Ljótur leikur
Höfundur: Angela Marsons
EITT
Svörtulönd – mars 2015
Þrjár mínútur til stefnu.
Skyndiáhlaup í dögun gerðust ekki viðameiri en þetta. Það hafði verið marga mánuði í undirbúningi. Nú loksins voru Kim Stone og liðsmenn hennar reiðubúin. Félagsráðgjafarnir voru hinum megin við götuna og fengju merki þegar þau ættu að fara inn. Tvær litlar stúlkur myndu ekki sofa hér í nótt.
Tvær mínútur til stefnu.
Kim kveikti á talstöðinni. „Allir komnir á sinn stað?“
„Bíðum eftir fyrirskipunum þínum, stjóri,“ svaraði Hawkins. Liðið hans var í tveggja gatna fjarlægð, tilbúið að dekka bakhlið hússins.
„Við erum tilbúin, stjóri,“ sagði Hammond sem var í bílnum fyrir aftan hana. Hann var með „stóra lykilinn“ sem myndi koma þeim inn hratt og örugglega en með látum.
Ein mínúta til stefnu.
Kim studdi hendinni á handfangið á hurðinni. Hver einasti vöðvi var spenntur, adrenalínið flæddi um æðarnar, líkami hennar var að ákveða hvort ætti að hrökkva eða stökkva. Eins og það hefði einhvern tíma komið til greina að hrökkva.
Hún sneri sér við og leit á Bryant sem var með það allra mikilvægasta: Heimildina.
„Bryant, þú tilbúinn?“
Hann kinkaði kolli.
Kim fylgdist með sekúnduvísinum renna yfir á tólf. „Núna, áfram, áfram,“ kallaði hún í talstöðina.
Fótatak átta para af stígvélaskóm glumdi á gangstéttinni og barst að aðaldyrum hússins. Kim varð fyrst. Hún vék sér til hliðar meðan Hammond sveiflaði hurðarbrjótnum að dyrunum. Ódýr viðarhurðin lét strax undan gríðarlegum slagkraftinum.
Eins og ákveðið hafði verið hlupu Bryant og einn lögregluþjónninn strax upp, í átt að hjónaherberginu, til að afhenda heimildina.
„Brown, Griff, þið farið í stofuna og eldhúsið. Takið allt í sundur ef þið þurfið. Dawson, Rudge, Hammond, komið með mér.“
Húsið fylltist umsvifalaust af hávaðanum þegar skúffur og skápar eru opnuð og þeim skellt aftur.
Það brakaði í gólfborðum á hæðinni fyrir ofan og kona heyrðist skrækja móðursýkislega. Kim virti það að vettugi og gaf félagsráðgjöfunum merki um að koma.
Hún nam staðar fyrir framan kjallaradyrnar. Þær voru læstar með hengilás.
„Hammond, töng,“ kallaði hún.
Lögregluþjónninn birtist við hlið hennar og klippti járnið fagmannlega í sundur.
Dawson fór á undan henni og fálmaði á veggnum eftir ljósarofa.
Það kviknaði á ljósi á ganginum sem lýsti efst á steintröppurnar. Dawson hélt áfram niður og kveikti á vasaljósinu sínu til að þau sæju betur til. Súr reykjarlykt og saggaþefur lá í loftinu.
Hammond fór yfir í hornið, þar var ljóskastari og hann kveikti á honum. Ljósgeislinn beindist að ferhyrndri leikfimidýnu sem stóð í miðju herberginu. Handan við hana stóð þrífótur.
Í horninu á móti þeim var fataskápur. Kim opnaði hann og fann þar ýmsa búninga, þar á meðal skólabúning og alls konar sundföt.
Á gólfinu í skápnum lágu leikföng: Gúmmíhringur, strandbolti,dúkkur. Kim barðist við ógleðina.
„Rudge, taktu myndir,“ skipaði hún.
Hammond barði á veggina í herberginu í leit að földu rými.
Í útskoti í horninu fjærst þeim stóð skrifborð með tölvu á. Fyrir ofan það voru þrjár hillur. Á þeirri efstu voru tímarit. Mjóir kilirnir gáfu engar upplýsingar um innihald þeirra en Kim vissi samt hvað í þeim var. Á miðjuhillunni voru nokkrar stafrænar myndavélar, geisladiskar og hreinsibúnaður. Á neðstu hillunni taldi hún sautján DVD-diska.
Dawson tók þann efsta, sem var merktur Daisy fer í sund, og stakk honum í geisladrif tölvunnar. Vélin fór samstundis í gang.
Daisy, sú átta ára, birtist á skjánum í gulum sundfötum. Hún var með sundkút um sig miðja. Hún vafði grönnum handleggjunum um sig en gat ekki hamið skjálftann.
Kim fékk kökk í hálsinn. Hana langaði að líta af skjánum en hún gat það ekki. Hún sagði við sjálfa sig að hún gæti komið í veg fyrir að þetta gerðist – en auðvitað gat hún það ekki, þetta hafði þegar gerst.
