top of page

ÁTTUNDA DAUÐASYNDIN

Áttunda dauðasyndin er spennusaga um yfirborðsmennsku og hluti sem við viljum halda leyndum, um mannlega breyskleika og skelfileg leyndarmál.

Nóra er vinsæll álitsgjafi, rithöfundur og fyrirlesari, einn þeirra sem telur lesendum sínum og áheyrendum trú um að allir geti orðið hamingjusamir og náð árangri í lífinu bara ef þeir taka sér taki og leggja sig fram.

 

Það gerði hún nefnilega sjálf fyrir tíu árum, þegar hún datt ofan af sjöundu hæð í stigahúsinu heima hjá sér og var næstum dáin. Sjálf man hún bara óljóst eftir þeim atburði.

 

Einn daginn flytur Klara inn í húsið beint á móti henni og það kemur róti á lífið í hverfinu. Á sama tíma hefst Nóra handa við að skrifa enn eina metsölubókina – um dauðasyndirnar – en það gengur ekki vandræðalaust fyrir sig. Hægt og bítandi eltir fortíðin hana uppi. Kannski var það sem gerðist fyrir tíu árum ekkert slys?

 

Áttunda dauðasyndin er fyrsta bók höfundar og sló eftirminnilega í gegn í Svíþjóð þegar hún kom út. Rebecka Edgren Aldén er þróunarstjóri hjá tímaritaútgáfu Bonnier í Svíþjóð og Áttunda dauðasyndin er hennar fyrsta bók.

 

Þýðandi er Sigurður Þór Salvarsson 

„Sálfræðitryllir sem stendur svo sannarlega undir þeim titli. Frásögnin er lifandi og ákaflega vel skrifuð. Ég sogaðist inní sagnaheiminn frá byrjun og naut svo sannarlega ferðalagsins. Virkilega sterk lestrarupplifun.“

Bognorden ★ ★ ★ ★ ★

„Höfundurinn fær mann til að skipta stöðugt um skoðun; frá því að halda að maður hafi allt á hreinu yfir í að hafa ekki minnsta grun um hvað er hvurs. Og það gerist aftur og aftur. // Og ég bíð spennt eftir næstu bók frá þessum spennandi nýja höfundi. Ekki spurning!“

B for bog

„Topp einkunn fyrir þessa fyrstu bók höfundar. Án vafa besti tryllir ársins. Lestu þessa, en gerðu það á daginn!

5+ (af 5 mögulegum).“
Mia's bokhörna

Lestu fyrstu tvo kaflana hér að neðan

         1.

 

„Njótið þið lífsins til fulls? Njótið þið hvers einasta dags? Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað þið eigið? Og hvaða þýðingu það myndi hafa fyrir ykkur ef þið misstuð allt? Ég heiti Nóra Lindqvist og ég er hingað komin til að segja ykkur hvernig maður lifir lífinu til fulls.“ 

   Hún þagnaði og leit full sjálfstrausts yfir áheyrendafjöldann sem fylgdist með henni af áhuga þar sem hún stóð á sviðinu. Hún dreypti á vatnsglasinu fyrir framan sig. Ekki vegna þess að hún væri þyrst, heldur vegna áhrifanna sem þögnin hafði. 

   „Ég var ein þeirra sem var óánægð með flestallt. Ein þeirra sem kvartaði og kveinaði yfir lífinu. Sem fannst að fæst gengi mér í hag. Það var alltaf rigning þegar ég átti frí. Ég vann aldrei í happdrætti. Yfirmaður minn sá ekki það sem ég hafði fram að færa og ég var illa launuð. Ég reifst við manninn minn, honum þótti ekki mikið til mín koma. Ég baktalaði vini mína þegar þeir voru ekki viðstaddir. Ég var of feit, og þreytt, of föl. Ég var einfaldlega eins og flestir aðrir. Óánægð. Síkvartandi. Fórnarlamb aðstæðna. Var óheppin.“ 

   Hún þagnaði aftur og leit yfir viðstadda, reyndi að ná augnsambandi við eins marga og hún gat. 

