top of page
​Úlfakreppa, B.A. Paris 

Sunnudagur 9. júní 

03:30

 

Livia

 

Kólnandi baðvatnið vekur mig. Ég sest ráðvillt upp í snarheitum, skvetti sápulöðri upp um hliðar baðkarsins og velti fyrir mér hve lengi ég hafi dottað. Ég tek tappann úr og vatnið rennur gjálfrandi niður, hljóðið virkar of hátt í dauðakyrrðinni í húsinu.

Hrollur fer um mig á meðan ég þurrka mér. Óljós minning krafsar í heilann. Það var eitthvert hljóð sem vakti mig, drunur í mótorhjóli fyrir utan húsið. Ég hætti að þurrka mér, handklæðið hylur bakið. Þetta hefur ekki verið Adam, er það? Hann getur ekki hafa farið af stað á hjólinu á þessum tíma nætur.

Ég vef handklæðinu utan um mig, flýti mér inn í svefnherbergið og lít út um gluggann. Sakbitið hjarta mitt hægir á sér þegar ég sé, handan við veislutjaldið, gulan glampa berast frá skúrnum hans. Hann er þarna, hann hefur ekki farið til að jafna reikningana. Hluti af mér vill fara niður og athuga hvort það sé í lagi með hann en eitthvað, kannski sjötta skilningarvitið, heldur aftur af mér, segir að hann muni koma til mín þegar hann er tilbúinn til þess. Eitt augnablik finn ég til ótta, líkt og ég stari í kolsvart tóm. Það er samt aðeins myrkrið og mannlaus garðurinn sem vekja þessa tilfinningu.

Ég sný mér frá glugganum og leggst upp í rúm. Hann fær tíu mínútur í viðbót og ef hann verður þá ekki kominn aftur fer ég til hans.

 

Adam

 

Ég æði eftir auðum götunum, hræði burt flækingskött, tek of krappar beygjur, rýf dauðaþögn næturinnar með drununum í hjólinu. Fyrir framan mig birtist aðreinin að M4-hraðbrautinni. Ég gef í og beygi þangað, bruna inn á hraðbrautina og smeygi mér framfyrir aðvífandi bíl. Hjólið titrar undir mér þegar ég eyk hraðann.

Vindurinn þýtur um andlitið, tilfinningin er einna líkust ölvunarástandi, ég berst við yfirþyrmandi löngun til að sleppa stýrinu og láta fallast til móts við dauðann. Er hræðilegt af mér að vilja ekki lifa áfram fyrir Liviu og Josh? Sektarkenndin hleðst ofan á angist síðustu fjórtán klukkutímanna og hvítglóandi reiðistraumur fer um mig þar sem ég geysist með hávaða og látum eftir hraðbrautinni og þrái að tortímast.

Svo sé ég í speglinum, gegnum tárin sem streyma úr augunum á mér, bíl sem kemur á fleygiferð á eftir mér með bláum, blikkandi ljósum, og sorgaröskur mitt breytist í gremjulega stunu. Ég eyk hraðann upp í hundrað og sextíu kílómetra, veit að ég get þanið hjólið enn meira ef til þess kemur vegna þess að núna má ekkert stöðva mig. Lögreglubíllinn er hins vegar fljótur að ná mér, hann sveigir yfir á akreinina við hliðina, kemur upp að hlið hjólsins og ég sé útundan mér að lögreglumaðurinn í farþegasætinu gefur mér ákafar bendingar.

Ég eyk hraðann en bíllinn tekur fram úr og sveigir fyrir mig. Ég er í þann mund að gefa almennilega í og stinga hann af, þenja hjólið eins og það kemst, en eitthvað heldur aftur af mér og lögreglubíllinn hægir smám saman ferðina, stöðvar mig. Ég veit ekki af hverju ég leyfi því að gerast. Kannski er það vegna þess að ég vil ekki að Livia þurfi að missa meira. Eða kannski var það biðjandi röddin í Marnie: „Ekki, pabbi, ekki!“ Ég get svarið að eitt augnablik finn ég hana taka fast utan um mittið á mér og þrýsta höfðinu að baki mínu.

Ég titra allur þegar ég stöðva hjólið fyrir aftan lögreglubílinn og drep á vélinni. Tveir lögregluþjónar stíga út, karl og kona. Karlmaðurinn skálmar í áttina til mín.

„Ertu að reyna að drepa þig eða eitthvað?“ hrópar hann og treður húfunni á höfuðið á sér.

Hinn lögregluþjónninn – bílstjórinn – kemur líka nær. „Herra, farðu af hjólinu,“ segir hún hvasst. „Herra, heyrirðu til mín? Farðu af hjólinu.“

Ég reyni að losa hendurnar af stýrinu, sveifla fætinum yfir, en ég virðist líkt og límdur við hjólið.

„Herra, ef þú hlýðir ekki verð ég að handtaka þig.“

„Við þurfum hvort sem er að handtaka hann,“ segir fyrri lögreglumaðurinn. Hann stígur eitt skref í áttina til mín og þegar ég sé handjárnin sem hanga við beltið hans kem ég snögglega til sjálfs mín. 

