top of page

Þögult óp

 

Höfundur: Angela Marsons

1. kafli

Svörtulönd

Dagurinn í dag

Teresa Wyatt glímdi við þá óskiljanlegu tilfinningu að þetta kvöld yrði hennar síðasta hér á jörð.

Hún slökkti á sjónvarpinu og þögnin ríkti í húsinu. En ekki venjulega þögnin sem lagðist yfir á kvöldin þegar heimili hennar fylltist smám saman ró og friði er leið að háttatíma.

Hún var ekki viss um hvað hún hefði búist við að sjá í seinni fréttunum. Tilkynningin hafði þegar birst í aðalfréttatímanum. Kannski var hún að vonast eftir kraftaverki, að henni yrði bjargað á elleftu stundu.

Síðan fyrsta umsóknin barst fyrir tveimur árum hafði henni liðið eins og fanga á dauðadeild. Annað slagið komu verðirnir og fóru með hana í rafmagnsstólinn en síðan var henni fyrir duttlunga örlaganna skilað aftur í öryggi fangaklefans. Í þetta sinn var niðurstaðan þó endanleg. Teresa vissi að það yrðu ekki fleiri mótbárur, það gæfist ekki lengri frestur.

Hún velti fyrir sér hvort hin hefðu séð fréttirnar. Leið þeim eins og henni? Myndu þau viðurkenna fyrir sjálfum sér að þau fundu fyrst og fremst fyrir ótta um eigið öryggi, en síður fyrir eftirsjá?

Ef Teresa hefði verið betri manneskja hefði kannski vottað fyrir samviskubiti undir áhyggjum hennar af sjálfri sér; en svo var ekki. Hún sagði sjálfri sér að ferill hennar hefði verið í rúst ef hún hefði ekki tekið þátt í þessu. Nafnið Teresa Wyatt hefði fyllt fólk af ógleði, í stað þeirrar virðingar sem það vakti nú.

Teresa efaðist ekki um að ásakanirnar hefðu verið teknar alvarlega. Þær komu frá sérlega útsmognum en trúverðugum aðila. En svo hafði verið þaggað niður í þeirri rödd að eilífu – og hún myndi aldrei iðrast þess.

Síðan á árunum á Crestwood kom þó annað slagið fyrir að maginn í henni fór í hnút þegar hún sá svipuðu göngulagi bregða fyrir, líkum háralit eða höfði sem hallaði á kunnuglegan hátt.

Teresa stóð á fætur og reyndi að hrista af sér áhyggjuhjúpinn. Hún skálmaði fram í eldhús og setti disk og vínglas í uppþvottavélina.

Það var engum hundi til að dreifa til að hleypa út, né ketti til að hleypa inn. Aðeins var eftir að ganga úr skugga um að allir lásar væru kyrfilega fyrir dyrum.

 

Aftur sótti að henni sú tilhugsun að allir heimsins lásar kæmu ekki að gagni; að ekkert gæti haldið aftur af fortíðinni. Hún ýtti hugsuninni frá sér. Það var ekkert að óttast. Þau höfðu gert með sér samning og hann hafði haldið í tíu ár. Enginn vissi sannleikann nema þau fimm.

 

Hún vissi að hún var alltof uppspennt til að að geta sofnað en hún hafði boðað til starfsmannafundar klukkan sjö næsta morgun og mátti ekki vera of sein.

Teresa fór inn á baðherbergið, lét renna í bað og bætti við góðum slurk af freyðisápu með lofnarblómailmi sem þegar barst um allt herbergið. Heitt og gott freyðibað eftir vínglasið fyrr um kvöldið ætti að tryggja henni svefn.

 

Hún braut sloppinn sinn og satínnáttfötin snyrtilega saman, lagði ofan á þvottakörfuna og steig upp í kerið. Lokaði augunum og lét vatnið umlykja sig. Teresa brosti lítillega þegar spennan rénaði. Hún var alltof viðkvæm.

 

Henni leið eins og lífi hennar væri skipt í tvo kafla. Fyrst voru það árin þrjátíu og sjö F.C., eins og hún kallaði lífið Fyrir Crestwood. Það höfðu verið dásamleg ár. Hún var einhleyp og metnaðargjörn og réði sér sjálf, hún þurfti ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna.

 

Árin síðan höfðu verið öðruvísi. Skuggi óttans vofði alltaf yfir henni, stjórnaði gerðum hennar og hafði áhrif á ákvarðanatöku.

Teresa minntist þess að hafa lesið einhvers staðar að samviska væri ekkert annað en óttinn við að vera staðin að verki. Hún var nógu hreinskilin til að viðurkenna að í hennar tilfelli var það hárrétt.

 

En leyndarmál þeirra var öruggt. Annað gat ekki verið.

 

Allt í einu heyrði hún gler brotna. Ekki í fjarlægð, heldur niðri við eldhúsdyrnar hennar.

