top of page

Hin ódauðu

Hin ódauðu

Eftir Johan Egerkrans.

 

Frá upphafi vega höfum við, dauðlegt fólk, óttast dauðann. Við kvíðum ekki eingöngu fyrir endalokum lífs okkar og óumflýjanlegum dauða, heldur nær ótti okkar útyfir hina dauðu sjálfa. Nánast hver einasti menningarheimur á jörðu geymir sögur af hrelldum sálum sem fá ekki yfirgefið hið jarðneska svið en reika enn um meðal hinna lifandi þrátt fyrir að þær séu ekki velkomnar þar lengur. Þessum verum má skipta gróflega í tvo flokka.

Vofur og svipir minna á skugga, eru óáþreifanlegir andar sem hjara áfram, líkt og bergmál af lifandi manneskju. Slíkir fyrirburðir geta orðið til þegar manneskja deyr á voveiflegan hátt eða ef hún á einhverju ólokið; kannski vilja þeir koma böndum réttlætis á banamenn sína eða hefna fyrir aðrar misgjörðir. Stundum eru þetta einfaldlega glataðar sálir sem átta sig ekki á að þær eru látnar og halda áfram venjubundnum háttum sínum eins og ekkert hafi í skorist. Hvort heldur er, boða þessir andar sjaldnast neina hættu. Fyrst og fremst eru þetta aumkunarverðar verur, þótt fólki geti brugðið við að rekast á þær. 


Í hinum flokki framliðinna eru mun hættulegri verur. Þetta eru hin hryllilegu lifandi dauðu sem rísa upp úr gröfum sínum til að ofsækja þau lifandi – oftar en ekki sína eigin ættingja. Heilar fjölskyldur, jafnvel heilu byggðarlögin, hafa eyðst vegna slíkra ofsókna. Þetta eru hin ódauðu, og sögur af þeim eru til um allan heim: Frá draugum Skandinavíu til strigoi í Rúmeníu, frá grískum vrykolakas til stökkvandi jiangshi í Kína og beinaberra namorodo í Ástralíu. Í þessum illu og viðurstyggilegu skepnum er enga mannúð að finna, heldur aðeins ólgandi illgirni í garð þeirra sem lifa. Sumar þeirra valda aðeins pirringi; aðrar kreista lífið úr fórnarlömbum sínum og sá um sig brjálæði og sýkja heiminn; en hinar alhættulegustu elta fólk uppi og slátra því til að éta það og drekka blóð þess. Eins og það sé ekki nógu hroðalegt geta þessar óvættir búið yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum; hin ódauðu geta breytt stærð sinni, gert sig ósýnileg, tekið á sig gervi ástvinar eða náins ættingja, eða gufað upp í þoku eða mistur. Mörg þeirra geta breytt sér í ýmis dýr. Kettir, hundar, úlfar, rottur og – að sjálfsögðu – leðurblökur eru algengust en hin ódauðu geta tekið á sig ham hvaða dýrs sem er, frá geitum til hýena, eftir því hvar þau eru niðurkomin í heiminum. Sum þeirra líta út eins og tiltölulega meinlaus skordýr. Grískar vampírur breyta sér oft í mölflugur og hin skaðvænlega adze í Tongó minnir mest á eldflugu. Furðulegustu þjóðsögur um vampírur eru þó mögulega sögur af vampírugraskerjum og –vatnsmelónum á Balkanskaga.

Hin_odaudu_KAPA_FRONT.png
bottom of page