Ég lyfti skyggninu á hjálminum. „Bíðið!“

Eitthvað hljóta þau að heyra á röddinni, eða kannski sést það framan í mér, þau hika bæði.

„Hvað viltu segja?“

„Það er um Marnie.“

„Marnie?“

„Já.“

„Hver er Marnie?“

„Dóttir mín.“ Ég kyngi kolli með erfiðismunum. „Marnie er dóttir mín.“

Þau líta hvort á annað. „Hvar er dóttir þín niðurkomin, herra?“

 

Daginn áður

Laugardagur 8. júní

08:00-09:00

 

Adam

 

Ég leyfi Liviu að sofa, fer fram úr rúminu og teygi hljóðlega úr mér í hlýjum blænum sem berst inn um gluggann. Ég bæli niður geispa og gái til veðurs, það er ekki eitt einasta ský sjáanlegt. Liv verður ánægð með það. Veðrið er hér um bil það eina sem hún hefur ekki stjórn á fyrir veisluna í kvöld. Allt annað hefur hún skipulagt mánuðum saman, hún vill að þetta verði fullkomið. Sleitulaus rigningin undanfarnar helgar var farin að valda henni áhyggjum.

Ég horfi á brjóst hennar rísa og hníga reglulega í svefninum, augnlokin kippast örlítið til. Hún er svo friðsæl að sjá að ég ákveð að vekja hana ekki fyrr en kaffið er tilbúið. Ég finn fötin mín síðan í gærkvöldi, smeygi mér í gallabuxurnar og strýk yfir hárið um leið og ég fer í stuttermabolinn.

Það brakar í stiganum þegar ég fer niður og Murphy, rauðyrjótti ástralski fjárhundurinn okkar, vaknar af værum blundi í bælinu sínu við hliðina á kamínunni. Ég lýt niður að honum í smástund, spyr hvernig hann hafi það og hvort hann hafi sofið vel, segist sjálfur hafa fengið martröð. Hann sleikir höndina á mér í samúðarskyni og lætur svo hausinn síga aftur, sáttur við að sofa það sem eftir lifir dagsins. Hann er orðinn fimmtán ára og ekki eins orkumikill og áður, sem hentar ágætlega því að það er ég ekki heldur. Hann nýtur þess að fara í sína daglegu gönguferð en við förum ekki lengur út að hlaupa saman. 

Mimi, rauðbröndótti kötturinn hennar Marniear sem hagar sér eins og hún sé hreinræktuð en er langt frá því að vera það, teygir úr sér, töltir til mín og nýr sér upp við fótlegginn á mér til að minna á tilvist sína. Ég fylli skálar gæludýranna og set svo vatn í ketilinn, kveiki á honum og þögnin er rofin af suðinu í vatninu þegar það hitnar. Ég lít út um gluggann og sé stóra, hvíta veislutjaldið sem hniprar sig saman á grasflötinni eins og óargadýr, reiðubúið að stökkva upp á veröndina og gleypa húsið. Martröð næturinnar rifjast upp fyrir mér. Mig dreymdi að veislutjaldið fyki í burtu. Núna man ég þetta allt – svoleiðis var það, ég stóð á grasflötinni með Josh og Marnie þegar það fór að hvessa, þýður blærinn í laufunum breyttist í ískyggilegt hvæs, síðan kvað við ærandi hávaði, greinar rifnuðu af trjánum og þeyttust út um allt, ljósaseríurnar slitnuðu og flugu út í tómið. 

„Tjaldið!“ hrópaði Josh um leið og vindurinn beindi bræði sinni að veislutjaldinu. Áður en ég gat stöðvað Marnie var hún hlaupin af stað og svo náði hún að grípa í tjalddúkinn.

„Slepptu takinu, Marnie!“ hrópaði ég en vindurinn blés orðunum í burtu og hún heyrði ekki til mín. Veislutjaldið bar hana hátt upp í himininn þar til við sáum hana ekki lengur.

Liv mun hlæja þegar ég segi henni frá þessu – það lítur út fyrir að hún sé ekki sú eina sem er stressuð út af þessari veislu. Ég geng eirðarlaus frá glugganum og teygi betur úr mér, fingurgómarnir strjúkast við loftið á gamla húsinu okkar þegar ég lyfti höndunum yfir höfuðið. Ég er ekki alveg viss um hvenær Josh tók fram úr mér en það er dálítið síðan hann fór að geta lagt lófana flata á loftið. 

Bakpokinn hans er þar sem hann skildi við hann, á endanum á borðinu og þar eru líka tveir plastpokar. Ég færi dótið niður á gólf og renni gagnrýnum augum yfir borðið. Það er einn af mínum fyrstu smíðisgripum, einföld smíð úr lakkaðri furu sem ég reyndi að ljá karakter með því að styrkja borðlappirnar með nokkurs konar brú, til minningar um gamlan draum minn um að verða byggingarverkfræðingur. Til að byrja með var Livia ekki ánægð með hve lítið pláss var undir borðinu. Núorðið finnst henni gott að sitja á bólstraða bekknum og halla sér upp að veggnum, með fæturna á einum bitanum undir borðinu.