„Hv-hvað núna, pabbi?“ spurði Daisy skjálfandi röddu.
Þau stirðnuðu öll upp. Dauðaþögn ríkti í kjallaranum. Þrautreyndir lögreglumennirnir fjórir stóðu eins og lamaðir við orð litlu stúlkunnar.
„Við ætlum bara í örlítinn leik, elskan,“ heyrðist pabbinn segja og svo kom hann í mynd.
Kim kyngdi og rauf álögin. „Slökktu á þessu, Dawson,“ hvíslaði hún. Þau vissu öll hvað gerðist næst.
„Helvítis óþokkinn,“ sagði Dawson. Hendur hans skulfu þegar hann tók diskinn úr.
Hammond starði út í horn og Rudge þurrkaði hægt af myndavélarlinsunni.
Kim tók sér tak. „Strákar, þessi aumingi fær að gjalda fyrir það sem hann hefur gert. Ég lofa því.“
Dawson tók alla pappíra til að fara yfir þá. Hann átti langan dag fyrir höndum.
Kim heyrði læti uppi. Konurödd æpti óstjórnlega.
„Stjóri, getur þú komið aðeins hingað upp?“ kallaði Griff.
Kim leit einu sinni enn í kringum sig. „Rífið þetta allt í sundur, drengir.“
Hún mætti Griff þegar hún kom upp stigann. „Hvað?“
„Eiginkonan heimtar að fá svör.“
Kim skálmaði til dyranna þar sem kona um hálffimmtugt stóð og hélt sloppi að beinaberum líkamanum. Félagsráðgjafarnir voru að fylgja litlu, skjálfandi dætrum hennar tveimur inn í Fiat bifreið.
Wendy Dunn heyrði Kim koma og sneri sér við. Augun í henni voru rauð í litlausu andlitinu. „Hvert eru þau að fara með börnin mín?“
Kim stóðst freistinguna að kýla konuna kalda. „Burt frá þínum helsjúka og viðbjóðslega eiginmanni.“
Konan dró sloppinn betur að hálsinum. Höfuðið á henni gekk til hliðanna. „Ég vissi ekki neitt, ég sver að ég vissi ekki neitt. Ég vil fá dætur mínar. Ég vissi ekki neitt.“
Kim hallaði undir flatt. „Virkilega? Venjulega neitar eiginkonan að trúa fyrr en henni eru sýnd sönnunargögn. Þú hefur ekki fengið að sjá nein sönnunargögn enn, er það, frú Dunn?“
Konan horfði flóttalega í kringum sig og leit ekki á Kim.
Kim hallaði sér fram, myndin af Daisy var fersk í huga hennar. „Þú ert lygatík. Þú vissir þetta víst. Þú ert mamma þeirra og þú leyfðir honum að vinna þeim óbætanlegan skaða. Ég vona að þú munir kveljast það sem eftir er af þínu auma andskotans lífi.“
Bryant birtist við hlið hennar. „Stjóri …“
Kim sleit augun af skjálfandi konunni og sneri sér við.
Hún leit yfir öxlina á Bryant, beint í augun á manninum sem var ábyrgur fyrir því að tvær litlar stúlkur myndu aldrei geta lifað eðlilegu lífi. Allt annað hvarf henni sjónum, í nokkrar sekúndur voru þau aðeins tvö í heiminum.
Hún horfði fast á hann, sá slapandi holdið sem hékk af kjálkum hans eins og bráðnandi vax. Hann var móður og másandi, tvö hundruð og fimmtíu kílóa skrokkurinn þoldi enga hreyfingu.
„Þið getið ekki … andskotans … bara ruðst hér inn … og bara gert … það sem ykkur sýnist.“
Hún gekk í áttina til hans þótt henni byði við tilhugsuninni um að fara nær honum. „Ég er með heimild sem segir að ég geti það víst.“
Hann hristi höfuðið. „Komið ykkur út … úr húsinu mínu …áður en ég hringi í … lögfræðinginn minn.“
Kim tók handjárnin upp úr rassvasanum. „Leonard Dunn, þú ert handtekinn vegna gruns um að hafa haft samræði við barnundir þrettán ára aldri, að hafa ráðist kynferðislega á barn undir þrettán ára aldri og hafa látið barn undir þrettán ára aldri taka þátt í kynferðislegum athöfnum.“Hún horfði fast í augu hans og sá aðeins ofsahræðslu. Hún opnaði handjárnin og Bryant greip um framhandleggi Dunns.
„Þú þarft ekki að segja neitt. Það getur þó skaðað vörn þína ef þú nefnir ekki núna eitthvað sem þú vilt síðar nýta í réttarsal. Allt sem þú segir getur talist til sönnunargagna í málinu.“
Hún lokaði handjárnunum, gætti þess að snerta ekki loðið, fölt hörundið, ýtti manninum frá sér og leit á félaga sinn.
„Bryant, farðu með þetta viðbjóðslega kvikindi burt úr augsýn áður en ég geri eitthvað sem við sjáum bæði eftir.“