru liðin tólf ár síðan hann sá Laylu síðast en hann sagðist myndu þekkja hana eftir fimmtíu. Hún var með hettu yfir höfðinu en hann var ákveðinn í að þetta væri Layla. Eitthvað í sambandi við hvernig hún stóð, víst.“

 

  „En hann talaði ekki við hana?“

  „Nei. Hann sagði, og ég vitna í hann: „Ég kallaði nafnið hennar, hún sneri höfðinu og þegar hún sá mig hljóp hún í burtu.“ Hann sagði að hún hefði farið í átt að stöðinni en miðasalan var lokuð á þessum tíma og við fundum engan sem sá konu bíða eftir lest. Það er engin eftirlitsmyndavél þar þannig að við erum engu nær.“

 

  Ég leita eftir réttu svari. „Þú heldur ekki í alvörunni að þetta hafi verið Layla, er það? Ekki eftir öll þessi ár.“

 

  Tony stynur þunglega. „Ég hallast að því að skrifa þetta á fjörugt ímyndunarafl herra Winters. Mér fannst bara að þú ættir að vita af þessu, það var allt og sumt.“

 

  „Jæja, takk fyrir, Tony.“ Mig langar að skella á en finnst það fullsnemmt. „Hvenær ætlarðu að setjast í helgan stein? Í september, er það ekki?“

  „Jú, það eru bara nokkrir mánuðir eftir. Veit ekki alveg hvað ég ætla að gera, samt.“

  Ég stekk á þetta. „Þú getur byrjað á því að koma hingað niður eftir til að hitta okkur. Ég veit að Ellen hefði gaman af að sjá þig.“ 

  „Ég geri það, örugglega.“

  Kannski skynjar hann að ég er ekki upplagður fyrir spjall af því að hann segist þurfa að hringja annað. Ég stend í smástund, reyni að setja hlutina í samhengi, velti fyrir mér af hverju Thomas hélt að hann hefði séð Laylu. Ég reikna snöggvast í huganum; við höfðum haldið upp á áttatíu ára afmælið hans rétt áður en við fórum í ferðina örlagaríku til Frakklands árið 2006, sem þýðir að Thomas er níutíu og tveggja ára, á þeim aldri getur fólk auðveldlega ruglast og það er auðvelt að vísa á bug því sem fólk segir, eða því sem það telur sig hafa séð. Þetta geta auðveldlega verið gamalmennisórar. Ég tek bíllyklana upp úr vasanum, fullur öryggis, og held áfram út á bílastæðið.

  Ferðin heim gengur ótrúlega hægt, sem er ekki óvenjulegt á föstudagseftirmiðdegi. Þegar ég keyri framhjá „Velkomin til Simonsbridge. Keyrið hægt“-skiltinu við afleggjarann til þorpsins kemur spenningurinn yfir nýja samningnum aftur upp í mér. Það var flott hjá Harry að bóka Felustaðinn; hann sagði að ég ætti að prófa hjartarsteikina og ég held að ég geri það.

 

  Mínútu seinna legg ég fyrir framan húsið, það er ekki mjög eftirtektarvert að utan en þegar inn er komið er það athvarf mitt og garðurinn er helgidómur minn. Venjulega stendur Ellen á þröskuldinum, jafn spennt að sjá mig og ég hana. Oftar en ekki lítur hún upp úr teikningunum sem hún er að vinna að þegar hún heyrir í bílnum á heimreiðinni og opnar útidyrnar áður en ég er kominn út úr bílnum. En ekki í dag. Einmitt núna finnst mér það illur fyrirboði.

 

  Ég segi við sjálfan mig að vera ekki með þessa vitleysu, að hún sé ekki alltaf búin að opna dyrnar, að ef ég hefði hringt á undan mér til að segja henni góðu fréttirnar væri hún auðvitað tilbúin. En ég vildi segja henni þær augliti til auglitis, mig langar að sjá hana segja mér hversu klár ég sé, frekar en að heyra það bara. Ég veit hvernig þetta hljómar en það er ekki eins og ég sé svona rosalega ánægður með mig, frekar það að þessi samningur er hápunkturinn á starfsferlinum. Að landa hákarli eins og Grant James er svo mikill sigur. Það slær jafnvel við tilfinningunni þegar ég næ að sjá við markaðnum.