Ketillinn slekkur á sér. Ég helli í pressukönnuna, læt kaffið standa og opna dyrnar út í garðinn. Svartþröstur hrekkur við í nálægum runna og flýgur upp, vængirnir blaka ótt og títt og þegar ég horfi á eftir honum upp í himininn verður mér hugsað til þess að Marnie er á heimleið.

Ég brosi við tilhugsunina um að sjá hana aftur, níu mánuðir eru langur tími. Svo geng ég eftir veröndinni og niður ójöfnu tröppurnar fimm, nýt þess að finna grófan steininn undir fótunum og síðan döggblautt grasið á flötinni. Í morgunloftinu liggur daufur ilmur af lífrænum úrgangi sem ég kem ekki alveg fyrir mig en hefur eitthvað að vera með rósirnar hennar Liviu. Það er risastórt rósabeð hægra megin í garðinum, fyrir innan grindverkið, þegar ég geng framhjá því finn ég dásamlega angan af Sweet Juliet-rósum. Eða kannski er það Lafði Emma Hamilton. Ég man aldrei hvor er hvað þótt Livia sé alltaf að útskýra það fyrir mér. 

Ég geng í kringum veislutjaldið og gái hvort það sé ekki almennilega fest niður, ef ske kynni að martröðin mín hefði forspárgildi. Þá sé ég að tjaldið hefur verið sett upp nánast alveg ofan í skúrinn minn, það er aðeins örlítil glufa fyrir mig að troða mér í gegnum. Ég veit af hverju þetta hefur verið gert; það verður að vera pláss fyrir borðin og stólana sem á að stilla upp fyrir framan tjaldið. Engu að síður má segja að ef hægt er að verða gramur út í tjald sé ég orðinn það núna. 

Ég sest á lága steinvegginn hinum megin við grasflötina, andspænis grindverkinu, og reyni að ímynda mér hvernig verði umhorfs í garðinum í kvöld þegar hundrað manns verða samankomin, ljósaseríur í epla- og kirsuberjatrjánum og blöðrur úti um allt. Ég vissi alltaf að Liviu langaði að halda veglega upp á fertugsafmælið sitt en áttaði mig ekki á því hve stórt í sniðum hún vildi að þetta yrði fyrr en fyrir nokkrum mánuðum, þegar hún byrjaði að tala um veisluþjónustu og veislutjald og kampavín. Þetta hljómaði svo yfirdrifið að ég hló að henni.

„Mér er alvara, Adam!“ sagði hún móðguð. „Ég vil að þetta verði alveg einstakt.“

„Ég veit, og það verður það. Þetta hljómar samt dálítið dýrt.“

„Gerðu það, ekki skemma þetta fyrir mér áður en ég er búin að finna út úr þessu,“ sagði hún biðjandi. „Peningarnir skipta hvort eð er ekki máli.“

„Liv, auðvitað skipta peningarnir máli,“ sagði ég gegn vilja mínum. „Josh er að fara burt í sumar og Marnie er í Hong Kong, við verðum að halda að okkur höndum í dálítinn tíma. Þú veist það.“

Hún leit á mig og ég kannaðist við svipinn. Sektarkennd.

„Hvað?“ spurði ég.

„Ég hef verið að leggja fyrir,“ viðurkenndi hún. „Fyrir veisluna. Ég hef lagt fyrir árum saman, ekki nein ósköp, bara lítið í hverjum mánuði. Fyrirgefðu, ég hefði átt að segja þér frá því.“

„Það er allt í lagi,“ sagði ég og velti fyrir mér hvort raunverulega ástæðan fyrir því að Liv hefði ekki sagt mér frá þessu væri sú að einu sinni eyddi ég öllu sparifénu hennar í mótorhjól. Ég skammast mín enn fyrir það, þótt nú séu mörg ár síðan, það var áður en Marnie fæddist.

Tilhugsunin um Marnie ýtir við mér. Ég fer aftur inn í húsið, stíg yfir Mimi, sem tekst alltaf að flækjast fyrir fótunum á mér, og næ í símann minn sem ég setti í hleðslu í eldhúsinu í gærkvöldi. Þar eru skilaboð frá henni, alveg eins og ég hafði vonast eftir.

„Pabbi, þú trúir þessu ekki – það er búið að seinka fluginu mínu svo að ég næ ekki tengifluginu í Kaíró. Sem þýðir að ég kem of seint til Amsterdam til að ná vélinni til London. Þetta er glatað, en hafðu ekki áhyggjur, ég kem mér einhvern veginn. Kannski setja þau mig í beint flug og ég verð komin á undan áætlun! Ég sendi skilaboð þegar ég lendi á Heathrow. Ástarkveðja xxx“

Hver skrambinn. Ég dáist að bjartsýninni í Marnie en ég efast um að hún fái beint flug til London. Líklega þarf hún að bíða í Kairó eftir næsta lausa flugi til Amsterdam. Ég velti enn einu sinni fyrir mér af hverju í veröldinni ég hafi samþykkt að hún tæki þessa krókaleið heim.

