top of page

Hús tveggja fjölskyldna

HusTveggja_kapa_fram.jpg

Eftir Lyndu Cohen Loigman 

 

Tvö börn fæðast með nokkurra mínútna millibili í steinhlöðnu tvíbýlishúsi meðan úti geisar óveður. Mæðurnar eru svilkonur: Hin skyldurækna og hljóðláta Rose sem þráir að geðjast erfiðum eiginmanni sínum; og Helen sem er hlý og örlát móðir fjögurra fjörugra stráka sem virðast þarfnast hennar minna með hverjum deginum. Þær ala upp börnin hlið við hlið, styðja hvor aðra og tengjast órjúfanlegum böndum þessa örlagaríku vetrarnótt.

Þegar veðrinu slotar virðist lífið halda áfram sinn vanagang en er árin líða koma fram brestir og náið samband kvennanna gliðnar. Enginn veit hvers vegna og enginn getur stöðvað það. Ein röng ákvörðun, ein örlagarík stund. Hamingja fjölskyldnanna vegur salt og það skiptast á skin og skúrir.

 

Heillandi og sorgleg í senn. Hús tveggja fjölskyldna er grípandi og hjartnæm fjölskyldusaga sem geymir nístandi leyndarmál.

„Höfundurinn tekur sögu um flókin fjölskyldusambönd og skapar skáldsögu sem þú munt ekki geta lagt frá þér“ – Diane Chamberlain, metsöluhöfundur

 

„Það er ótrúlegt að þetta sé fyrsta bók höfundar. Snjöll, marglaga, flókin, áhrifarík og algerlega trúverðug sagar. Bók sem heltekur lesandann frá upphafi til enda.“ AP fréttaveitan

 

„Ein besta skáldsaga sem ég hef lesið í langan tíma“ – Washington Jewesh Weekly

 

„Einstaklega vel skrifuð bók um ástir, sambönd, tilgang lífsins og löngu grafin leyndarmál.“ Caroline Leavitt metsöluhöfundur 

Lestu hér formála og fyrsta kaflann. 

Formáli 

 

Hún gekk niður stigana í gamla tvíbýlishúsinu í myrkrinu og gætti sín vel að renna ekki og detta. Tröppurnar voru skakkar og hálar og nánast á bólakafi í snjó. Það hafði snjóað linnulaust í marga klukkutíma og alltof margt í gangi innandyra til að einhver hefði munað eftir að moka tröppurnar fyrir ljósmóðurina áður en hún fór. Ef feður barnanna tveggja hefðu verið viðstaddir hefðu þeir kannski hugsað út í það. Bylurinn hafði hins vegar komið í veg fyrir að þeir kæmust heim svo að hvorugur þeirra var þarna.

Hún andaði að sér köldu næturloftinu, full léttis að vera loksins komin út, sloppin út úr þrúgandi hitanum inni í fæðingarherberginu. Hún var þakklát fyrir vindgustinn sem skellti hurðinni aftur að baki henni, hressti hana við og markaði endalok þessa erfiða kvölds. Henni fannst gaman að vinnu sinni og naut nándarinnar sem fylgdi henni. Þetta hafði þó ekki verið nein gleðiför.

 

Fyrir daginn í dag hafði hún talið sig vera búna að sjá öll möguleg tilbrigði við barnsfæðingar; stúlkurnar sem grétu og kölluðu á mæður sínar þegar þær voru sjálfar að fæða börn, eldri konur sem höfðu haldið að bölvun hvíldi á þeim að springa úr hamingju þegar þeim fæddist loksins heilbrigt barn. Hún hélt að hún hefði heyrt öll þau hljóð sem manneskja getur gefið frá sér, séð öll svipbrigði sem mannlegt andlit bjó yfir í sársauka, gleði og sorg. Það hafði hún haldið fyrir kvöldið í kvöld.

 

Þetta hafði verið öðruvísi. Hún hafði aldrei áður séð slíka löngun, sársauka og létti jafn þétt ofið saman. Tvær mæður og tvö börn fædd með nokkurra mínútna millibili. Í kvöld hafði hún séð hverju styrkur kvenna getur áorkað, hvernig hugurinn getur tekið völdin af líkamanum af örvæntingu einni saman.