 

  Ellen kemur ekki heldur þegar hún heyrir mig opna. Ekki heldur Peggy, rauði setterinn okkar, sem er ennþá óvenjulegra. Í stað þess að kalla fer ég og leita að Ellen, hef örlitlar áhyggjur. Þegar ég opna dyrnar að setustofunni sé ég hana sitja samanhnipraða í einum hægindastólnum, klædda í bláu gallaskyrtuna mína sem hún hnuplar reglulega úr fataskápnum mínum. Mér er sama ég nýt þess að sjá hana í henni. Hún er með hnén dregin upp að brjóstkassanum og skyrtuna dregna yfir þau, eins og tjald.

 

  Ég andvarpa hljóðlega af létti, sem breytist aftur í áhyggjur þegar ég sé að hún starir líkt og ósjáandi út um gluggann, augun eru föst í fortíðinni. Þetta augnaráð hef ég ekki séð í talsverðan tíma en þekki það einum of vel. Það útskýrir af hverju Peggy – alltaf svo næm á skapbrigði Ellenar – liggur hljóð við fætur hennar.

 

  „Ellen?“ segi ég hljóðlega.

  Hún snýr höfðinu til mín og þegar augnaráðið skýrist bröltir hún á fætur.

  „Fyrirgefðu,“ segir hún full iðrunar og flýtir sér yfir til mín,

  Peggy eltir hana aðeins hægar, aldurinn segir til sín. „Ég var annars hugar.“

  „Ég sá það.“

  Hún teygir sig upp og kyssir mig. „Hvernig var dagurinn hjá þér?“

  „Góður,“ segi ég, bíð með fréttirnar af samningnum í smástund.

  „En hjá þér?“

  „Góður líka.“ En brosið er aðeins of bjart.

  „Um hvað varstu að hugsa þegar ég kom inn?“

  Hún hristir höfuðið. „Ekkert.“

  Ég styð fingri undir hökuna á henni og lyfti henni upp svo að hún getur ekki forðast augnaráð mitt. „Þú veist að það þýðir ekki að láta svona við mig.“

„Þetta er í rauninni ekkert,“ heldur hún áfram.

„Segðu mér.“

  Hún yppir lítillega öxlum. „Það er bara, þegar ég kom heim úr síðdegisgöngutúrnum með Peggy fann ég þetta“ – hún stingur hendinni ofan í vasann á skyrtunni og tekur eitthvað upp –

„liggjandi á gangstéttinni fyrir framan húsið.“

  Ég lít niður og sé málaða viðardúkku í lófanum á henni. Mér bregður í brún og í kjölfarið fylgir ofsabræði af því að í eitt andartak held ég að Ellen hafi verið að snuðra á skrifstofunni minni. Svo man ég að hún myndi aldrei gera neitt þvílíkt og einbeiti mér að því að hrekja rauðu reiðiþokuna í burtu. Sagðist hún ekki líka hafa fundið dúkkuna á gangstéttinni fyrir framan húsið?

  „Einhver hlýtur að hafa misst þetta,“ segi ég eins kæruleysislega og mér er unnt. „Krakki á leið úr skólanum eða eitthvað.“

 

  „Ég veit. Þetta minnti mig bara –“ Hún þagnar.

  „Já?“ segi ég og undirbý mig andlega af því að ég veit hvað hún ætlar að segja.

  „Á Laylu.“ Eins og alltaf hangir nafnið í loftinu milli okkar. Í dag, út af símtalinu frá Tony, er það enn þungbærara en vanalega.

 

  Ellen hlær skyndilega og lyftir andrúmsloftinu aðeins. „Ég á þá að minnsta kosti fullt sett núna.“ Og auðvitað veit ég hvað hún á við.

