top of page

Örvænting 

 

Höfundur: B.A. Paris

1. kafli

FÖSTUDAGUR, 17. JÚLÍ

 

Þrumuveðrið er að skella á þegar við kveðjumst, öll á leið í sumarleyfið framundan. Það brestur í háværri þrumu í loftinu og Connie hrekkur í kút. John hlær, heitt loftið leikur um okkur.

„Þú verður að flýta þér!“ hrópar hann.

Ég veifa snöggt og hleyp í bílinn minn. Þegar ég kem að honum hringir síminn, hljóðið er hálfkæft ofan í töskunni. Ég heyri á hringitóninum að þetta er Matthew.

 

„Ég er á leiðinni,“ segi ég og fálma eftir handfanginu í myrkrinu. „Ég er að setjast upp í bílinn.“

 

„Núna strax?“ segir rödd hans. „Ég hélt að þú ætlaðir heim með Connie.“

 

„Ég ætlaði það en tilhugsunin um þig heima var of freistandi,“ segi ég stríðnislega en átta mig svo á alvarlegri rödd hans. „Er allt í lagi?“ spyr ég.

 

„Já, ég er bara að fá skelfilegt mígrenikast. Það byrjaði fyrir um klukkutíma og fer síversnandi. Þess vegna hringdi ég. Er þér sama þótt ég verði farinn í rúmið?“

 

Ég finn hvernig þyngir í lofti og hugsa um storminn sem er yfirvofandi. Það er ekki byrjað að rigna en þess er ekki langt að bíða. „Auðvitað. Ertu búinn að taka eitthvað við þessu?“

 

„Já, en það virðist ekki vera að virka. Mér datt í hug að leggja mig í gestaherberginu, þá truflar þú mig ekki þegar þú kemur, ef ég verð sofnaður.“

 

„Góð hugmynd.“

 

„Mér finnst samt verra að fara í rúmið áður en þú ert komin heim heilu og höldnu.“

 

Nú brosi ég. „Það verður allt í lagi með mig, ég verð komin eftir fjörutíu mínútur. Nema ég komi gegnum skóginn, taki Blackwater-veginn.“

 

„Ekki voga þér!“ Ég finn næstum sársaukastinginn nísta höfuð Matthews þegar hann hækkar róminn. „Ái, þetta var vont,“ sagði hann og ég kveinka mér í samúðarskyni. Hann lækkar röddina. „Cass, lofaðu mér að þú takir ekki þá leið. Í fyrsta lagi vil ég ekki að þú keyrir ein í gegnum skóginn að næturlagi og í öðru lagi er að skella á stormur.“

„Allt í lagi, ég skal ekki gera það,“ segi ég í flýti, sest snarlega inn í bílinn og læt töskuna í farþegasætið.

 

„Lofarðu?“

 

„Ég lofa.“ Ég set bílinn í gang og svo í gír, síminn er farinn að hitna milli axlarinnar á mér og eyrans.

 

„Keyrðu varlega,“ segir hann.

 

„Ég geri það. Elska þig.“

 

„Elska þig meira.“

Ég sting símanum ofan í töskuna og brosi yfir umhyggju hans. Þegar ég ek af stað út af bílastæðinu skella fyrstu regndroparnir á rúðuna hjá mér. Hér kemur það, hugsa ég.

 

Um það leyti sem ég kem út á hraðbrautina er farið að hellirigna. Ég er föst á bak við stóran vörubíl og rúðuþurrkurnar mínar hafa ekki roð í úðann sem dekkin á honum spreyja yfir mig.

 

Þegar ég skipti um akrein til að taka fram úr honum leiftrar elding á himninum og ég geri eins og í æsku, tel hægt í huganum. Ég kemst upp í fjóra áður en þruman drynur. Kannski hefði ég átt að fara heim til Conniear með þeim hinum eftir allt saman. Ég hefði getað beðið veðrið af mér þar, og John hefði skemmt okkur með bröndurum og sögum. Sektarkenndin grípur mig þegar ég hugsa um augnaráð hans þegar ég sagðist ekki ætla með þeim. Það var klaufalegt hjá mér að nefna Matthew. Ég hefði átt að segja að ég væri þreytt eins og Mary, skólastýran okkar, hafði gert.

Nú er regnið orðið að úrhelli og bílarnir fyrir framan mig hægja á sér í samræmi við það. Þeir þrengja að litla Mini-bílnum mínum og ég neyðist til að beygja aftur inn á hægari akreinina.

