top of page

ÓTTINN

Ottinn_kapa_fram.jpg

Þegar Lou Wandsworth hljópst á brott til Frakklands ásamt kennaranum sínum Mike Hughes, hélt hún að hann væri stóra ástin í lífinu. En Mike var ekki allur þar sem hann var séður og skildi líf hennar eftir í molum.

 

Nú er Lou orðin 32 ára og hún uppgötvar að Mike er enn á ný að gera hosur sínar grænar fyrir unglingsstúlku. Ákveðin í að koma í veg fyrir að Mike endurtaki leikinn, snýr hún aftur til heimabæjar síns til þess að láta hann horfast í augu við þann skaða sem hann olli.

 

Mike er fantur af verstu gerð og Lou gæti orðið fórnarlamb hans á ný, þegar hún reynir að ná fram réttlæti - og bjarga um leið unglingsstúlkunni frá Mike.  

 

Óttinn hefur hlotið fádæma góðar viðtökur enda heldur hún lesandanum í heljargreipum frá fyrstu blaðsíðu. Sálfræðitryllir af bestu gerð. 

​Þýðandi er Ingunn Snædal 

C.L. Taylor colour.jpg

C.L. Taylor er alþjóðlegur metsöluhöfundur og hafa bækur hennar komið út á meira en 20 tungumálum víða um heim. Óttinn er fyrsta bók hennar sem kemur út á íslensku. 

1. KAFLI 

 

Lou 

 

Laugardagur 24. mars 2007 

 

Ég þoli ekki óvæntar uppákomur. Þannig að þegar Ben hringdi í mig í vinnuna á mánudegi og sagði mér að gera engar áætlanir fyrir helgina af því að hann ætlaði að koma mér á óvart, var mér skapi næst að skella á hann. Í staðinn þóttist ég vera spennt. 

„Er allt í lagi með þig?“ spyr hann núna. „Þú verður ekkert bílveik, er það?“ 

   Ef ég er föl hefur það ekkert að gera með þá staðreynd að við æðum núna eftir A2-hraðbrautinni í VW Golf-beyglunni hans. 

   „Það er í lagi með mig,“ svara ég. „Ég vildi samt óska að þú segðir mér hvert við erum að fara.“ 

   Hann slær vísifingri létt á annan nasavænginn og brosir. „Þú kemst nógu snemma að því.“ 

   Ben átti aldrei að verða meira en einnar nætur gaman. Ég reiknaði með að hann færi beint fram úr rúminu og út úr lífi mínu um leið og svitastorknir líkamar okkar kólnuðu. En hann staldraði  við. Hann gisti um nóttina og næsta morgun krafðist hann þess að bjóða mér í morgunmat. Ég sagði já, vegna þess að það var minna vandræðalegt en að segja nei. Aðallega vegna þess að ég var svöng og það var enginn matur til í húsinu. Við enduðum með að vera í yfir tvo klukkutíma á kaffihúsinu. Ég komst að því að hann var sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður, hann hafði aldrei farið á tónleika og að faðir hans væri haldinn ímyndunarveiki á háu stigi. Hann komst að því að ég var einbirni, verkefnastjóri hjá fjarkennslufyrirtæki og að faðir minn væri nýlega látinn. Ben teygði sig um leið yfir borðið og þrýsti hönd mína og sagðist samhryggjast mér. Þegar hann spurði hvort við hefðum verið náin skipti ég um umræðuefni.

   Ég verð á einhverjum tímapunkti að snúa aftur til æskuheimilis míns í grænni sveitasælunni í Worchestershire, að tæma og þrífa býlið og setja það í sölu en það er góð ástæða fyrir því að ég hef ekki farið þangað í átján ár.

   „Þetta er að styttast,“ segir Ben um leið og skilti með Dover/Ermarsundsgöngin/Canterbury/Chatham flýgur framhjá okkur. „Er þig farið að gruna hvert við erum að fara?“

   Maginn í mér herpist saman en ég svara á léttum nótum. „Canterbury er með fallega dómkirkju. Þú ætlar þó ekki að kvænast mér, er það? Ég pakkaði ekki einu sinni kjól.“

   Ef Ben þekkti mig betur myndi hann vita að röddin í mér er hálfri áttund of há og brosið aðeins of strekkt. Hann myndi spyrja hvort það væri í lagi með mig í stað þess að hlæja og koma með grín um Gretna Green. Við Ben höfum hins vegar aðeins verið saman í mánuð. Hann þekkir mig varla.