   „Neglurnar á mér voru alltaf að brotna og hárið á mér aldrei til friðs.“

   Hún yppti öxlum og dró munnvikin niður með ýktum tilburðum. Mannfjöldinn flissaði. Hún beið þangað til hláturinn var dáinn út og kveikti þá á fartölvunni sem stóð á litlu borði við hlið hennar. Skjávarpinn varpaði stórri mynd á tjaldið fyrir aftan hana. Þetta var mynd af henni sjálfri. Fyrir slysið. Hún sat hokin við borð, með vínglas í hendinni og hinn handlegginn yfir maganum, eins og í vonlausri tilraun til að leyna því hvað hann var stór. Hún var klædd í hólkvíða svarta peysu og fætur hennar voru feitir að sjá í þröngum ljósum gallabuxunum.

   Þeir sem sátu fremst brostu kunnuglega. Hún vissi að hún heillaði fólkið. Að áhrif orða hennar urðu enn sterkari þar sem hún stóð þarna ljóslifandi við hlið myndarinnar, gullfalleg og fullkomin á allan hátt. Fólk hreifst af því að einhver sem átti svo mikilli velgengni að fagna hefði líka haft það skítt. Það vakti von. Hún hafði kynnt sér þetta út í ystu æsar. Ekkert var jafnáhrifaríkt og öskubuskusögur. Púpur sem urðu að fiðrildum. Gjarnan á einni nóttu. Líkt og Paul Potts og Susan Boyle, tveir þokkalegir söngvarar sem slógu í gegn á heimsvísu í hæfileikakeppni í sjónvarpinu og seldu í framhaldinu plötur í milljónavís. 

  Hún undirstrikaði því hversu hörmulega hún leit út fyrir slysið. Til að umskiptin yrðu enn greinilegri. Framkoma hennar í dag var sömuleiðis vandlega úthugsuð. Hún mátti ekki vera of áberandi, ekki of falleg. Hún varð fyrir alla muni að vera þannig að áheyrendur gætu samsamað sig henni. Mátti alls ekki vera of ögrandi. Bæði karlmenn og konur urðu að geta dáðst að henni. Hún gætti þess að vera ekki í of hælaháum skóm, og ekki í of flegnum fötum. Og ljósrautt hárið var slegið á látlausan hátt og mátulega sítt.

   Hún setti sig í stellingar. „En svo gerðist nokkuð. Nokkuð sem breytti lífi mínu um alla framtíð. Ég hafði næstum misst allt það sem ég var svo óánægð með. Og áttaði mig á því að þetta er allt sem ég á. Þótt það sé ekki fullkomið þá á ég það. Líf mitt! Og það er bara ég sem get breytt því. Enginn annar.“

   Hún fékk sér vatnssopa á ný meðan áheyrendur héldu niðri í sér andanum. 

   Svo sagði hún þeim frá dimmu kvöldinu í lok október fyrir næstum tíu árum. Hvernig hún hefði rifist við manninn sinn, orðið drukkin, hvernig hann yfirgaf íbúðina og hún æddi út á eftir honum. Hvernig hún hefði hallað sér of langt út yfir handriðið og hvernig hún datt að lokum. Niður sjö hæðir. Hún kunni þessa sögu vel, hafði sagt hana margoft. 

   Hún sýndi þeim mynd af stigaganginum, tekna ofanfrá. Á henni var meira að segja hægt á sjá hversu hrikalega langt var niður á jarðhæðina. Hún heyrði salinn grípa andann á lofti. Kona á fremsta bekk greip fyrir munninn. Nokkrir aðrir brynjuðu sjálfa sig ósjálfrátt með því að taka utan um sig með krosslögðum örmum, samtímis sem þeir þrýstu sér aftur í rauðum bíósætunum, líkt og þannig gætu þeir haldið því sem hún var að segja í hæfilegri fjarlægð. 