Hún sá en lét sem hún sæi ekki. Hún var við stjórn en skipti sér ekki af. Hún leyfði þeim að halda að hún væri þreytt og ringluð, þótt hún vissi alltaf hvað var um að vera. Hún var ekki of þreytt til að sjá ekki vonir þeirra. Viðkvæmir töfrar þessa kvölds fóru ekki framhjá henni.

 

Hún andaði aftur að sér fersku og köldu loftinu til að skýra hugsanir sínar. Þetta hafði verið góð vitjun, tvö heilbrigð börn fædd hraustum og hæfum mæðrum. Hún gat ekki beðið um meira. Það sem gerðist í framhaldinu kom henni ekki við. Hún ýtti því algjörlega frá sér, kvaddi húsið þarna á tröppunum og fór heim að sofa. Hún vissi að á morgun myndu fæðast fleiri börn og erillinn myndi hjálpa henni að gleyma þessu kvöldi. Hún lofaði sjálfri sér að hugsa ekki um það meir.

1. kafli 

Mort 

(Mai 1947)

Hávært umstangið í kvennafansinum á heimilinu var ekki til að kæta Mort. Í íbúð bróður hans á næstu hæð fyrir ofan fór mikilvægur undirbúningur fram. Þar var ekki bara verið að greiða á sér hárið og binda borða um mittið, þar talaði faðir alvarlega við son og miðlaði af visku sinni. Mort ýtti frá sér morgunverðardiskinum og gretti sig.

Hálftíma áður en þau áttu að leggja af stað heyrðist einhver koma niður stigann og svo var barið í harkalega á dyrnar. „Verðum að fara! Sjáumst þar!“ Abe hljómaði mjög spenntur. Mort hafði gert ráð fyrir að þau gengju öll til sýnagógunnar saman. „Af hverju þurfa þau að mæta svona snemma?“ sagði hann nöldrandi við konuna sína. Rose vissi betur en að verja mág sinn og hún yppti öxlum. „Ég veit það ekki,“ svaraði hún.

Mort hafði kviðið fyrir þessum degi og fyrir manndómsvígslu bróðursonar síns í marga mánuði. Síðastliðnar vikur hafði gremja hans aukist stöðugt með stigvaxandi hávaðanum og látunum í fjölskyldu bróður hans á efri hæðinni. Við hvert högg og stapp sem hann heyrði ímyndaði hann sér hvað væri að gerast. Var Helen, eiginkona Abes, að prófa nýja kökuuppskrift? Var Harry bróðursonur hans að máta nýju jakkafötin sín? Að hverju voru bræður hans að hlæja? Mort píndi sjálfan sig svona í margar vikur. Hann var grannholda og hvassleitur maður og mánuðina fyrir manndómsvígslu Harrys hafði hann lést um að minnsta kosti fimm kíló. Eiginkona hans hafði áhyggjur af hve beinaber hann var orðinn en öll hin voru of önnum kafin til að taka eftir því.

 

Rose hafði farið fyrr á fætur en venjulega til að ganga úr skugga um að stúlkurnar yrðu tilbúnar á réttum tíma. Eftir morgunmat lagaði hún hárborðana á dætrum þeirra þremur og stillti þeim upp, öllum eins klæddum í gulum kjólum, fyrir framan Mort. „Þær eru eins og röð af sóleyjum,“ sagði Rose biðjandi. „Finnst þér ekki?“

 

Mort leit upp en hann var afar áhugalaus áhorfandi. Judith var næstum orðin tólf ára og virtist of gömul til að vera eins klædd og hinar. Hún iðaði af eirðarleysi og langaði að komast aftur að bókinni sem hún hafði neyðst til að leggja frá sér á eldhúsborðið. Í hverri viku heimtaði Mort að Judith sýndi honum hvaða bókasafnsbækur hún hafði valið sér til að hann gæti lagt blessun sína yfir þær. Í hverri viku spurði Judith Mort hvort hann vildi lesa eina af bókunum líka svo að þau gætu rætt hana saman. Í hverri viku neitaði hann því.