  Það var Layla sem sagði mér þetta fyrst; hún og Ellen áttu báðar sett af rússneskum dúkkum, babúskum, sem hægt er að raða saman, sú minnsta fer inn í þá næstminnstu og koll af kolli. Einn daginn hvarf sú minnsta úr settinu hennar Ellenar og hún ásakaði Laylu um að hafa tekið hana en Layla neitaði því og dúkkan fannst aldrei. Nú, þrettán árum eftir að ég heyrði þetta fyrst, slær kaldhæðnin mig af því að Layla hvarf eins og litla dúkkan hennar Ellenar og fannst aldrei aftur.

 

 „Kannski ættirðu að setja hana á vegginn fyrir utan, eins og fólk gerir við týnda hanska,“ segi ég. „Einhver gæti komið að leita að henni.“

  Það dofnar yfir Ellen og ég fæ sektarkennd, af því að þetta er jú bara rússnesk dúkka. En eftir samtalið við Tony finnst mér þetta einum of mikið.

 

  „Ég hafði ekki hugsað út í það,“ segir hún.

  „Nóg um það, ég get líka keypt handa þér eins margar rússneskar dúkkur og þú vilt núna,“ segi ég, þó að við vitum bæði að þetta snúist ekki um það.

  Augun í Ellen þenjast út. „Meinarðu að …?“

  „Já,“ segi ég, lyfti henni upp og sveifla henni í kringum mig, tek eftir því – ekki í fyrsta skipti – hvað hún er mikið léttari en Layla var. Lokkur af kastaníubrúnu hári sleppur úr stuttu taglinu

og fellur niður á andlitið. Hún grípur um axlirnar á mér.

  „Fjárfesti Grant James?“ hrópar hún.

  „Hann gerði það,“ segi ég og ýti öllum hugsunum um Laylu frá mér. Ég hætti að snúast og læt Ellen niður. Hún hrasar og dettur upp að mér og ég tek utan um hana.

 

  „Það er frábært! Harry hlýtur að vera í skýjunum!“ Hún mjakar sér úr faðmlagi mínu. „Bíddu hérna, ég verð snögg.“

 

  Hún hverfur inn í eldhúsið og ég sest í sófann og bíð. Peggy treður sér á milli fótanna á mér og ég tek hausinn á henni milli handanna, sé hvað hún er orðin grá og finn sorg í hjartanu. Ég

toga varlega í eyrun eins og henni finnst svo gott og segi henni hvað hún sé falleg. Það er nokkuð sem ég segi henni oft, kannski of oft. Sannleikurinn er sá að Peggy hefur alltaf táknað meira en bara Peggy fyrir mér. Og núna líður mér eins og það sé ekki rétt, út af

rússnesku dúkkunni.

 

  Ég er eirðarlaus, of fullur af hreyfiorku til að sitja kyrr. Ég vil fara út á skrifstofuna mína – sérhannað hús úti í garði – og ganga úr skugga um að rússneska dúkkan, þessi sem Ellen veit

ekki um, sé þar, á felustaðnum sínum. Ég neyði mig til að sýna þolinmæði, minni mig á hve gott ég hafi það. Samt er þetta erfitt og ég er næstum farinn að leita að Ellen þegar hún kemur aftur, með kampavínsflösku í annarri hendi og tvö glös í hinni.

  „Fullkomið,“ segi ég og brosi til hennar.

  „Ég faldi það aftast í ísskápnum fyrir nokkrum vikum,“ segir hún, setur glösin á borðið og réttir mér flöskuna.

 

  „Nei,“ segi ég, gríp í flöskuna og nota hana til að draga Ellen til mín. „Ég var að meina þig.“ Ég held henni þétt smástund, kampavínið fast á milli okkar. „Veistu hvað þú ert falleg?“ Henni finnast gullhamrarnir óþægilegir, hún lætur höfuðið síga og kyssir mig á öxlina. „Hvernig vissirðu að Grant myndi ganga upp?“ held ég áfram.

 

  „Ég gerði það ekki. Ef hann hefði ekki gert það hefði kampavínið verið í sárabætur.“

  „Sérðu hvað ég meina þegar ég segi að þú sért fullkomin?“ Ég sleppi henni með kossi, sný vírinn af og losa tappann úr flöskunni. Kampavínið freyðir út og Ellen er snögg að grípa glösin af borðinu. „Gettu nú hvert ég ætla að fara með þig í kvöld?“ spyr ég þegar ég fylli þau.