   Ég reyni að halda aftur af angistinni, fyrst með því að syngja með Artic Monkeys af geisladiskinum sem Ben á, og síðan með einhverju blaðri. Á meðan kílómetrarnir æða hjá ræðum við seríuna sem við höfum verið að lotuglápa á síðustu vikuna, nýjasta stjörnuskandalinn sem er búinn að vera á forsíðunum og hvar við horfðum á tunglmyrkvann. Rökhugsunin segir mér að ég hafi ekkert að óttast. Ég er þrjátíu og tveggja ára, ekki fjórtán. Ben bað mig ekki um að taka vegabréfið með. Hnúturinn í maganum er samt á sínum stað. 

   „Erum við að verða komin?“ spyr ég um leið og Ben lyftir vatnsflösku að vörum sér. 

   Hann hlær og frussar fínum vatnsúða yfir stýrið. „Ertu fimm ára?“ 

   „Nei, bara óþolinmóð.“ 

   „Ég vissi að ég hefði átt að binda fyrir augun á þér. Nei, annars,“ hann potar laust í mig. „Kefla þig.“ 

   Ég spennist upp en kreisti fram hlátur. „Ekki segja mér að þú sért fyrir eitthvert sadó/masó-rugl?“ 

   „Hver segir að það sé rugl?“ 

   Meiri hlátur. Við hlæjum mikið. Við höfum gert það síðan við hittumst fyrst, á krá í Soho. Ég var í kveðjupartíi með vinnunni og hafði tekist að sulla meirihlutanum af rauðvínsglasi yfir blússuna mína. Ben kom út af karlasalerninu um leið og ég brunaði inn kvennamegin og missti veskið mitt í flýtinum. Hann beið fyrir utan til þess að geta látið mig fá það aftur. Hann leit vel út, var vinalegur og af því að ég var drukkin sagði ég já þegar hann bauð mér upp á drykk. 

  Það er mánuður síðan við kynntumst. Tveir mánuðir þar til við hættum saman. Ef það. Þrjátíu og tveggja ára gömul og hef aldrei verið í sambandi sem endist lengur en í þrjá mánuði. Fyrr eða síðar klúðra ég hlutunum. Ég geri það alltaf. 

   Þegar við beygjum út af M2-hraðbrautinni við afleggjara 7 stendur Canterbury/Dover/Margate/Ramsgate á skiltinu. Ég get ekki ímyndað mér að Ben sé að fara með mig til Margate yfir helgina, þótt það gæti verið gaman. Þá er það Canterbury. Það hlýtur að vera. Kannski hefði ég átt að pakka niður hvítum kjól. 

   „Gerðu það, segðu mér hvert við erum að fara,“ bið ég. 

   Ben brosir en segir ekkert. Glottið fer ekki af honum þegar við ökum út úr hringtorginu yfir á Boughton Bypass og aftur upp á A2-hraðbrautina. „Ekki kíkja,“ segir hann þegar ég teygi mig eftir símanum. „Ef þú gáir á Google Maps eyðileggurðu óvæntu upplifunina.

   Sem var reyndar það sem ég ætlaði mér.

   Ég gríp fastar í handfangið í loftinu þegar við þjótum framhjá afleggjaranum til Canterbury og ég sé skilti sem á stendur: „Dover – 27 kílómetrar“. Eina ástæðan fyrir því að fara þangað er til þess að taka ferjuna yfir til Calais. Ben bað mig ekki að taka með mér vegabréf. Hann hlýtur að hafa uppgötvað einhverja perlu þarna rétt hjá, heillandi sjávarþorp kannski, utan sjónmáls frá ferjunum og fiskibátunum.

   „Næstum því komin,“ segir hann er við keyrum gegnum Dover og grá sjávarlína kemur í ljós á milli bygginganna. „Treystu mér, þú átt eftir að dýrka þetta.“

   Treystu mér. Þú verður að treysta mér, Lou. Ég passa þig, ég lofa. Ég elska þig. þú veist það, er það ekki?

   „Ben.“

   Við erum bara nokkur hundruð metra frá ferjubyggingunni núna, gráleitu hrúgaldi sem liggur út við sjóinn. Við keyrum meðfram sjávarmálinu en síðan hægir Ben á bílnum þegar við nálgumst tollhliðin.

   „Ben, ég –“ 

   „Slakaðu á.“ Hann hægir á bílnum og fer aftast í bílaröðina. „Ég er með vegabréfið þitt. Ekki drepa mig en ég hnuplaði því úr skrifborðsskúffunni hjá þér þegar þú varst að elda kvöldmat –“

   „Ég get ekki gert þetta.“

  „Hvað?“

   Ég toga í handfangið á hurðinni en dyrnar opnast ekki.