 

Ég halla mér fram í sætinu, rýni út um framrúðuna og óska þess að rúðuþurrkurnar mínar gengju aðeins hraðar. Vörubíll tekur fram úr á mikilli ferð, síðan annar, og þegar hann beygir fyrirvaralaust í veg fyrir mig þarf ég að nauðhemla og mér finnst allt í einu ekki nógu öruggt að aka þennan veg. Fleiri eldingar lýsa upp himininn og framundan sé ég skiltið fyrir Nook‘s Corner, litla þorpið þar sem ég bý. Svartir stafir á hvítum bakgrunni blasa við í bílljósunum og lýsa eins og viti í myrkrinu, á síðustu stundu, þegar það er nánast orðið of seint, beygi ég snögglega til vinstri og tek afleggjarann sem Matthew vildi ekki að ég færi. Einhver flautar reiðilega á bak við mig og flautuhljóðið eltir mig inn í kolsvart myrkrið í skóginum, það er eins og illur fyrirboði.

 

Jafnvel með háu ljósin á sé ég varla fram á veginn og sé samstundis eftir því að hafa beygt út af vel lýsta veginum fyrir aftan mig. Þótt þessi leið sé falleg á daginn – hún liggur í gegnum skóg vaxinn hunangsjurtum – gera allar beygjurnar og mishæðirnar hana hættulega á svona kvöldi. Ég fæ kvíðahnút í magann við tilhugsunina um ferðalagið framundan. Heimili mitt er þó aðeins í korters fjarlægð. Ef ég held ró minni og fer varlega verð ég komin heim eftir smástund. Ég eyk samt hraðann örlítið.

 

Stormhviða rífur í trén og skellur á litla bílnum mínum, ég reyni að halda honum stöðugum á veginum en þá lendi ég skyndilega í dæld. Í nokkur skelfileg sekúndubrot lyftast dekkin af jörðinni og maginn í mér þrýstist upp í háls, ég fæ hryllilega rússíbanatilfinningu. Þegar bíllinn skellur aftur á veginum gusast vatn yfir hann allan og á framrúðuna þannig að eitt augnablik sé ég ekki neitt.

„Nei!“ æpi ég þegar bíllinn skrensar og stoppar í pollinum. Óttinn við að stranda í skóginum keyrir adrenalín um æðarnar á mér og ég herði mig. Ég set bílinn í gír með háværu braki og stíg á bensíngjöfina. Vélin urrar mótmælandi en bíllinn fer áfram, gegnum vatnið og upp úr dældinni. Hjartað í mér sem hefur slegið í takt við rúðuþurrkurnar sem æða fram og aftur um framrúðuna, berst svo hratt að ég þarf nokkrar sekúndur til að ná andanum. Ég þori þó ekki að stöðva bílinn af ótta við að hann fari ekki í gang aftur og ek því áfram en fer núna varlegar.

Nokkrum mínútum síðar heyrist hávær þruma og mér bregður svo að hendurnar á mér fljúga af stýrinu. Bíllinn beygir ógnvænlega mikið til hægri og þegar ég kippi honum með skjálfandi höndum til baka finn ég fyrir ótta um að ég komist heim í heilu lagi. Ég reyni að róa mig en mér finnst ég eiga í vök að verjast, ekki aðeins frá náttúruöflunum heldur einnig trjánum sem dansa skuggalegan dans í kringum mig, tilbúin að rífa litla bílinn minn af veginum og henda honum út í óveðrið á hverri stundu. Rigningin bylur á þakinu, vindurinn hvín í rúðunum og rúðuþurrkurnar hamast, mér finnst mjög erfitt að einbeita mér.

 

Framundan er beygjukafli svo að ég halla mér fram í sætinu og gríp þéttar um stýrið. Vegurinn er auður og á leið minni gegnum beygjurnar bið ég þess í hljóði að sjá afturljós fyrir framan mig svo að ég geti elt þau afganginn af leiðinni gegnum skóginn. Mig langar að hringja í Matthew, til að heyra í honum röddina, finna að ég er ekki alein eftir í heiminum, því að þannig líður mér. En ég vil ekki vekja hann, ekki í miðju mígrenikasti. Auk þess yrði hann brjálaður ef hann vissi hvar ég er.