Þegar Liv byrjaði að skipuleggja veisluna sína gerði hún aldrei ráð fyrir að Marnie yrði ekki hér. Við vissum alltaf hvenær veislan yrði haldin svo að það fyrsta sem Marnie gerði þegar hún vissi að hún yrði við nám í Hong Kong þetta árið var að athuga hvenær prófin væru búin. En svo voru þau færð til.

„Núna eru prófin þann þriðja, fjórða og fimmta júní og svo aftur þann þrettánda og fjórtánda,“ sagði hún rjóð af pirringi þegar hún talaði við okkur á FaceTime í janúar. „Ég trúi ekki að ég sé að fara að missa af veislunni.“

„Hvað ef ég færi hana yfir á þann fimmtánda?“ spurði Liv.

„Ég kæmist samt ekki í tæka tíð, út af tímamismuninum.“

„En tuttugasta og annan?“ 

„Nei, vegna þess að þá kemst Josh ekki. Hann fer til New York þann dag, manstu? Hann valdi daginn sérstaklega til að hann kæmist í veisluna og hann er búinn að kaupa miðann og getur ekki breytt honum. Mér þykir þetta svo leiðinlegt, mamma, ég vildi að ég gæti gert eitthvað. Það er einfaldlega ekki hægt.“

Við eyddum mörgum klukkutímum í að reyna að finna lausn á þessu en á endanum urðum við að beygja okkur fyrir því að Marnie kæmist ekki í veisluna. Þetta var mikið áfall fyrir Liv. Hún vildi hætta við allt saman og kaupa í staðinn miða til Hong Kong til að halda upp á afmælið sitt þar. Marnie tók það ekki í mál.

„Ég vil ekki að þú hættir við að halda draumaveisluna þína, mamma. Josh gæti heldur ekki komið því að hann er í lokaprófum. Ég yrði að læra svo að ég gæti lítið sem ekkert verið með ykkur. Svo veistu að pabbi hefur of mikið að gera til að taka sér nema í mesta lagi eina viku í frí. Og það væri alls ekki þess virði að koma fyrir minna en tíu daga, ekki síst af því að flugið er rándýrt.“

Fyrir þremur vikum fékk ég svo skilaboð frá Marnie.

„Pabbi, hvað ætlarðu að gefa mömmu í afmælisgjöf?“

„Hring,“ skrifaði ég til baka. „Með demöntum. Ekki segja henni það samt, þetta á að koma á óvart.“

„Langar þig að gefa henni aðra óvænta gjöf?“

„Eins og hvað?“

„Get ég talað við þig á FaceTime? Er mamma nokkuð þarna?“

„Nei, hún er í bænum, að leita sér að kjól fyrir afmælið.“

„Æi, en gott, ég vona að hún finni fínan kjól. Talandi um afmælið …“

Svo hringdi hún í mig og sagði mér frá ódýru flugi sem hún hefði fundið, Hong Kong til Kaíró, Kaíró til Amsterdam, Amsterdam til London.

„Ég er búin að reikna þetta út, ef ég legg af stað strax eftir prófið á fimmtudeginum get ég verið komin til London á laugardagskvöldið og heim um klukkan níu. Hvað finnst þér, pabbi? Ég gæti komið mömmu á óvart.“

Hún sat á hvítum skrifborðsstól í herberginu sem hún deildi með Nadiu frá Rúmeníu og fyrir aftan hana sá ég sængurverið sem hún tók með að heiman liggja í kuðli á gólfinu. Hún var í gömlum stuttermabol af mér og rauðbrúnt hárið sett upp í hnút á hvirflinum, áreiðanlega fest með blýanti eins og vanalega. Ég skildi aldrei hvernig hún fór að því.

„Ég held að hún yrði frá sér numin,“ sagði ég og tók Mimi í fangið svo að þær gætu séð hvor aðra. „Hvenær yrðirðu að fara til baka?“

Marnie laut nær skjánum og sendi Mimi kossa. „Ekki fyrr en á miðvikudeginum þannig að ég fengi næstum fjóra daga með ykkur. Ég þarf ekki að fara gegnum Amsterdam á leiðinni til baka svo að ég hef nægan tíma til að komast til Hong Kong fyrir prófið á fimmtudeginum.“

„Þetta er heilmikið ferðalag fyrir fáa daga,“ sagði ég efins.

„Kaupsýslufólk er alltaf að gera þetta,“ mótmælti Marnie. Annað slagið leituðu augu hennar niður þangað sem ég giskaði á að síminn hennar lægi, hún var að kíkja á skilaboð á meðan hún talaði við mig. Það var komið fram á kvöld hjá henni og skyndilega fannst mér undarleg sú tilhugsun að hún ætti sér tilveru í Hong Kong sem við Liv vissum sáralítið um.