   „Lou?“

   Ég reyni aftur. Og aftur. Toga. Sleppi. Toga. Sleppi. Svart plastið sveiflast fram og til baka en dyrnar opnast ekki. Hann er búinn að læsa mig inni.

Þetta verður allt í lagi, Lou. Þetta er það sem við vildum. Bara þú og ég. Nýtt líf. Ný byrjun á stað þar sem enginn mun dæma okkur. Við getum verið saman að eilífu. 

   Glugginn þá. Ef ég opna hann, losa bílbeltið og teygi mig út get ég opnað hurðina að utanverðu. Ég kemst út. 

   „Lou?“ 

   Ég reyni áfram og tek í handfangið á farþegahurðinni en höndin er sleip af svita og það rennur undan fingurgómum mínum. 

   „Ertu að verða veik eða eitthvað? Ég er búinn að opna dyrnar. Fyrirgefðu, það er samlæsing og –“ 

   Kaldur vindgustur blæs hárinu framan í mig þegar ég stekk út úr bílnum. Á augnabliki er ég orðin fjórtán ára aftur. 

   Mike er stóra ástin mín og ég er hans. Hann er að fara með mig til Frakklands í rómantíska helgarferð. Þennan morgun fer ég í skólabúninginn minn eins og vanalega en í stað þess að fara með vagninum alla leið í skólann fer ég fyrr úr á horninu á Holy Lane. Mike bíður hjá bílnum sínum. Hann sagði mér að taka með mér snyrtivörur, aukaföt og vegabréfið í skólatöskunni. Hann sagðist sjá um afganginn.

2. KAFLI

 

Wendy

 

Sunnudagur 8. apríl 2007 

 

„Monty!“ Wendy Harrison leggur frá sér skófluna, dustar moldina af garðvinnuhönskunum og stendur upp. „Monty, ég kem inn núna!“

   Svartflekkótti springer spaniel-hundurinn hennar kemur þjótandi út úr runnunum þegar hann heyrir röddina og trítlar yfir grasið í áttina til hennar með bleika tunguna lafandi út úr sér.

   „Halló, Montrass.“ Wendy strýkur yfir kollinn á honum. „Ég held að við eigum bæði skilið nammi núna, finnst þér það ekki?“

   Eyru hundsins sperrast þegar þau heyra orðið nammi og hann lítur ekki af andliti húsmóður sinnar en töltir hlýðinn við hlið hennar inn í húsið með litlu veröndinni í jaðri Malvern-héraðs.

   Wendy fær sér bita af kremkexinu, tyggir, kyngir og stingur hinum helmingnum upp í sig. Þegar hún er búin með kexið fær hún sér sopa af teinu og tekur upp aðra kexköku. Hún ætlaði bara að fá sér eina. Hún var meira að segja búin að skrifa það inn í grenningardagbókina hjá sér – kremkex, þrjú stykki – en einhvern veginn er hálfur pakkinn horfinn.

   Fjárinn, hugsar hún og hreyfir fingurna á fartölvumúsinni. Ég byrja aftur á morgun. 

   Síðasta klukkutímann hefur hún flakkað á milli sömu þriggja vefsíðnanna – Facebook, Twitter og Instagram. Þetta er í fjórða skiptið í dag sem hún skráir sig inn og klukkan er bara tvö eftir hádegi. Hún reynir að dreifa huganum – með garðyrkju, hlutastarfinu sínu í bókhaldi og gönguferðum með Monty – en hugurinn dregst alltaf aftur að þessum vefsíðum. Er búið að pósta einhverju nýju? Stöðufærslu, mynd eða stað? Spennan magnast í maganum. Hvað ef því er eytt áður en hún les það? Hvað ef hún missir af einhverju mikilvægu? 

   Hún man ekki hvað það var sem fékk hana fyrst til að gúgla Lou Wandsworth. Það gætu hafa verið tilfallandi samræður sem hún átti við Angelu vinkonu sína um að finna gamlan skólafélaga á Facebook, grein sem hún hafði lesið í blaðinu, eða kannski var þetta einn af þessum dögum þegar hún vaknaði með þá tilfinningu að svart ský hefði tekið sér bólfestu í heilanum og ekkert gæti fært henni gleði, ekki einu sinni Monty sem lagði hausinn á hnén á henni og horfði á hana með brúnum, rannsakandi augum. 