 

  „Á McDonald’s?“ stríðir hún mér.

  „Felustaðinn.“

  Hún lítu á mig himinlifandi. „Í alvöru?“

  „Já. Harry bókaði borð þar til að þakka mér.“

 

Seinna, þegar hún er uppi að hafa sig til, fer ég út í skrifstofuna mína í garðinum, sest niður við skrifborðið og opna efstu skúffuna hægra megin. Þetta er stórt antíkskrifborð úr valhnotu og skúffan er svo djúp að ég verð að teygja mig lengst inn til að finna blýantaboxið aftast í henni. Ég tek út litlu máluðu dúkkuna sem kúrir þar. Hún virðist nákvæmlega eins og þessi sem Ellen fann fyrir utan húsið og þegar lófinn lokast um sléttan, gljáandi búkinn finn ég sömu óþægilegu togstreituna og alltaf, blöndu af löngun og eftirsjá, einmanaleika og óendanlegri hryggð. Og þakklæti, því að án þessarar litlu trédúkku hefði ég mögulega verið ákærður fyrir morð.

 

  Layla átti dúkkuna. Þetta var sú minnsta úr rússneska dúkkusettinu sem hún hafði átt frá barnæsku. Þegar Ellen týndi sinni hafði Layla gengið með þessa á sér af ótta við að Ellen myndi taka hana og kasta eign sinni á hana. Hún kallaði hana verndargripinn

sinn og þegar hún var stressuð hélt hún dúkkunni milli þumalfingurs og vísifingurs og neri slétt yfirborðið mjúklega. Hún hafði einmitt gert það á ferð okkar frá Megève og hniprað sig upp að bílhurðinni. Daginn eftir, þegar lögreglan sneri aftur á áningarstaðinn, fannst

dúkkan á jörðinni við hliðina á staðnum þar sem ég hafði lagt bílnum, hjá ruslatunnunni. Það fundust líka sparkför, sem – eins og lögfræðingurinn minn benti á – gáfu til kynna að hún hefði verið dregin út út bílnum og hefði sleppt dúkkunni viljandi, sem eins konar vísbendingu. Þar sem fullnægjandi sannanir skorti til að sanna þetta á hvorn veginn sem var, var mér að lokum leyft að yfirgefa Frakkland og að halda rússnesku dúkkunni.

  Ég geng aftur frá dúkkunni og fer að finna Ellen. En seinna, þegar við liggjum uppi í rúmi, pakksödd eftir frábæru máltíðina sem við fengum á Felustaðnum og líkamar okkar vafðir saman, bölva ég í hljóði litlu rússnesku dúkkunni sem Ellen hefur fundið. Þetta er enn ein áminningin um að það er sama hversu mörg ár líða, við verðum aldrei algerlega laus við Laylu.

 

  Varla líður sá mánuður að við heyrum ekki nafn hennar – hróp úti á götu, persóna í kvikmynd eða bók, nýopnaður veitingastaður, kokteill, hótel. Að minnsta kosti þurfum við ekki lengur að sinna tilkynningum frá fólki sem telur sig hafa séð Laylu – þessi frá Thomasi í gær var sú fyrsta í mörg ár. Þær skiptu hundruðum fyrst eftir að hún hvarf; svo virtist sem allir með rautt hár væru mögulegir kandídatar.

 

  Ég lít niður á Ellen sem hjúfrar sig í handarkrikanum á mér og velti fyrir mér hvort hún sé líka að hugsa um Laylu. Hún andar svo reglulega að ég held að hún sé sofnuð og gleðst yfir því að ég skyldi ekki segja henni frá símtalinu við Tony. Allt – allt þetta – væri miklu auðveldara ef Ellen og ég hefðum orðið ástfangin af einhverjum öðrum en ekki hvort öðru. Það ætti ekki að skipta máli að Ellen er systir Laylu, ekki þegar tólf ár eru liðin síðan Layla hvarf.

  Það gerir það auðvitað engu að síður.

bottom of page