„Skoðaðir þú bein flug?“ spurði ég.

„Já, en þau eru mörg hundruð pundum dýrari. Þetta, í gegnum Kaíró og Amsterdam, er sex hundruð og fimmtíu. Ég get borgað helminginn með sparnaðinum mínum og ef þú lánar mér hinn helminginn skal ég endurgreiða það um leið og ég get.“

„Ég vil ekki að þú borgir neitt í miðanum þínum. Hann verður hluti af gjöfinni minni til mömmu þinnar.“

Marnie brosti breitt til mín og fitlaði við gyllt hálsmen sem ég hafði ekki séð áður. „Takk, pabbi, þú ert bestur! Á ég að bóka þetta áður en verðið rýkur upp?“

Ég átti í harðri innri baráttu. Mig langaði að segja henni að bóka beint flug til að þurfa ekki að vesenast í að skipta tvisvar um vél. En ég var nýbúinn að bóka flugið hans Josh til New York í gegnum Amsterdam, ekki aðeins vegna þess að það var ódýrara heldur líka af því að ég vildi ekki að hann fengi allt upp í hendurnar. Ég gat ekki réttlætt það að eyða mörg hundruð pundum meira í Marnie þegar ég hafði ekki viljað eyða hundrað og fimmtíu aukalega í Josh. Var þetta líka þess virði, að koma heim í afmælið aðeins til að þurfa að fara aftur fjórum dögum seinna? Ég leit á laglegt andlit dóttur minnar, upplýst af lampanum við hliðina á tölvunni hennar og allar mótbárur mínar gufuðu upp. Í fyrsta lagi var hún svo lík mömmu sinni og í öðru lagi vissi ég hvað Liv yrði himinlifandi ef Marnie birtist óvænt.

„Með einu skilyrði,“ sagði ég og fann græn augu Marniear hvíla á mér. „Þú segir engum – hvorki Josh né Cleo, engum vinum þínum og sérstaklega ekki Izzy frænku – að þú sért að koma heim. Ég vil að það komi öllum á óvart.“

„Ég segi engum, ég lofa. Takk, pabbi, var ég búin að segja að þú ert bestur?“

Það eru þó nokkrir óvæntir atburðir á dagskránni fyrir afmælið í dag en það besta af öllu er samt að Marnie kemur heim.

 

Livia

 

Ég vakna við brak í tröppunum, teygi út handlegginn og finn að það er enginn við hliðina á mér.

„Adam?“ kalla ég lágt, ef hann skyldi vera inni á baðherbergi. Ekkert svar. Ég velti mér yfir í hlýjuna hans megin í rúminu og ligg á hliðinni með höfuðið á koddanum hans. Ósjálfrátt strýk ég yfir magann og athuga hvort hann sé stinnur, ánægð með hvað það hefur skilað góðum árangri að fylgjast með mataræðinu síðastliðna viku. Hvern er ég að reyna að blekkja með þessu tali? Ég hef passað vandlega upp á mataræðið síðastliðna sex mánuði. Og farið í ræktina. Og notað rándýrt augnkrem. Allt fyrir veisluna í kvöld. 

Ég ligg kyrr í smástund og hlusta eftir regninu á gluggunum, líkt og síðasta laugardag og síðustu þrjá laugardaga þar á undan. Núna heyri ég þó ekkert nema söng fuglanna í eplatrjánum og ég slaka á. Hann er runninn upp. Dagurinn sem ég hef beðið svo lengi eftir er loksins runninn upp. Og þótt ótrúlegt megi virðast er ekki rigning.

Ég ýti fastar í magann á mér, þrýsti þunnu fitulaginu inn í vöðvana. Innra með mér bærast margar ólíkar tilfinningar. Ég reyni að einbeita mér að því að finna til spennu og hamingju en sektarkenndin yfirgnæfir allt annað – sektarkenndin vegna þess hve dýr þessi veisla er, sektarkennd yfir því að veislan sé aðeins fyrir mig eina, ef ég hefði beðið í tvö ár í viðbót hefðum við Adam getað haldið upp á tuttugu og fimm ára brúðkaupsafmælið okkar. Ég stakk upp á því við Adam – að minnsta kosti finnst mér að ég hafi gert það. Eiginlega er ég viss um að ég gerði það því að ég man hvað mér létti þegar hann tók það ekki í mál.

Ég velti mér eirðarlaus á bakið og stari upp í loftið. Er svo slæmt að langa til að halda veislu fyrir mig eina? Upp á síðkastið hef ég haft blendnar tilfinningar í garð alls þessa. Mig hefur alltaf langað í svona veislu, ég hef eytt löngum stundum í að skipuleggja hana og safna fyrir hana, en ég verð glöð þegar þessu lýkur. Þetta hefur tekið alltof mikinn tíma frá mér, ekki aðeins síðastliðna sex mánuði heldur síðustu tuttugu árin. Það sem mér finnst verst að þessi þörf mín fyrir að halda þessa veislu kemur frá foreldrum mínum. Ef ég hefði fengið að halda brúðkaupsveisluna sem þau lofuðu mér hefði ég ekki fengið það svona á heilann að fá minn eigin sérstaka dag. 