   Þeir vissu hvers var að vænta. Það var hluti af kitlandi spennunni. Eins og í grískum harmleik sem nær tökum á áhorfendum strax í fyrsta þætti. 

   Það hafði verið mikið fréttaefni þegar hún datt niður þessar sjö hæðir og lifði af fyrir kraftaverk. Sjálf mundi hún ekkert eftir þessu, læknarnir höfðu miskunnað sig yfir hana og svæft illa farinn líkama hennar. Hún sýndi myndirnar sem teknar höfðu verið af henni. Öll blá og marin, bólgin, vafin sáraumbúðum og tengd við alls kyns tæki með ótal slöngum. Staðan hafði verið tvísýn í fyrstu. Alls hafði hún hlotið tuttugu beinbrot, og sprengt annað lungað aukinheldur. Annað kinnbeinið var brotið, kjálkinn sömuleiðis og annað augað hafði þrýst inn á við. Hún tíundaði þennan hluta sögunnar eins nákvæmlega og þurrlega og henni var unnt. Hún vissi að það þurfti ekki neina leikræna tilburði eða kúnstpásur. Áheyrendur sátu þögulir. Fylgdust með henni á sviðinu, námu sérhvert orð. Hún smellti á nýja mynd. Hún var tekin þremur mánuðum síðar, þegar læknarnir töldu óhætt að vekja hana á ný. Lítil mjóslegin kona, tekin í framan, visin og vöðvarýr. 10 

   „Læknarnir sögðu að ég myndi aldrei ganga framar. Það var eiginlega kraftaverk að þeim tókst að vekja mig. Mannslíkaminn þolir ekki hvað sem er.“

Hún fékk sér vatnssopa, lét áheyrendur meðtaka myndina og öll smáatriðin. Svo tók hún á sig rögg og sagði frá því sem hún hafði svo margsinnis áður sagt frá. Um það hvernig eiginmaður hennar hefði staðið við hlið hennar. Hvernig þau áttuðu sig á því hvað í lífinu væri mikilvægt. Hvernig þau hættu þessum rifrildum sem bara brutu þau niður, og studdu hvort annað í staðinn. Hvernig þau völdu hvort annað og lífið. Það tók hana eitt ár að geta gengið á ný. Í dag, tíu árum síðar, hafði hún að mestu náð fullri heilsu. Nokkrar skrúfur inni í líkamanum, ósýnilegar utan frá. 

   Hún bjó sig undir lokahnykkinn. Hápunktinn.

   „Ég komst að því að þetta snýst allt um vilja. Þetta snýst um að ákveða sig. Þetta snýst um að setja sér markmið, og sjá fyrir sér takmarkið sem maður vill ná. Ég sagði upphátt hvers konar lífi ég vildi lifa, og náði því markmiði.“

   Hún hækkaði róminn ögn.

   „Ég efaðist aldrei. Og maðurinn minn efaðist aldrei.“

   Hún teygði fram hendurnar. Leit út yfir salinn. Svo hélt hún áfram á lágum nótum.

   „Við höfðum ákveðið okkur. Við sögum ekki EF ég næði heilsu, heldur ÞEGAR. Við töluðum um allt sem við ætluðum að gera þegar ég yrði frísk. Hvernig líf okkar yrði. Ég er sannfærð um að það er þess vegna sem ég stend hér í dag.“

   Hún fékk dynjandi lófatak. Hún leit ánægð í kringum sig. Hún var stjarna.

   Og gat sent reikning upp á 45.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

 

 

          2.

Húsið stóð upp á litlum hóli. Og horfði með ögn af yfirlæti niður á einbýlishúsin við götuna. Stærra, eldra og virðulegra en öll hin smáhúsin sem sprottið höfðu upp gegnum áratugina líkt og illgresi fyrir neðan þetta virðulega aldamótasteinhús. Þétting byggðarinnar í kring hafði átt sér stað með skipulögðum hætti að sumu leyti, án þess að ganga of nærri virðuleika hússins. Það var enn stærst, fínast og stóð enn hæst. Og eflaust var það litli hóllinn sem það stóð á sem fyrst og fremst framkallaði virðuleika þess. Húsið var eins og stórbóndi sem af óendanlegri stórmennsku sinni leyfði hinum húsunum að standa í skugganum af sér. Sjónarhornið frá götunni gerði húsið enn stærra en það var í raun og veru. Enginn myndi segja að steintröppurnar sem lágu upp að stóru útidyrunum væru látlausar. Tvö steinljón sitt hvorum megin undirstrikuðu mikilvægið. 