   Það tók Wendy ekki langan tíma að hafa upp á Lou. Hún var eina Louise Wandsworth á Facebook. Vandamálið var að hún gat bara séð nafnið, prófílmyndina sem var teiknimynd og vinalistann. Ekkert annað. Angela hafði sýnt henni hvernig hún ætti að setja upp sína eigin Facebook-síðu en hún gat ekki notað hana til að reyna að ná sambandi við Lou. Hún útbjó í staðinn nýja síðu, kallaði sig Saskiu Kennedy og bætti við nokkrum myndum af konu sem hún hafði fundið á netinu sem var á u.þ.b. sama aldri og Lou. 

   Hjartað í Wendy titraði í brjóstinu þegar hún ýtti á „Bæta við vini“-takkann. Ekkert gerðist. Beiðni hennar var hundsuð. Dagar liðu, síðan vikur. Wendy gúglaði aðeins meira: Hvernig færðu einhvern til að samþykkja vinabeiðni? 

   Hún komst að því að það virkaði grunsamlegt ef þú áttir ekki marga vini, eða enga sameiginlega, svo að hún bætti við fleiri vinum sem bjuggu í London og virtust vera á sama aldri og Louise. Karlmenn voru auðveldir – konan á falska reikningnum hennar var aðlaðandi – en það tók lengri tíma fyrir konur að samþykkja vinabeiðnirnar. Þegar hún var komin með fimmtíu vini og búin að fylla vegginn hjá sér af bjánalegum myndum og sams konar uppfærslum og „vinir“ hennar, reyndi hún að bæta við nokkrum af vinum Lou. Henni til undrunar samþykktu þeir hana, að minnsta kosti sex þeirra. Þegar hún sendi Lou vinabeiðni í annað skipti var hún samþykkt.

   Hún var komin inn.

   Wendy var sigri hrósandi og byrjaði að smella á myndaalbúmin hjá Lou. Eftir margra mánaða leynilögregluvinnu var hún loksins búin að finna það sem hún leitaði að. Ekki bara eina mynd af Lou heldur tugi. Lou var með sítt brúnt hár sem hún tók í tagl, var aðeins máluð um augun en ekki með varalit. Grönn. Ekki á aðlaðandi hátt. Jakkinn hékk á öxlunum á henni og pilsið var pokalegt fyrir neðan hnén. Hún virkaði tekin í framan þrátt fyrir ungan aldur – með innfallið andlit maraþonshlauparans eða einhverrar konu af síðum Slimming World-blaðsins sem hafði misst 20-30 kíló á nokkrum mánuðum.

   Þegar Wendy skoðaði myndirnar fann hún fyrir þunga í maganum. Lou var kannski ekki aðlaðandi á hefðbundinn hátt en hún var umvafin fólki á hverri einustu mynd. Það voru myndir af henni á skuggalegum börum, klingjandi kokteilglösum við hraustlega vini. Mynd af henni hlaupandi gegnum öldurnar í sólarlandaferð, ekki arða af fitu undir litlu bikiníinu. Lou uppi á fjallstoppi með þéttreimaða anorakkshettu og sigursvip á andlitinu. Lou uppáklædd í ballkjól með annan fótinn sveigðan aftur eins og stjarna, að kyssa dökkhærðan mann sem var klæddur eins og Clark Gable. Hún leiftraði af lífi, var vinsæl, sigld og sæl. Allt sem Wendy var ekki.

   Wendy fór ekki aftur á Facebook í viku eftir þessa fyrstu uppgötvun. Hún opnaði ekki einu sinni fartölvuna, leið illa bara við að ganga framhjá henni. Svo náði forvitnin yfirhöndinni.17 

   „Ég rétt kíki bara,“ sagði hún við Monty þegar hún settist niður við borðstofuborðið og glennti upp fartölvuna. „Læt það duga.“ 

  Það var fyrir sjö mánuðum. 

„Bíddu augnablik, Monty,“ segir Wendy þegar hundurinn nuddar sér upp við hnén á henni. „Við förum í göngutúr eftir smástund.“ 

Hún teygir sig í kexköku og skellir henni upp í sig. Fyrir utan eru óveðursský að hrannast upp. Ef þau fara ekki strax út stefnir í blautan göngutúr. Ég ætla bara að endurglæða skjáinn einu sinni, segir Wendy við sjálfa sig um leið og hún ýtir á músarhnappinn, og svo skelli ég mér í kápuna. 

   Það sem hún sér á skjánum fær hana til að taka svo mikil andköf að litlir kexbitar sogast niður í öndunarveginn og hún fær hóstakast. Lou er búin að setja inn nýja færslu á Facebook. 

   Ég fékk vinnuna í Malvern og flyt innan mánaðar. London, ég á eftir að sakna þín.

bottom of page