 

Mimi, þeirri laglegustu af systrunum þremur leið vel með að vera stillt svona upp til sýnis. Hún var aðeins átta ára en bar sig með þokka sem var Mort framandi. Honum fannst hún vera líkust Rose. Mimi var alltaf að búa til kort fyrir vini og fjölskyldumeðlimi með blýöntum og vaxlitum sem hún dreifði út um allt hús. Á síðasta ári fann hún afmæliskort föður síns í ruslafötunni í eldhúsinu daginn eftir afmælið hans. Hún hljóp grátandi með það til hans, veifaði því og spurði hann af hverju hann hefði hent því. „Afmælið mitt er búið,“ svaraði hann. „Ég þarf það ekki lengur.“

 

Dinah, barnið í fjölskyldunni, átti erfiðast með að hafa hljótt meðan Mort virti stúlkurnar fyrir sér. Hún var bara fimm ára og þótt henni væri uppálagt að spyrja föður sinn ekki of margra spurninga virtist hún ekki ráða við sig. „Hver er uppáhaldsliturinn þinn?“ missti hún út úr sér með galopin augu af eftirvæntingu. Mimi lagði við hlustir í þeirri von að svarið myndi hjálpa henni við hönnun afmæliskortsins næsta ár. Svar föður þeirra var þó ekki hjálplegt. „Ég á engan,“ sagði Mort.

 

Eftir að hann hafði kinkað kolli og lagt blessun sína yfir útlitið á stúlkunum var fjölskyldan tilbúin. Mort var vanur að ganga fremstur þegar fjölskyldan fór saman út og láta kvenfólkið um að fylgja löngum skrefum hans eftir. Stúlkurnar vissu betur en að reyna að ganga samsíða honum. Jafnvel Dinah var löngu hætt að reyna að taka í hönd hans. Í staðinn gekk fjölskyldan í einfaldri röð, líkt og óhamingjusöm andafjölskylda í ævintýri, og Rose rak lestina.

 

Í dag var Mort hins vegar svo óhress að hann dróst aftur úr og var aftastur. Þrátt fyrir að hlýtt væri í veðri setti að honum kuldahroll í pokalegum jakkafötunum. Með hverju skrefinu varð hann grárri í framan. Rose gekk hægt í fararbroddi og leið óþægilega.

 

Í sýnagógunni voru kynin aðskilin, jafnvel börnin. Við komuna þangað fóru Rose og stúlkurnar upp í kvennarýmið en Mort slóst í hóp Abe og sona hans á jarðhæðinni. Þótt Mort létti við að losna við kvennahópinn sem umkringdi hann öllum stundum, fann hann sterkt til einsemdar sinnar. Hann hafði ótal sinnum komið inn í samkunduhúsið en í dag fannst honum hann ómerkilegur og utanveltu.

Athöfnin fór vandræðalaust fram. Lesturinn hjá drengnum var engan veginn til fyrirmyndar en ekki heldur versta frammistaða sem Mort hafði orðið vitni að. Hann fann til leyndrar gleði í hvert sinn sem frænda hans fipaðist en enginn annar virtist taka eftir því. Þegar Mort leit í kringum sig sá hann aðeins brosandi andlit og fólk að kinka kolli. Þau voru öll með Harry í liði.

 

Gangan heim var hræðileg. Mort gekk á eftir fjölskyldu Abes, taldi götusteinana, reyndi að rifja upp mikilvæg atriði tengd vinnunni. Honum fannst hann alls ekki vera að nýta þennan dag nógu vel með því að sóa honum í veisluhöld. Í huganum fór hann yfir pantanir og bar saman reikninga, hugsaði um allt sem hann þurfti að gera á mánudaginn og lofaði sjálfum sér að vinna á sunnudeginum til að ná forskoti á vikuna. Í eitt skipti kallaði hann til Abes áminningu um sendingu sem þyrfti að fara frá þeim eftir nokkra daga. Abe bandaði frá sér með hendinni, nennti ekki að hlusta á þetta, vildi ekki tala um vinnuna þennan dag.

 

Þegar þau komu aftur heim þurfti Mort að heilsa upp á ættingja sem hann hafði ekki séð mánuðum saman. Hann tók á móti hrósyrðum um dætur sínar, lofsyrðum um kjólana þeirra og falleg bros þeirra, en það gladdi hann ekkert. Hann fékk sér vínglas og saup á því. Þegar Rose færði honum mat á diski minnti hún hann á að gefa Harry umslagið sem þau höfðu komið með. Eftir það sat hann einn og reyndi klaufalega og vandræðalega að láta diskinn halda jafnvægi í kjöltunni.