Mig langar ekki að hugsa um þau, alls ekki í dag, en ég ræð ekki við það. Við höfum ekki sést í meira en tuttugu ár. Þau voru alltaf frekar fjarlægir foreldrar; ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma átt í innihaldsríkum samræðum við föður minn og það næsta sem ég komst móður minni var þegar hún keypti brúðkaupstímarit og við skoðuðum kjóla og kökur og blómaskreytingar og hún talaði um stórkostlega brúðkaupið sem þau myndu halda fyrir mig. Þegar ég hins vegar varð ófrísk, skömmu eftir sautjánda afmælisdaginn minn, vildu þau ekkert lengur af mér vita. Stórkostlega brúðkaupið breyttist í flausturslega, fimmtán mínútna athöfn á skráningarskrifstofunni með einungis fjölskyldu Adams og bestu vinum okkar, Jess og Nelson, viðstöddum.

Á þeim tíma sagði ég við sjálfa mig að það skipti engu máli þótt við héldum ekki stóra brúðkaupsveislu. En það skipti máli og ég þoldi ekki sjálfa mig fyrir að finnast það. Nokkrum árum seinna bauð eitt foreldrið á leikskólanum hans Josh okkur í þrítugsafmælið sitt og það var algjörlega meiriháttar. Við Adam vorum aðeins rúmlega tvítug og áttum ekki mikla peninga þannig að sú veisla var eins og annar heimur. Ég var algjörlega bergnumin og lofaði sjálfri mér að einhvern daginn myndi ég halda rosalega afmælisveislu fyrir sjálfa mig.

Þegar ég var ólétt að Marnie og gat nánast ekkert sofið fyrir ógleði, hallaði ég mér fram á bekkinn í pínulitla eldhúsinu okkar og reiknaði út, aftan á gluggabréfsumslag, hvað ég þyrfti að spara mikið í hverjum mánuði til að geta haldið veislu eins og Chrissie. Ég var þegar búin að ákveða að halda veisluna þegar ég yrði fertug, vegna þess að fertugsafmælið bar upp á laugardag. Þá fannst mér það óendanlega langt undan. En hér er ég nú samt stödd.

Ég lít út að glugganum, sé vindsveip blása síðustu blómunum af trénu. Fertug. Hvernig get ég verið fertug. Á þrítugsafmælinu var ég önnum kafin með tvö börn og tók varla eftir þeim áfanga. Í þetta sinn finn ég meira fyrir því, kannski vegna þess að ég er á allt öðrum stað í lífinu en flestir vinir mínir. Þau eru enn með börn heima, en Josh og Marnie eru orðin tuttugu og tveggja og nítján ára gömul og farin að lifa sínu eigin lífi. Sem þýðir að mér finnst ég oft vera eldri en ég er. Guði sé lof fyrir Jess; þar sem Cleo er á sama aldri og Marnie gátum við stutt hvor aðra gegnum unglingsár þeirra. 

Ég heyri bakdyrnar opnast og fótatak Adams yfir veröndina. Ég þekki hann svo vel að ég get ímyndað mér óánægjusvipinn sem hann setur upp þegar hann sér hvað veislutjaldið er nálægt skúrnum hans. Hann hefur verið svo frábær í öllum undirbúningnum að mér líður enn verr út af leyndarmálinu sem ég hef haldið frá honum í sex langar vikur. Sektarkenndin kemur aftur, ég sný mér við og grúfi mig niður í koddann, reyni að kæfa hana. Það tekst ekki.

Ég þarf að dreifa huganum með einhverju og teygi mig því í símann. Þótt klukkan sé aðeins 8:17 eru afmæliskveðjurnar þegar farnar að berast. Marnie var fyrst, hún hefur sent skilaboð á Whatsapp nokkrum sekúndum eftir miðnætti; ég sé hana fyrir mér sitja á rúminu sínu í Hong Kong, fylgjast með klukkunni og bíða eftir að geta ýtt á Senda, skilaboðin þegar tilbúin.

„Til bestu mömmu í heiminum, hamingjuóskir á afmælisdaginn! Njóttu hvers augnabliks á deginum þínum. Get ekki beðið eftir að hitta þig eftir nokkrar vikur. Elska þig óendanlega mikið. XXX Marnie. PS Ég ætla að skreppa í burtu um helgina til að lesa í friði. Verð örugglega ekki með net þannig að þú skalt ekki hafa áhyggjur þótt ekkert heyrist frá mér. Ég hringi á sunnudagskvöldið.“

Meðfylgjandi tjákn eru af kampavínsflöskum, afmælistertum og hjörtum og ég finn til ákafrar væntumþykju. Þótt ég sakni Marniear er ég samt glöð yfir að hún verði ekki hér í kvöld. Mér líður hræðilega því að ég ætti að vera miður mín yfir að hún missi af afmælinu, og ég var það fyrst. Núna vil ég hins vegar helst ekki að hún komi heim í endaðan mánuðinn.