   Frank hafði fundist þau hallærislega íburðarmikil með framteygðar loppurnar, uppsveigt nefið og mikilfenglegan makkann vandlega greiddan. Nóra hafði samsinnt honum hlæjandi, þótt hún hefði innst inni strax tekið ástfóstri við þessi stóru steinrunnu kattardýr. Það voru í raun þau sem fengu hana til að taka ákvörðun. Þetta hús, ekkert annað. 

   Síðan voru næstum átta ár. Þá hafði Albin verið ungbarn, og framtíðin beið þeirra björt og lofandi. Það var ekkert minna en kraftaverk að Nóra hefði lifað af, lært að ganga á ný og orðið barnshafandi að auki. 

   Íburðarmikið húsið endurspeglaði sigur þeirra. Ung fjölskylda sem risið hafði úr öskustónni eins og fuglinn Fönix. 

   En Nóra elskaði ekki bara húsið á laun, heldur líka gælunafn þess. Dómarahúsið. Það var höfðingjabragur á því og hún komst ekki hjá því að líta á þetta táknrænt: Hún var ekki dæmd til að liggja í rúminu það sem eftir var ævinnar, lömuð, misheppnuð, þunglynd. Hún gat gert það sem henni sýndist með lífið. Skapað það sem henni þóknaðist.

   Gælunafnið var komið frá gömlum dómara sem hafði búið þarna lungann af síðustu öld. Samkvæmt nágrönnum sem höfðu búið lengi í hverfinu hafði hann drottnað yfir götunni í óratíma, og flestir í götunni höfðu bugtað sig fyrir honum og dómarahúsinu.

   En einn góðan veðurdag skömmu fyrir aldamótin hvarf dómarinn sporlaust. Flestir gerðu ráð fyrir að hann hefði flutt á elliheimili og andast þar. Í kjölfarið grotnaði húsið niður í einsemd sinni í upphafi nýrrar aldar. Og það liðu tvö ár þangað til nokkrir miðaldra menn sem síðar kom á daginn að voru bróðursynir dómarans, komu til að huga að því. Ekki fengu nágrannarnir neinar upplýsingar um örlög dómarans frá þessum önugu ættingjum hans. Nokkur ár liðu og húsið var áfram mannlaust og húsgögnin söfnuðu ryki. Nágrannarnir skildu hvorki upp né niður í þessu. En einn fallegan síðusumarsdag var dómarahúsið auglýst til sölu. Í auglýsingunni var lögð sérstök áhersla á stærð þess og útlit. Og staðsetninguna vitanlega. Hverfið hafði orðið eftirsóttara með árunum, þrátt fyrir að vera nokkuð langt frá miðborginni. Það voru engar myndir að finna innan úr húsinu í auglýsingunni, en innréttingunum var lýst sem fallegum, upprunalegum en að þær væru farnar að láta á sjá; miklir möguleikar. Það þyrfti að gera húsið upp, með öðrum orðum. 

   Ágústsólin yljaði þegar Frank og Nóra gengu í fyrsta sinn upp steintröppurnar og skoðuðu húsið. Fyrir aftan það var stór garður, allur í órækt. Ávaxtatrén uxu hvert ofan í annað, runnarnir í einni bendu og grasflötin mislit og brunnin. 