Svona gekk veislan fyrir sig, þögul og innantóm fyrir honum, þar til það var orðið tímabært að fara heim. Hann var á öðru vínglasi þegar hann fann sterkan handlegg leggjast um axlirnar. Þetta var Shep, frændi Helenar, skeggjaður risi, nokkrum árum eldri en Abe. „Morty!“ sagði hann og þrýsti á honum hendurnar með hrömmunum á sér. „Gott að sjá þig!“ Mort reyndi án árangurs að losa sig. „Gettu hvað, Morty? Nei, þú getur aldrei upp á því. Ég er kvæntur! Hefur aldrei liðið betur! Ég ætla að kynna þig fyrir konunni minni og syni mínum!“ Á næsta augnabliki var Mort dreginn til að heilsa upp á Alice, þybbnu konuna hans Sheps, og enn þybbnari son hans. „Gaman að kynnast ykkur,“ sagði Mort.

 

Alice var hljóðlát, fullkomin kona fyrir hinn líflega Shep. „Ég skal segja þér, Mort,“ drundi í honum, „að það besta í heimi fyrir karlmann er að verða faðir! Ah, hvað er ég að segja þér það? Þú veist allt um þetta!“ Hann faðmaði Mort enn einu sinni þétt að sér. „Gaman að sjá þig,“ muldraði Mort og dró sig í hlé eins fljótt og hann gat.

 

Í flýtinum við að reyna að sleppa vatt Mort sér óvart inn í eldhúsið. Þar voru Rose og nokkrar aðrar konur að ganga frá matarafgöngum, núna þegar búið var að bera fram eftirréttina. Hún leit á hann og benti gegnum dyragættina á Harry sem stóð þar með einum bræðra sinna.

 

Mort klappaði á jakkavasann og fann að umslagið var þar enn. Það var eins gott að ljúka þessu af svo að hann gæti farið heim. Hann heyrði háværa rödd Sheps aftur í gegnum kliðinn. Shep, sá hálfviti, hafði dottið í lukkupottinn! Hann hélt syni sínum hátt á loft og hermdi eftir flugvél. Hinum til mikillar undrunar sá Mort að bæði karlar og konur sneru sér við til að reyna að sjá barnið. Í nokkrar sekúndur virtust gestirnir eins og í leiðslu og allir horfðu á ungbarnið í loftinu. Allt annað var gleymt, meira að segja vígsludrengurinn sjálfur.

Þegar Mort leit aftur á Rose inni í eldhúsinu fann hann til löngunar í hana í fyrsta sinn í marga mánuði. Hann fylltist skyndilega nýrri von og fann til örlætis, gekk til frænda síns og klappaði honum á bakið. „Vel gert, Harry,“ sagði Mort og rétti honum umslagið.

 

Þegar verkinu var lokið kallaði Mort fjölskyldu sína saman til heimferðar. Við dyrnar leyfði hann Helen að kyssa sig á kinnina og hristi höndina á Abe augnabliki lengur en nauðsynlegt var. Abe og Helen litu sem snöggvast hvort á annað og Mort þóttist ekki taka eftir því þegar Helen lyfti brúnum. Hann gekk með Rose út um dyragættina, dæturnar fylgdu á eftir og þau fóru heim.

 

2. kafli 

Abe

 

Abe var lukkunnar pamfíll. Hann sagði það við sjálfan sig á hverjum morgni meðan hann klæddi sig og á hverju kvöldi áður en hann fór að sofa. Abe var ekki trúaður maður en á hverjum degi þakkaði hann Guði fyrir sína fögru eiginkonu, heilbrigðu synina fjóra, fyrir bróður sinn og fyrir fyrirtækið. Stundum undanskildi hann bróður sinn, en það var bara þegar Mort hagaði sér eins og asni.

 

Abe var þremur árum eldri en Mort en flestir héldu að hann væri tíu árum yngri. Þegar fólk hugsaði um Abe sá það hann fyrir sér annað hvort borðandi eða hlæjandi. Því var ekki að undra þótt Mort (sem sást sjaldan við sömu iðju) væri álitinn eldri bróðirinn.