Marnie ætlaði að vera í burtu fram í ágústlok, fara í ferðalag um Asíu með vinum sínum að loknum prófum. Svo skipti hún um skoðun og eftir þrjár vikur verður hún komin aftur hingað til Windsor. Ég læt eins og ég sé himinlifandi yfir því að hún sé að koma aftur fyrr en búist var við en í raun finn ég eingöngu fyrir kvíða. Þegar hún kemur aftur mun allt breytast og indælt líf okkar verður aldrei samt.

Ég heyri Adam koma upp stigann, með hverju skrefinu sem hann tekur þyngist byrðin yfir því sem ég hef ekki sagt honum. Ég get samt ekki sagt honum neitt, ekki í dag. Hann lítur inn um gættina og brestur í afmælissöng. Það er svo ólíkt honum að ég skelli upp úr og það losnar aðeins um hnútinn í maganum.

„Uss, þú vekur Josh!“ hvísla ég.

„Hafðu ekki áhyggjur, hann er alveg rotaður.“ Hann kemur inn með tvo kaffibolla, Mimi töltir í kjölfarið. Hann lýtur niður til að kyssa mig, Mimi stekkur upp í rúmið og ýtir afbrýðisöm við mér. Hún dýrkar Adam og treður sér alltaf á milli okkar þegar við sitjum í sófanum og horfum á sjónvarpið.

„Til hamingju með afmælið, elskan,“ segir hann.

„Þakka þér fyrir.“ Ég strýk honum um vangann og eitt augnablik gleymi ég öllu öðru, finn aðeins fyrir hamingju. Ég elska hann svo mikið.

„Ekki hafa áhyggjur, ég raka mig,“ segir hann brosandi, snýr höfðinu og kyssir mig í lófann.

„Ég veit það.“ Adam þolir ekki að raka sig, hann þolir ekki að ganga í öðrum fötum en gallabuxum og stuttermabolum en hann er löngu búinn að segja mér að hann muni leggja sig fram í kvöld. „Kaffi í rúmið – en dásamlegt!“

Ég tek við bollanum og færi fæturna til svo að Adam geti sest. Dýnan gefur eftir undan honum og kaffið mitt skvettist næstum í rúmið. 

„Hvernig líður þér?“ spyr hann.

„Mér finnst ég dekruð,“ svara ég. „Hvernig er veislutjaldið?“

„Nálægt skúrnum mínum.“ Adam lyftir annarri dökku augabrúninni. „Enn á sínum stað,“ bætir hann svo við. „Þú munt hlæja að þessu – mig dreymdi að það fauk í burtu og Marnie fauk með því.“

„Eins gott að hún er þá ekki hérna,“ segi ég og fæ samviskubit um leið.

Adam setur kaffibollann sinn á gólfið og tekur umslag upp úr rassvasanum. „Handa þér,“ segir hann, tekur bollann minn og setur við hliðina á sínum.

„Takk.“

Hann klifrar yfir mig og leggst sín megin í rúminu, styður hönd undir kinn og horfir á mig opna umslagið. Nafnið mitt er skrifað með glæsilegum þrívíðum stöfum og litað í bláum tónum, dæmigert fyrir Adam. Ég tek kortið út, framan á því er talan 40 silfruð og inn í það hefur hann skrifað: „Ég vona að dagurinn í dag uppfylli alla drauma þína og meira til. Þú átt það svo skilið. Elska þig, Adam. PS. Við erum best saman.“

Ég hlæ að síðustu setningunni, við segjum þetta alltaf hvort við annað, en svo fæ ég tár í augun. Ef hann bara vissi. Ég hefði átt að segja honum allt fyrir sex vikum, þegar ég komst fyrst að þessu með Marnie, en það var svo margt sem mælti gegn því, sumt af því skynsamlegt og sumt alls ekki mjög gáfulegt. Þegar veislan mín verður yfirstaðin mun ég ekki hafa neina afsökun lengur fyrir því að þegja. Í huganum ég er búin að æfa mig þúsund sinnum – Adam, ég þarf að segja þér svolítið – en ég kemst aldrei lengra því að ég veit ekki hvert framhaldið á að vera, hvort það er léttbærara að fara hægt í gegnum þetta skref fyrir skref eða láta allt vaða. Hvort heldur ég geri verður hann alveg eyðilagður.

„Hei,“ segir Adam og lítur áhyggjufullur á mig. 