 

Teresa lá grafkyrr og sperrti eyrun til að heyra meira. Hljóðið myndi ekki vekja athygli neins annars. Næsta hús var í yfir fimmtíu metra fjarlægð, hinum megin við sex metra hátt sýpruslimgerði.

 

Þögnin í húsinu vafðist utan um hana. Kyrrðin sem fylgdi í kjölfar háværs brothljóðsins var þrungin ógn.

Kannski var þetta aðeins hugsunarlaust skemmdarverk. Það gat verið að einhverjir nemendur frá St. Jósefsskólanum hefðu fundið út hvar hún bjó. Almáttugur, hún vonaði það.

 

Blóðið þaut í æðum Teresu og dunaði fyrir gagnaugunum. Hún kyngdi til að reyna að losna við helluna úr eyrunum.

Líkami hennar brást við vitneskjunni um að hún væri ekki lengur ein í húsinu. Hún settist upp og vatnið skvettist til í kerinu. Hönd hennar skriplaði á baðkersbrúninni og hún hálfdatt aftur ofan í vatnið.

 

Hljóð barst neðst úr stiganum og gerði vonir hennar um tilhæfulaus skemmdarverk að engu.

 

Teresa vissi að tími hennar var á þrotum. Í samsíða heimi hefðu vöðvarnir í líkama hennar brugðist við ógninni sem blasti við henni, en í raunheiminum lömuðust líkami hennar og hugur andspænis hinu óumflýjanlega. Hún vissi að flótti kom ekki til greina.

 

Þegar hún heyrði braka í stiganum lokaði hún augunum sem snöggvast og neyddi sig til að vera róleg. Það fylgdi því visst frelsi að takast loksins á við það sem hafði ásótt hana.

 

Um leið og kalt loftið barst inn um dyragættina opnaði hún augun. Veran sem kom inn var svört og formlaus eins og skuggi, klædd í vinnubuxur og svarta flíspeysu undir síðum frakka. Fyrir andlitinu var lambhúshetta úr ull. Af hverju ég? hugsaði Teresa í skelfingu. Hún var ekki veikasti hlekkurinn.

 

Hún hristi höfuðið. „Ég hef engum sagt neitt,“ sagði hún en orðin heyrðust varla. Skilningarvit hennar gáfust upp eitt af öðru þegar líkami hennar bjó sig undir dauðann.

Svarta veran kom nær. Teresa reyndi að átta sig á hver þetta var en varð einskis vísari. Þetta gat aðeins verið eitt hinna fjögurra.

 

Hún fann líkamann svíkja sig og heitt þvagið streyma milli fótanna í ilmandi vatnið.

 

„Ég sver … ég hef ekki …“

 

Orðin dóu út um leið og Teresa reyndi að setjast aftur upp. Freyðibaðið gerði baðkerið hálla en ella.

Hún andaði ótt og títt og íhugaði hvernig hún ætti að biðjast vægðar. Hún vildi ekki deyja. Það var ekki tímabært. Hún var ekki tilbúin, enn ýmislegt sem hana langaði að gera.

 

Skyndilega sá hún fyrir sér sín eigin lungu þenjast út af vatninu, líkt og blöðrur.

 

Hún rétti biðjandi fram höndina og fann loksins röddina aftur. „Gerðu það … gerðu það … nei … ég vil ekki deyja …“

 

Veran laut yfir baðkerið og studdi hanskaklæddum höndum á bringubein Teresu. Hún fann að sér var þrýst ofan í vatnið og barðist við að setjast upp. Hún varð að reyna að útskýra, en þrýstingurinn jókst. Hún reyndi aftur að reisa sig við en það var vonlaust. Aðdráttaraflið og grimmdarlegur styrkur svörtu verunnar gerðu henni ómögulegt að berjast á móti.

 

Hún opnaði munninn aftur þegar vatnið var að flæða yfir andlit hennar. Örlítið kjökur barst frá vörum hennar þegar hún reyndi í síðasta sinn. „Ég sver …“

 

Orðin drukknuðu í vatninu og Teresa sá loftbólur stíga frá nösum sínum upp á yfirborðið. Hárið bylgjaðist um andlit hennar. Svarta veran sást ógreinilega í gegnum vatnið.

 

Líkami Teresu hóf baráttu sína gegn súrefnisskortinum og hún reyndi að bæla niður angistina sem greip hana. Handleggir hennar fálmuðu út í loftið og önnur hanskaklædda höndin losaði sem snöggvast tak sitt. Teresa náði að lyfta höfðinu sem snöggvast upp úr vatninu og leit beint í köld og stingandi augun. Hún greip andann á lofti þegar hún áttaði sig á hver þetta var.

 

Þessi augnabliks undrun nægði árásaraðilanum. Tvær hendur ýttu henni aftur ofan í vatnið og héldu fast.

 

Hugur Teresu var fullur af vantrú, meira að segja þegar meðvitundarleysið seig á hana. Hún áttaði sig á því að samsærisfólk hennar myndi aldrei átta sig á hver það var sem þau þurftu að óttast.

heim

bottom of page