 

Bræðurnir áttu pappakassaverksmiðju í Brooklyn. Faðir þeirra hafði átt fyrirtækið á undan þeim og Abe byrjaði að vinna þar meðan hann var enn í menntaskóla. Hann hafði alltaf stefnt á að vinna þar. Mort langaði hins vegar til að verða stærðfræðingur. Abe vissi ekki nákvæmlega hvað stærðfræðingar gerðu en hann vissi að allar tölur léku í höndunum á bróður hans. Þegar faðir þeirra dó skyndilega þegar Mort var á öðru ári í háskóla, grátbað móðir þeirra Mort að taka sér hlé frá náminu og hjálpa Abe. Hún hafði trú á Abe og vissi að hann var góður sölumaður en hún þekkti líka son sinn nógu vel til að vita að góðvild hans og örlæti gætu sett fyrirtækið á hausinn ef enginn hefði eftirlit með honum. Hún var hrædd um að hann leyfði of mörgum að opna reikning og gæfi of oft afslátt. Talnaskilningur Morts var nauðsynlegur. Hún vissi ennfremur að skynsemi hans og aðsjálni myndi vega upp á móti gjafmildi Abes.

 

Mánuðir urðu að ári og síðan hætti námshléið að vera hlé og varð lífið. Mort fór aldrei aftur í háskólann. Abe vissi að það höfðu verið bróður hans hræðileg vonbrigði. Við þetta breyttist hann úr alvörugefnum en ánægðum nemanda í bitran og graman ungan mann. Abe fannst hann bera ábyrgð á óhamingju bróður síns. Hann gerði það sem hann gat til að láta Mort líða betur með að vinna fyrir fyrirtækið og breytti nafni þess í Boxbræður í þeirri von að Mort gleddist yfir bræðraböndunum í viðskiptunum. Hann bauð Mort í hádegisverð í hverri viku og reyndi að koma honum saman við hinar og þessar stúlkur. Þegar þarna var komið sögu var Abe farinn að vera með Helen og hún átti margar vinkonur. Ekkert sem Abe gerði kveikti þó bros á andliti bróður hans. Mort var áfram þungur og óviðkunnanlegur og annað samstarfsfólk forðaðist hann.

 

Innst inni vissi Abe að Mort kenndi honum um að hann hefði þurft að hætta í skólanum. Hann hafði aðeins einu sinni nefnt þetta við Mort, fyrir fimmtán árum, eftir jarðarför móður þeirra. Hún varð aldrei söm eftir dauða föður þeirra og þrátt fyrir að læknarnir fyndu ekkert að henni hélt hún áfram að skreppa saman og visna. Jarðarförin var haldin á þungbúnum nóvembermorgni í eyðilegum kirkjugarði. Eftir að bænastundinni lauk hentu bræðurnir hvor um sig skóflufylli af mold ofan á hálfgrafna kistuna. Abe var miður sín, jafnvel meira fyrir hönd Morts en sjálfs sín. Hann hafði kvænst Helen árið áður og átt dásamlegt ár með henni þrátt fyrir veikindi móður sinnar. Hann hafði áhyggjur af því að Mort færi heim í tóma íbúðina. Skýin fyrir ofan höfuð þeirra brustu og það fór að hellirigna. Þau þrjú leituðu skjóls undir tré.

 

Helen tók fyrst til máls. „Komdu heim með okkur, Mort. Vertu hjá okkur í einhvern tíma. Þú ættir ekki að vera einn í dag.“

 

„Við skulum vera saman,“ bætti Abe við.

 

Mort afþakkaði. Vindurinn færðist í aukana og trjágreinarnar slógust til eins og hendur á reiðu barni sem hristir dúkkuna sína. Mort leit ekki á þau.

 

„Gerðu það, Mort. Bara eina nótt,“ bað Helen. Abe var ekki viss hvort bróðir hans kveinkaði sér vegna vindsins eða vegna innri sársauka. Hvort heldur var, neitaði Mort að segja nokkuð. Hann sparkaði í steinvölu og gróf andlitið dýpra ofan í kragann á frakkanum sínum.

 

Abe dró djúpt andann. „Ég hef verið að hugsa,“ sagði hann, „um að það eru liðin þrjú ár. Við höfum unnið saman í þrjú ár. Ég veit ekki hvað ég hefði gert án þín, mér hefði aldrei tekist þetta. En fyrirtækið er í góðu standi núna, gengur mjög vel. Viðskiptin eru í blóma, búið að borga af vöruskemmunni. Við getum ráðið einhvern til að sjá um bókhaldið, endurskoðanda kannski. Þú þarft ekki að vinna þar lengur. Þú getur farið aftur í skólann.“

 

Mort sagði ekki neitt.