Ég depla augunum hratt og held aftur af tárunum. „Það er allt í lagi með mig. Þetta er ögn yfirþyrmandi, það er allt og sumt.“

Hann teygir fram höndina og strýkur hárlokk á bak við eyrað á mér. „Það er skiljanlegt. Þú hefur beðið svo lengi eftir þessum degi.“ Hann hikar. „Það er aldrei að vita nema foreldrar þínir komi,“ bætir hann svo varlega við.

Ég hristi höfuðið en gleðst yfir því að hann skuli halda að tilfinningaskjálftinn stafi af löngun til að hitta foreldra mína og sættast við þau. Það er alls ekki aðalástæðan þótt það sé hluti af henni. Þau fluttu til Norfolk sex mánuðum eftir að Josh fæddist vegna þess að ég hafði orðið þeim svo til skammar í augum safnaðarins og vinafólks þeirra að þau gátu ekki lengur borið höfuðið hátt í samfélaginu, sagði pabbi. Þegar ég spurði hvort ég mætti koma í heimsókn sagði hann að ég mætti koma ein. Ég fór ekki, það var nógu slæmt að þau vildu ekki sjá Adam en að þau skyldu hafna Josh líka var einum of mikið. 

Ég skrifaði þeim þegar Marnie fæddist til að segja þeim að þau hefðu eignast annað barnabarn, litla stúlku. Mér til undrunar svaraði faðir minn og sagði að þau langaði að sjá hana. Ég skrifaði til baka og spurði hvenær við fjögur mættum koma í heimsókn en þá var mér sagt að boðið næði aðeins til mín og Marniear – faðir minn sagðist vera sáttur við að sjá Marnie því að hún væri fædd innan hjónabands. Ég fór heldur ekki í þetta skiptið.

Allar götur síðan hef ég reynt að halda sambandi við þau, sent afmæliskort og jólakort þótt ég hafi aldrei fengið nein til baka og boðið þeim til allra viðburða á vegum fjölskyldunnar. Þau hafa aldrei þakkað fyrir að vera boðið, hvað þá mætt. Ég býst ekki við að kvöldið í kvöld verði nein undantekning á því. 

„Þau koma ekki,“ segi ég vesældarlega. „Hvaða máli skiptir það svosem? Ég er orðin fertug. Það er orðið tímabært að hætta að hugsa um þetta.“

Adam lítur út um gluggann. „Ertu búin að sjá veðrið?“ spyr hann og veit að ég vil gjarnan skipta um umræðuefni.

„Ég veit, þetta er ótrúlegt.“ Ég leggst aftur niður, aðrar áhyggjur sækja á mig. „Ég held að kannski hafi ég farið aðeins fram úr mér með kjólinn.“

„Hvernig þá?“

„Hann er síður, alveg niður á gólf. Og rjómalitur.“

„Hvað er að því?“

„Ég hef áhyggjur af því að hann minni um of á brúðarkjól.“

„Er hann með fullt af blúndum og skrauti?“

„Nei.“

„Ætlarðu að vera með slör við hann?“

Ég skelli upp úr. „Nei!“

„Þá,“ segir Adam, lyftir handleggnum og dregur mig til sín, „er þetta einfaldlega rjómalitur, síður kjóll.“

Ég lít á hann. „Hvernig ferðu að því að láta mér alltaf líða betur með sjálfa mig?“

Hann svarar léttilega: „Ég er að bæta þér upp öll árin sem ég gerði það ekki.“

Ég tek í hönd Adams og flétta fingur okkar saman. „Ekki segja þetta. Þú kvæntist mér, ekki satt? Þú hljópst ekki á brott.“

„Nei – en ég eyddi stórum hluta fyrstu tveggja áranna í Bristol með Nelson en ekki heima hjá þér og Josh.“

„Þangað til Marnie mætti á svæðið og gaf þér ástæðu til að vera heima.“

Adam sleppir hendinni á mér og þegar ég sé hvernig svipurinn á honum lokast langar mig að taka orð mín aftur. Hann hefur varið síðastliðnum tuttugu árum í að bæta okkur Josh upp þessa fyrstu mánuði en þetta hefur samt enn áhrif á hann.

„Ég fékk svo falleg skilaboð frá henni,“ segi ég, það kemur Adam alltaf í betra skap þegar minnst er á Marnie. „Hún segist kannski ekki geta hringt í dag, hún vill geta lesið fyrir prófin án þess að láta trufla sig svo að hún fór eitthvað þar sem er ekkert netsamband.“

„Hvernig fórum við að því að búa til svona skynsamt barn?“ segir Adam í gríni og er aftur kominn í gott skap.

„Hef ekki hugmynd.“

Ég brosi dauft til Adams, hann heldur að ég sé stressuð út af veislunni og kyssir mig. „Slakaðu á, þetta verður allt í fínasta lagi. Klukkan hvað ætlar Kirin að sækja þig?“ 

„Ekki fyrr en ellefu.“

„Þá getur þú hvílt þig aðeins lengur.“ Hann stendur á fætur. „Drekktu kaffið þitt á meðan ég fer í sturtu og þegar þú kemur niður skal ég útbúa morgunverð handa þér.“

bottom of page