   En hafi garðurinn verið villtur og illa hirtur var það ekkert samanborið við ástandið inni í húsinu. Margir þeirra sem skoðuðu það fitjuðu upp á nefið yfir vindlastækjunni sem móskulegt veggfóðrið var gegnsósa af. Þá voru stórar sprungur í loftum og rakablettir á gólfum. En Nóra lét þetta ekki á sig fá. Þvert á móti var eitthvað við þetta gamla broddborgaralega hús sem höfðaði til hennar. Og þegar hún gekk andaktug upp stigann á efri hæðina og kom auga á risastórt málverkið sem hékk á veggnum varð hún eins og bergnumin. Málverkið var í sjálfu sér ekkert sérstaklega fallegt, en skrautlegur og gylltur ramminn var hins vegar tilkomumikill. Sjálf myndin var máluð daufum litum og var af gamla dómaranum í svörtum embættisskrúða. Málarinn hafði ekki lagt sig sérlega fram um að fegra fyrirmyndina, þvert á móti. Andlitið var rúnum rist og beinlínis ófrítt með herptar þurrar varir og gisið hár. En það var eitthvað við augu hans. Frá þeim stafaði valdsmannsbragur og sjálfsöryggi sem höfðaði beint til Nóru. Og samtímis sem hún dróst að þessum augum skutu þau henni líka skelk í bringu. Þetta var augljóslega ekki maður sem maður gantaðist við; maður sem gerði ráð fyrir að sér væri hlýtt og virðing fyrir honum borin. 

   Nóra og Frank vissu að bróðursynir dómarans höfðu ekki haft tíma til að fjarlægja öll húsgögnin úr húsinu. En það kom þeim á óvart að stóra málverkið var enn á sínum stað þegar þau fluttu inn. Hver hafði hann verið, þessi stranglegi dómari? Gömlu rykföllnu húsgögnin sögðu þó sitt af hverju um hvaða mann hann hafði að geyma. Með fram veggjunum stóðu þunglamalegar mublur úr dökkum við, mikið af leðri og silki. Og yfir öllu sveif súrsæt lyktin af dýrum vindlum. 

   Frank hafði verið efins. Það blasti við öllum sem komu að skoða húsið að það væri gríðarleg vinna fyrir höndum til að koma því í gott stand. En Nóra hafði sannfært hann. Og þegar það kom á daginn að aðrir áhugasamir kaupendur drógu sig í hlé, einn af öðrum, og að þeim bauðst húsið að lokum á verði langt undir ásettu verði, var Frank til í tuskið. 

   „Ertu alveg viss?“ hafði hann spurt hana einu sinni enn.

   Og Nóra kinkaði bara kolli samanbitin á svip. Það var eitthvað við dómarann, virðuleika og broddborgaralega útgeislun hússins sem heillaði hana. Kannski gæti þetta hús veitt henni það sem skorti á í lífi hennar?

   Þau urðu vitanlega að taka húsið gjörsamlega í gegn. Hreinsuðu allt innan úr því, loft og veggi. Húsgögnin settu þau í stóra gáma, flest þeirra voru svo illa farin að ekki var einu sinni hægt að setja þau á nytjamarkað. Teppin voru rifin upp og í stað þeirra lagt alvöruparkett og flísar. Veggfóður var rifið af, veggir brotnir niður, nýir gifsveggir settir í staðinn og þeir málaðir hvítir eða veggfóðraðir. Allt var hreinsað út úr baðherberginu á efri hæðinni og það klætt sandsteinsflísum og mósaíkflísum; komið fyrir nuddbaðkari og upphengdu klósetti. Niðri í kjallaranum útbjuggu þau nýtískuþvottahús og gufubað og settu upp sturtuklefa með stærðarinnar sturtu sem auglýst hafði verið í búðinni sem upplifun úr regnskógum Afríku. 

   Þegar öllu var lokið var ytra byrðið eitt eftir – og það fékk upplyftingu í ljónsgulum lit, sams konar lit og Tre kronor-höllin var eitt sinn máluð með. Nóru leið vel með að hugsa það þannig.

   Það eina sem þeim tókst ekki að losna við var vemmileg vindlalyktin. Frank hélt því fram að hann fyndi hana ekki, en Nóra vissi að hann laug til um það.

bottom of page