 

„Farðu aftur í háskólann,“ sagði Abe. „Það er það sem þig langar til. Þá verðurðu ánægður. Þú getur haldið laununum þínum – þau borga fyrir námið. Við látum helminginn af fyrirtækinu vera áfram í þínu nafni.“

Abe heyrði lágan þrumugný í fjarska. „Það er orðið of seint fyrir það núna,“ sagði Mort og röddin var þrungin öllu því eitri sem hann hafði yfir að ráða.

 

„Af hverju? Þú ert aðeins tuttugu og þriggja ára. Það er ekkert of seint.“

 

„Ég ætla ekki að fara aftur í skólann og gera mig að fífli bara til að þér geti liðið betur!“ Mort hrækti orðunum út í kalt, regnvott loftið. Elding glampaði á himninum og Abe horfði á eftir bróður sínum sem hraðaði sér í burtu.

 

Abe hætti aldrei að reyna að bæta Mort þetta upp. Á yfirborðinu virtust fjölskylduaðstæður þeirra, efnahagur og eigur mjög sambærilegar: Hvor um sig átti helming í fyrirtækinu, helming í tvíbýlishúsinu í Brooklyn, báðir voru kvæntir og áttu nokkur heilbrigð börn. Frá Abes bæjardyrum séð voru þeir báðir mjög heppnir menn og ættu að vera fullkomlega hamingjusamir. Hann vissi þó að bróðir hans var ekki á sama máli.

 

Það sem Abe grunaði, þótt hann ýtti þeim hugsunum yfirleitt til hliðar, var að Mort ásakaði hann ekki aðeins, heldur beinlínis hataði hann. Stundum þegar Abe var alveg að sofna á kvöldin reyndi hann að skilja út af hverju það var. Var hann of kátur? Of ákafur að sýna ást sína á fjölskyldunni og vinnunni? Sýndi hann Mort þetta of greinilega? Fannst Mort óþægilegt að verða samferða í vinnuna á hverjum morgni? Fannst honum verra að þau byggju öll í sama húsinu? Abe hafði alltaf fundist það notalegt fyrir fjölskyldurnar og gaman fyrir eiginkonur þeirra að hafa félagsskap hvor af annarri. Kannski fannst Mort þetta kæfandi.

 

Daginn eftir manndómsvígslu Harrys hætti Abe þessum vangaveltum fyrir fullt og allt. Hann hafði um of margt að hugsa og var orðinn leiður á fýlusvipnum á Mort. Hann var algjör gleðispillir. Meira að segja daginn áður, á leiðinni heim frá athöfninni, hafði hann byrjað að jarma eitthvað um eina sendinguna þeirra, ónáða Abe með einhverju vinnuþrugli á hátíðisdegi.

 

Mánudaginn eftir veisluna ákvað Abe að hann ætlaði að labba einn í vinnuna. Hann skyldi til tilbreytingar njóta þess að rölta þetta í rólegheitum, ekki þrúgaður af sölutölum og hagnaðarumræðum, bara hugsa um nýafstaðna helgi í friði. Hann blístraði á leiðinni og nam annað slagið staðar til að heilsa upp á kunningja sem hann mætti.

 

Hann var næstum kominn að horninu þegar hann heyrði fótatak að baki sér.

 

„Abe!“ Þetta var Mort, að reyna að ná honum. Abe nam staðar við ljósin og beið. Um leið og ljósið varð grænt gekk hann aftur af stað og neyddi þannig Mort til að flýta sér.

 

„Mig langar ekki að tala um sendinguna, Mort.“

 

„Auðvitað ekki.“ Mort var óvenju viðmótsþýður.

 

„Mig langaði bara að …“ sagði Mort og nam staðar til að kasta mæðinni. Þeir höfðu báðir gengið mun hraðar en venjulega. „Mig langaði bara að óska þér til hamingju með soninn.“

 

Abe nam líka staðar. Morgunsólin kom framundan skýi og hann brosti út að eyrum, var ávallt fljótur til fyrirgefningar. Hann greip í öxlina á bróður sínum og klappaði honum á bakið. „Drífum okkur í vinnuna,“ sagði hann.

bottom of page