top of page

Fanney Rut Elínardóttir

 

Ilmur af nýbökuðum smákökum stígur upp frá heimilum landsmanna í desember og ilmurinn er líklega hvergi betri en hjá henni Fanneyju Elínardóttur, höfundi Stóru smákökubókarinnar. „Jú það passar, við erum búin að vera ansi dugleg að baka“,

segir Fanney aðspurð um smákökubaksturinn.

„Ég er alin upp á smákökuheimili og það er hann pabbi sem sá og sér enn um baksturinn á því heimilinu. Spesíur, súkkulaðibitakökur, M&M kökur og ýmislegt fleira var og er enn bakað fyrir hver einustu jól. Þannig að það má segja að ég, kannski eins og flestir Íslendingar, alist við smákökubakstur í desember. En við höfum tekið þetta einu skrefi lengra. Við bökum nefnilega líka á milli jóla og nýárs. Þegar við systkinin vorum yngri reyndi pabbi að banna át á smákökum þangað til rétt yfir jólin. Þannig reyndi hann nýja felustaði á hverju ári þar til hann gafst upp að lokium og bauð okkur í fjölskyldunni og gestum og gangandi að fá sér kökur þó ekki væru komin sjálf jólin. Og það er líka miklu skemmtilegra að njóta bakstursins jafn og þétt í desember. Þess vegna fórum við að baka oftar í desember og á endanum tókum við upp á því að henda í eina eða tvær sortir á milli jóla og nýárs líka. Það er kannski besti tíminn til að stunda þetta smákökusport því þá er erillinn í desember að baki og meiri afslöppun möguleg. Hvað er þá betra en nýbakaðar smákökur?“ spyr Fanney að lokum. Við þökkum henni fyrir spjallið og kökurnar og getum um leið gefið Stóru smákökubókinni okkar bestu meðmæli. Í henni er að finna þessar gömlu góðu smákökur, nýjar og spennandi kökur og kökur sem eru sykurlausar og jafnvel hveitilausar. Það því óhætt að fullyrða að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Stóru smákökubókinni. 

Matreiðslubókin Hvorki meira né minna er einnig eftir Fanneyju Rut Elínardóttur, þá 23 ára og kom út árið 2010.

Í uppskriftum bókarinnar er enginn sykur, ekkert hveiti og engin sterkja. Að sneiða hjá þessum þremur atriðum í mataræði hefur verið kallað fráhald, og hentar bókin því einkar vel fyrir alla þá sem eru í fráhaldi. Í bókinni eru 20 uppskriftir að morgunmat og 40 uppskriftir að aðalréttum.

Fanney hefur ávallt haft óslökkvandi áhuga á mat og matargerð og því fór það svo að hún festist í klóm ofáts og matarfíknar. Hún sneri við blaðinu, leitaði sér hjálpar og fer nú eftir kerfinu sem liggur til grundvallar þessari bók. Bókin var prentuð í tvígang og er alveg uppseld, bæði hjá útgefanda og endursöluaðilum.

bottom of page