Rétt þegar ég er farin að halda að ferðalag mitt taki aldrei enda keyri ég út úr beygju og sé afturljós á bíl um hundrað metrum framar. Ég andvarpa af létti og herði aðeins ferðina, svo ákveðin í að ná bílnum að ég er nánast komin alveg að honum þegar ég átta mig á að hann er kyrrstæður, honum er illa lagt í örlitlu útskoti. Mér bregður í brún, ég snarbeygi framhjá honum, rétt slepp framhjá hægri stuðaranum og þegar ég fer framhjá lít ég reiðilega á bílstjórann, tilbúin að æpa á hann fyrir að hafa ekki sett viðvörunarljósin á. Ég sé framan í konu en andlitsdrættir hennar eru ógreinilegir í rigningunni.

Mér dettur í hug að bíllinn hennar sé bilaður, ég sveigi út í kant dálítið fyrir framan hana og nem staðar en hef bílinn í gangi. Ég vorkenni henni að þurfa að fara út úr bílnum sínum í þessu hryllilega veðri, ég fylgist með bílnum í baksýnisspeglinum – afar glöð yfir að einhver önnur skyldi vera nógu vitlaus til að stytta sér leið hér í gegn í kvöld – og ímynda mér að hún sé að leita að regnhlífinni sinni. Sekúndurnar líða og ég átta mig á að konan ætlar alls ekki að fara út úr bílnum, ég verð hálfpirruð; hún ætlast þó ekki til að ég hlaupi til hennar í þessari úrhellisrigningu? Kannski er einhver ástæða fyrir að hún kemst ekki út – en ætti hún þá ekki að blikka ljósunum eða flauta til að kalla á hjálp? Ekkert gerist og ég byrja að losa af mér öryggisbeltið, augun enn límd við baksýnisspegilinn. Ég sé hana ekki greinilega en það er eitthvað skrítið við að hún skuli bara sitja þarna með bílljósin kveikt. Allar sögurnar sem

 

Rachel var vön að segja mér þegar við vorum litlar koma upp í hugann; um fólk sem stoppar hjá einhverjum með bilaðan bíl og þá liggur einhver í leyni til að stela bílnum þeirra; um bílstjóra sem fara út úr bílnum til að hlynna að særðu dýri sem liggur á veginum og þá er ráðist harkalega á þá, þetta var allt sett á svið. Ég festi öryggisbeltið aftur á mig í snatri. Ég sá engan annan í bílnum þegar ég ók framhjá en það þýðir ekki að það sé ekki einhver þarna, í felum í aftursætinu, tilbúinn að stökkva fram.

Enn ein elding leiftrar á himninum og hverfur inn í skóginn. Vindinn herðir enn, trjágreinar lemjast utan í rúðuna farþegamegin, rétt eins og einhver sé að reyna að komast inn. Ég fæ hroll. Mér finnst ég svo varnarlaus að ég losa handbremsuna og ek örlítið áfram til að láta líta út fyrir að ég sé að fara, í þeirri von að það fái konuna til að gera eitthvað – hvað sem er – til að sýna mér að hún vilji ekki að ég fari. Ekkert gerist. Ég nem treglega staðar aftur, það virðist ekki rétt að aka burt og skilja hana eftir. Ég vil þó ekki stofna sjálfri mér í hættu. Þegar ég hugsa mig betur um finnst mér ekki að hún hafi virst áhyggjufull eða hrædd þegar ég ók framhjá henni, hún veifaði hvorki örvæntingarfull né gaf neinar bendingar um að hún þyrfti hjálp þannig að kannski er einhver – eiginmaður hennar eða viðgerðarþjónusta – nú þegar á leiðinni. Ef það myndi bila hjá mér yrðu fyrstu viðbrögð mín að hringja í Matthew, ekki kalla á einhverja ókunnuga manneskju í næsta bíl.

Ég sit þarna óákveðin meðan regnið herðir sig og trommar látlaust á þakið – Farðu, farðu, farðu! Það hjálpar mér að taka ákvörðun. Ég sleppi bremsunni og ek af stað eins hægt og ég get, gef henni enn eitt tækifæri til að kalla á mig. Hún gerir það ekki.

Nokkrum mínútum síðar er ég komin út úr skóginum og stefni heim í fallega húsið okkar með klifurrósunum yfir útidyrunum og stórum garði fyrir aftan. Síminn minn pípir til að segja mér að ég sé aftur komin í símasamband og hafi fengið skilaboð. Eftir tvo kílómetra í viðbót beygi ég inn í heimkeyrsluna okkar og legg eins nálægt húsinu og ég get, ánægð með að vera komin heim heilu og höldnu. Konan í bílnum er mér enn ofarlega í huga, ég velti fyrir mér að hringja á lögreglustöðina eða í viðgerðarþjónustu til að láta vita. Nú man ég eftir skilaboðunum, tek símann upp úr töskunni og lít á skjáinn. Þau eru frá Rachel:

Hæ, vona að þú hafir skemmt þér í kvöld! Farin í rúmið, fór beint í vinnuna af flugvellinum, er örmagna. Vildi aðeins vera viss um að þú hefðir fengið gjöfina fyrir Susie? Hringi á morgun xx

Ég hrukka ennið þegar ég hef lesið til enda – af hverju er Rachel að athuga hvort ég hafi keypt gjöf handa Susie? Ég er ekki búin að því, hef verið alltof upptekin í vinnunni þessa síðustu daga fyrir sumarleyfið. Veislan er hvorteðer ekki fyrr en annað kvöld og ég var búin að hugsa mér að fara að versla í fyrramálið og finna eitthvað handa henni. Ég les skilaboðin aftur og í þetta sinn hnýt ég um orðið „gjöfina“ í stað „gjöf“, vegna þess að það hljómar eins og Rachel búist við að ég hafi keypt eitthvað sem á að vera frá okkur báðum.

 

Ég hugsa til baka til síðasta skiptisins sem við hittumst. Það var fyrir tveimur vikum, daginn áður en hún fór til New York. Hún er ráðgjafi í bresku útibúi hjá Finchlakers, risastóru bandarísku ráðgjafarfyrirtæki, og fer oft í vinnuferðir til Bandaríkjanna. Þetta kvöld fórum við í bíó og skruppum svo á bar. Kannski hafði hún beðið mig um að kaupa eitthvað handa Susie þá. Ég reyni að rifja það upp, reyni að giska á hvað við hefðum getað ákveðið að kaupa. Það gat verið hvað sem var – ilmvatn, skartgripur, bók – ekkert af þessu hringir neinum bjöllum.

 

Gleymdi ég þessu? Minningum um mömmu, afar óþægilegum, skýtur upp í huganum og ég ýti þeim óðara frá mér. Þetta er ekki það sama, segi ég ákveðin við sjálfa mig, ég er ekki eins og hún. Ég man þetta á morgun.

 

Ég treð símanum ofan í töskuna mína. Matthew hefur rétt fyrir sér, ég þarf á hvíld að halda. Tvær vikur í algjörri afslöppun á sólarströnd myndu gera kraftaverk. Hann þarf sjálfur að taka sér hvíld. Við fórum ekki í brúðkaupsferð því að við vorum svo upptekin við að gera upp gamla húsið okkar. Síðasta skiptið sem ég fór í alvörufrí, svona þar sem maður þarf ekki að gera neitt allan daginn annað en liggja á strönd og drekka í sig sólina, var áður en pabbi dó, fyrir átján árum síðan. Eftir það höfðu ekki verið til peningar til að gera mikið, sérstaklega ekki þegar ég þurfti að hætta að kenna til að sjá um mömmu. Þess vegna varð ég svo miður mín þegar ég uppgötvaði stuttu eftir að hún dó að hún var langt frá því að vera allslaus ekkja, hún var mjög vel stæð. Ég gat ekki skilið af hverju hún hafði lifað jafn fábrotnu lífi og hún gerði þegar hún hefði getað látið fara mjög vel um sig. Ég var í svo miklu áfalli að ég heyrði varla hvað lögfræðingurinn var að segja og þegar ég skildi loks um hve mikla peninga var að ræða starði ég vantrúuð á hann. Ég hafði haldið að pabbi hefði skilið okkur eftir slyppar og snauðar.

 

Þruma bylur við, lengra í burtu í þetta sinn, og rífur mig snögglega inn í nútímann. Ég gægist út um rúðuna og velti fyrir mér hvort ég muni komast út úr bílnum og inn á veröndina án þess að blotna. Ég gríp töskuna mína, opna og snara mér út með húslykilinn tilbúinn í hendinni.

 

Þegar ég kem inn fer ég úr skónum og læðist upp. Dyrnar að gestaherberginu eru lokaðar, það er freistandi að líta örlítið inn og sjá hvort Matthew er sofandi. Ég vil þó ekki hætta á að vekja hann svo að í staðinn geri ég mig í snatri klára í háttinn og er sofnuð nánast áður en höfuðið á mér snertir koddann.
 

heim
bottom of page